17.10.1944
Sameinað þing: 56. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í D-deild Alþingistíðinda. (6146)

167. mál, verðlagsvísitalan

Jón Pálmason:

Í þeim umr., sem hér hafa farið fram, hefur verið bent á ýmis atriði, sem sanna, að vísitöluútreikningurinn er á ýmsan hátt gallaður, og ég held, að svo hafi verið alllangan tíma og hlýtur að verða svo með því skipulagi, sem er á þessum málum. Það er ekki furða, þótt mönnum fari að ofbjóða, þegar vísitölupólitíkin gengur svo langt, að það er sölubann á aðalframleiðsluvörum um margra vikna skeið, af því að verið er að halda niðri vísitölunni. Eina ráðið, sem gæti komið í veg fyrir þessar misfellur, er það, sem frá upphafi hefði átt að taka, að reikna vísitöluna fyrir lengra tímabil í einu. Það er rétt, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði, að neyzlan er mjög misjöfn eftir árstíðum, en þegar tekið er inn í vísitöluna sama magn á hverjum mánuði, hlýtur að leiða af því skekkju, og þessi skekkja væri ekki, ef vísitalan væri reiknuð fyrir styttri tíma í einu. En ég hef þó ekki trú á, að hægt væri að fá rétta vísitölu með því að reikna hana svo oft, og tel hví rétt að taka til athugunar, hvort ekki væri rétta leiðin að fara að reikna vísitöluna fyrir lengri tímabil í einu. Nú er ætlunin að halda vísitölunni sem fastastri, og því ætti þetta að koma að minni sök en ella mundi. Og það ætti að mega finna einhver ráð til að tryggja það án róttækra aðgerða, að alltaf væru til þær innlendu framleiðsluvörur, sem fólkið vill kaupa. Ég vil benda þeim á þetta, sem fá þessa till. til afgreiðslu.