26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í D-deild Alþingistíðinda. (6090)

223. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Jónas Jónsson:

Herra forseti. — Að vísu álít ég, að allshn. hafi ekki bætt till. í heild sinni. En þar sem þetta er stór n. og vel mönnuð og leggur til breyt. einhuga, sé ég ekki neitt færi á því að reyna að stöðva þann straum og verð að láta þar við sitja að sinni. En ég vil þó fara um þetta mál fáeinum orðum.

Ég álít, að það hafi verið rangt af hv. n. að fara að skrifa þessum aðilum, sem nefndir voru í grg. till., vegna þess að þeir voru aðeins nefndir sem sýnishorn af þeim aðilum, sem líklegir gætu talizt til að ráðast í slíkt fyrirtæki, en ekki þannig, að ég áliti, að það væru þessir aðilar einir, sem þar gætu komið til greina. Og það er alls ekki þess að vænta, að upp úr svona umburðarbréfi, sem allshn. skrifaði þessum aðilum, fáist sérstakur árangur strax, heldur hlaut að koma sem kom, að enginn vildi í fyrstu við það kannast. Ef svo hefði verið að farið, þegar Eimskipafélagið var stofnað, að það hefði verið skrifað þessum um 1000 mönnum, sem að því stóðu, og spurt, hvort þeir vildu vera með, þá hefðu svörin sjálfsagt orðið svipuð og í þessu tilfelli. Aðferðin hjá allshn. í þessu máli hefur verið óheppileg. N. hefur sýnt velvilja, sem þó ekki er hægt að búast við, að neitt gott leiði af, nema ef hæstv. ríkisstj. fylgir málinu betur en hv. allshn. leggur til. Því að hér er sagt í brtt. n., og þannig vill n. orða till.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram athugun á því í samráði við Reykjavíkurbæ, á hvern hátt hagkvæmast væri að koma upp almenningsgistihúsi í Reykjavík.“ Í þessu er engin framkvæmd. Ég skil ekki, að það sé rétt hugsun í þessu að skora ekki á ríkisstj., sem hefur mikið þingfylgi og kjósendafylgi og allt svoleiðis og vill standa fyrir stórfelldri nýsköpun, að framkvæma eitthvað meira en athugun. Það þarf að gera einhverjar haldkvæmar ráðstafanir til þess, að menn, sem í bæinn koma, liggi ekki eins og hundar undir húsveggjum, ef menn ekki af góðsemi taka þá inn til sín. Og ég þykist þess fullviss, að sumir menn í ríkisstj. hafi á þessu áhuga, sem getur verið, að verði að gagni í þessu efni, ef lagt er fyrir hæstv. ríkisstj. að framkvæma þessa till., senda hana t. d. til nýbyggingarráðs. Og segjum, að t. d. nýbyggingarráð eða einhverjir duglegir menn sneru sér til þessara aðila, sem nefndir eru í grg. till., og færu að þrýsta á þá, þá gæti það haft sín áhrif. Það getur verið gott að skora á Reykjavíkurbæ að koma þessu máli í framkvæmd. En vilji hann ekki gera það, verða þeir menn, er til bæjarins koma, að liggja á götunni, ef menn af góðsemi sinni hýsa þá ekki. — N. gat ekki gert þetta. Ég get ekki gert þetta. En ef t. d. ríkisstj. í samráði við Reykjavíkurbæ vildi leysa þetta, þá er ekki vafi á því, að sumir aðilar, sem ekki hafa gefið jákvæð svör um þetta, mundu koma til hjálpar, ef rétt væri farið að. Ég er ekki eins bjartsýnn og hv. frsm. um það, að Reykjavíkurbær muni leysa þetta mál. Auðvitað er, að ef maður kemur til hv. 2. þm. Rang. austur við Rangá, býður hann honum inn strax. Það gerum við hver fyrir sig. En ég veit ekki til þess, að neinn kaupstaður hér á landi hafi sem slíkur byggt gistihús. K. E. A. byggði gistihús að vísu, en það er einkastofnun. — Nú getur Reykjavíkurbær gert þetta, ef hann vill, en hann hefur ekki sýnt neina löngun til þess. Og þó að Reykjavík ætti að gera þetta, getur vel verið, að Reykjavík segi: Ég vil gera þetta, ef ég er ekki ein í því; en ég er ekki að biðja þessa menn að koma hingað. — Þess vegna hygg ég, að framkvæmanlegast verði þetta fyrirtæki, ef margir standa undir því. Það gekk illa að láta Hótel Borg bera sig, meðan kreppan var. Og sjálfsagt má gera ráð fyrir, að þetta gistihús, sem hér er lagt til, að byggt verði, verði ekki gróðafyrirtæki. Ég get þó hugsað mér, að gæti gengið betur með það en með Hótel Borg, með því að hafa eitthvað aðra skipun á því, og fer ég ekki meira út í það hér. Aðalatriðið er að sjá þeim gestum fyrir gistingu, sem til bæjarins koma.

Það er ekki mitt að svara fyrir Reykjavíkurbæ. En ég hef ekki trú á því, að Reykjavík detti nokkurn tíma í hug að byggja svona gistihús. Og ef Reykjavík gerir það ekki, verður gistihúslaust eða fleiri verða að koma í málið. Þegar Hótel Borg var byggð, hefði ekki verið hægt að byggja svona hús árið 1930, þó að ríkinu lægi á því og Reykjavík lægi á því og Þingvallanefndinni lægi á því, ef ekki hefði komið maður, sem átti 200 þús. kr., og sagt: Ég vil leggja þetta í gistihús. — Það skar úr. Svo kom Reykjavíkurbær og ríkið og greiddu fyrir þessu fyrirtæki. Og þannig gekk það. Þrír aðilar reistu hótelið. En það er ekki minnsta ástæða til að halda, að Reykjavíkurbær hefði gert neitt í því einn.

Ég mun greiða atkv. með þessari brtt. hv. allshn. Hún er að vísu óheppilega orðuð, miðað við framgang máls þess, sem till. er um. En það er ekki hægt að fá betra fram heldur en þetta. Og við verðum að vona, að hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar, þó að þeir séu andstæðir hver öðrum, reyni að koma þessu máli í framkvæmd.