14.09.1944
Sameinað þing: 41. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í D-deild Alþingistíðinda. (6129)

93. mál, bátasmíði innan lands

Flm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Efni þessarar þáltill., sem flutt er af hv. þm. Ísaf., hv. 9. landsk. og mér á þskj. 285, er í sjálfu sér ekki nýtt. Það hefur verið rætt nokkrum sinnum áður hér á Alþ. í svipuðu formi. En ástæðan til, að ég tel rétt, að það komi hér fram að nýju, er sú, að svo má heita, að stöðvun sé á skipasmíðum innan lands. Ég ætla, að það sé mjög lítið af skipum, sem nú er í smíðum samanborið við það, sem áður var, og því full ástæða til að athuga, hvort möguleikar séu á að auka það frá því, sem nú er.

Önnur ástæða fyrir því, að við berum fram till., er sú, að líkur hafa virzt til, að ráðizt yrði í að kaupa erlend skip inn í landið í stríðslok og því fé, sem Alþ. hafði ætlað til að styðja að nýsmíðum skipa, yrði ráðstafað að mjög verulegu leyti til þeirra skipakaupa. En einn megintilgangur till. er að tryggja, að ekki yrði loku fyrir það skotið, að einhver styrkur mætti verða eftir til skipasmíða innan lands.

Hér á Íslandi eru nú starfandi 26 skipasmíðastöðvar, sem smíða skip og báta. Þær hafa á síðustu þrem árum smíðað 44 skip, samtals hátt á annað þúsund smálesta, og er það meginið af þeim fiskveiðiskipum, sem landsmenn hafa fengið, síðan stríðið hófst. Innflutningur á skipum átti sér síðast stað árið 1939. Þá voru flutt inn 13 skip. Þau voru 30 ára að meðaltali, svo að ekki var um ný skip að ræða. Við þessar skipasmíðar innan lands hafa unnið á undanförnum árum hátt á fjórða hundrað manns, bæði af faglærðum og ófaglærðum mönnum. Það er bersýnilegt, að það er hætta á ferðum, ef þessi vinnubrögð leggjast niður að meira eða minna leyti, hvað þessa menn snertir, því að þetta er ekki svo fámennur hópur. Enn fremur er mér kunnugt um, að á þessu ári hafa skipasmíðastöðvarnar lagt í aukakostnað, og veit ég til þess, að 5 eða 6 af þeim hafa í undirbúningi smíði á nýjum dráttarbrautum og hafa notað þá möguleika, sem þær hafa öðlazt nú, til að verða samkeppnisfærar. Afkastageta í smíðum auk viðhalds á skipastólnum hefur verið áætluð 1000–1500 smálestir á ári, en vitaskuld væri hægt að auka það verulega samkvæmt þessu frv., ef meiri kraftur væri í það lagður.

Ég vil svo í örfáum orðum lýsa því, sem er næsta aðalatriðið í málinu, en það er verðlagið á innlendum skipum samanborið við verð á þeim skipum, sem við eigum kost á að fá frá Svíþjóð. Samkvæmt skýrslu, sem skipasmiðir gáfu hér á móti, sem þeir héldu í marzmánuði síðastliðnum, var talið, að smíðakostnaður hér heima á fullbúnu 50 smálesta skipi mundi verða milli 9 og 10 þús. kr. á smálestina eða að meðaltali 9500 kr., og ætla ég það ekki mjög fjarri sanni. Nú er hins að gæta, að öll þessi starfsemi hefur verið að meira eða minna leyti óskipulögð, t. d. efniskaup og annað, sem þurft hefði til að bæta árangurinn, svo að ég hygg, að þessar tölur mætti færa niður, ef góð forysta fengist í málinu einhvers staðar frá og við með þessari till. ætlumst til, að komi frá ríkisstj. Þess er líka að geta, að í þessum 9500 kr. er talið, að séu innifaldar 3000 kr. í farmgjöld, toll og vátryggingu á efninu, sem til bátanna þarf að kaupa. En þetta yfirlit var samið, áður en farmgjöldin lækkuðu, og sú lækkun mun nema um 1000 kr. á smálest, þannig að verðið ætti ekki að þurfa að vera nema 8500 kr. á smálest eftir þessum útreikningi. Verðlag á þeim skipum, sem nú er talinn kostur að fá frá Svíþjóð á næstunni, er þannig, að tilboð í 50 smálesta bát er 210 þús. sænskar kr., en það má ætla, að með kostnaði við heimflutning yrði 350–360 þús. ísl. kr., þannig að hver smálest ætti að vera eitthvað á 8. þús. kr. Virðist þá kostnaðarmunur á erlendum skipum og skipum smíðuðum hér heima ekki vera nema 1 þús. kr. eða tæplega það, eins og málin standa nú. En ég stend í þeirri meiningu, að ef aðgerðir í þessum málum yrðu samræmdar, t. d. efniskaup gerð í einu lagi og stórum stíl að stríðinu loknu, mætti enn færa kostnaðinn niður. Það hefur nú verið svo, að menn eru misjafnlega trúaðir á þessa hluti, og flestir hafa takmarkaða trú á þessari starfsemi hér heima. Hefur þó komið í ljós, að hér á Íslandi hafa skipasmiðir verið samkeppnisfærir og afkastað verulega miklu til að auka íslenzka skipastólinn. Og ég álít það mikinn skaða, ef þessi starfsemi þyrfti annaðhvort að dragast saman eða falla niður.

Ég vil taka það skýrt fram, að með þessari till. er ekki verið að setja fótinn fyrir þá viðleitni að reyna að fá erlend skip, heldur eingöngu að reyna, hvort ekki mætti auka að verulegu leyti þennan iðnað í landinu og tryggja, að sú aðstoð, sem ríkið hefur ákveðið að veita til skipakaupa, verði ekki eingöngu notuð til styrktar innflutningi erlendra skipa, án þess að skipasmíðar innan lands komi þar til greina. Till. er fyrst og fremst áskorun til ríkisstj. að reyna að koma þessum málum fram, og að rannsókn lokinni, ef niðurstaða hennar reynist vera eitthvað nálægt því, sem ég get til, þá hefjist aðgerðir þær, sem í till. segir, um efnis- og vélakaup undir forystu ríkisstj.

Ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum, en það mætti vel vera, að rétt væri að fresta umr. og vísa málinu til n. á þessu stigi.