28.09.1944
Efri deild: 51. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í D-deild Alþingistíðinda. (6364)

111. mál, erlendar innistæður

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. — Það er nú nokkuð síðan þetta mál var til umr., og þá var það hv. þm. Barð., sem ræddi það. En af því að það var ekki alveg kjarni málsins, sem kom fram hjá honum, þá er ég að hugsa um að láta bíða að svara honum, þangað til ég hef vikið að ræðu hv. 7. landsk. þm.

Það gætir nokkurs ósamræmis í málsmeðferð hv. 7. landsk. viðvíkjandi þessari fyrirspurn. Hann sagði fyrst, að það hefði átt að neita henni á Alþ., en síðar segir hann, að það sé heiður, að fyrirspurnin sé rædd hér. Hann styður hana og flytur um hana klukkutíma ræðu. Og það hefur sannarlega verið til góðs, að vanþekking hans hefur komið fram hérna. Þess vegna held ég, að hann ætti að vera glaður yfir því, að hæstv. forseti gerði það með glöðu geði að styðja að því, að þessar umr. færu fram um, fyrirspurnina hér í dag. — Annars hefur ræða hv. 7. landsk. þm. orðið til þess, að það hefur komið í ljós, — eins og reyndar mátti búast við eftir ræðu hv. 2. þm. Reykv., — að það vakir fyrir þm. Sósfl. að koma því inn hjá mönnum, að það sé orðin bylting hér. Þetta hefur skýrzt fyrir hinum flokkunum við ræðu hv. 7. landsk. í þessu máli. Þeir vilja koma því inn, að þm. ráði hér yfir fé einstakra manna og geti gert við það hvað sem þeir vilja. En það er töluverður galli eða misskilningur, að þeir skuli ekki vera alveg vissir um það, hvort byltingin er orðin eða ekki. Og það veit ég, að faðir Lenin hefur ekki haldið, að byltingin í Rússlandi væri orðin, áður en hún varð.

Hæstv. fjmrh. tekur þetta mál eins og allur þorri skynsamra manna á landinu gerir. Hann veit, að ríkissjóður á ekkert af þessum 580 millj. kr., heldur einstakir menn. Hann veit, að þessu fé verður ekki ráðstafað nema af þeim sjálfum, sem eiga féð, svo framarlega sem hér sé ekki orðin bylting. En ræða hv. 2. þm. Reykv. í útvarpið á dögunum gerir ráð fyrir hinu, alveg eins og ræða hv. 7. landsk. þm. nú. Í þessari ræðu hv. 2. þm. Reykv., sem birtist í Þjóðviljanum 13. sept., gengur ræðumaðurinn hiklaust að því að raða niður, til hvers á að verja þessu fé. Og það er ekki neinn efi á því, að það á að fá fyrir það 20–30 nýja diesiltogara af beztu gerð, 200–300 nýtízku vélbáta. Fyrir þessa upphæð eigum við að kaupa á næstu 4–5 árum hentug millilandaskip. Svo eigum við líka að koma upp verksmiðjum fyrir þetta fé, hraðfrystihúsum og niðursuðuverksmiðjum. Svo á að gera byltingu í landbúnaðinum og rækta á 4–5 árum meira en ræktað hefur verið á öllu landinu allt til þessa, síðan landið byggðist. Svo á enn fremur fyrir þessar milljónir að kaupa miklu stórfelldari raforkuvélar en keyptar voru til Sogsvirkjunarinnar og Laxárvirkjunarinnar. Þá á einnig að koma upp fyrir þær áburðarverksmiðju og sementsverksmiðju, — og fyrir nokkur hundruð milljóna á svo að kaupa eldhústæki og innanhústæki til þess að létta lífið fyrir húsmæðrunum, o. s. frv.

Þegar við athugum, að þessi ræða er flutt á sjálfu hæstv. Alþ. og henni er útvarpað, og það er verk Alþ. að ráðstafa ríkissjóði, — það hefur heimild til þess undir því þjóðskipulagi, sem nú er, en ekki fé einstakra manna, — þegar því einn hv. þm. talar um þessi firn og fádæmi í þingsalnum og fyrir landslýðnum sem þingmaður, þá er ekki vafi á því, að það er gert í þeim tilgangi, að alþýða manna geri ráð fyrir, að þetta heyri undir ráðstafanir þingsins, — þarna séu peningar, sem ríkið hafi með að gera. Þess vegna spyr ég um þetta, og hæstv. ráðh. svarar því, að þetta hjá hv. 2. þm. Reykv. sé allt tóm vitleysa og sömuleiðis hjá hv. 7. landsk. þm., sem talaði hér í dag, því að þessir fjármunir séu einkaeign landsmanna, margra sparifjáreigenda. Af þessu leiðir, að ræður þessara hv. þm. falla allar um sjálfar sig, að því er snertir þetta efni, allur þessi umbúnaður svona upp settur, að Alþ. hafi með þetta að gera.

Það er nú talið, að flokkur hv. 7. landsk. þm. geri út færeyskt skip hér við land, — ég veit ekki, hvað það heitir. Það er dregið í efa, að það sé sjófært. Og það er rekið með færeyskum sjómönnum, af því að þeir eru ódýrari en þeir íslenzku. Það er talið, að flokkur hv. 7. landsk. þm. hafi þetta með höndum. Nú vil ég vita, hvað hv. 7. landsk. þm. segði um það, að Alþ. færi að ráðstafa þessu færeyska skipi, ef við í fjvn. tækjum gróða þess, sem ég þykist vita, að sé mikill. — Vinur okkar á Húsavík sendi okkur ljósmynd af þessu skipi, þar sem það var hlaðið upp fyrir öll hleðslumerki, svo að gera má ráð fyrir, að gróðinn sé mikill af þessu skipi. Og ef við í fjvn. segðum: Þetta er of mikill gróði, skipið er hlaðið upp fyrir öll hleðslumerki, og ekkert er líklegra en allir Færeyingarnir drukkni, við ætlum að ráða yfir þessum gróða, — þá býst ég við, að útgerðarmennirnir mundu vitna í stjórnarskrána og alls konar „úrelta“ löggjöf og segja: Þetta kemur ykkur ekkert við. — Og eigandi eða umráðamaður þessa skips er, að mér skilst, flokksbróðir hv. 7. landsk. þm. Hann vann við að ráða verkamenn til setuliðsins og græddi svo mikið á því, að hann varð að greiða 67 þús. kr. í útsvar það ár. Eftir skilningi hv. 7. landsk. þm. þá hefði Alþ. og ríkisstj. getað rokið til og sagt: Hér er stórfé, sem þessi maður hefur grætt, við skulum byggja fyrir það fæðingardeild við Landsspítalann — eða eitthvað þvílíkt. Ef sósíalistar vilja láta hið opinbera ráðstafa annarra eignum, þá geta þeir átt á hættu, að farið verði að tala um þá sjálfa og eignir þeirra líka.

Annars hygg ég, að tilgangur hv. 2. þm. Reykv. hafi verið aðeins sá að gefa þjóðinni falska skýrslu um málið. Og þessi fyrirspurn er komin fram til þess, að málið skýrist, og til þess, að sú blekking, sem hún stefnir að, verði síður ráðandi í landinu. — Og það er alls ekki í fyrsta skiptið, sem þessi skoðun kemur fram, að erlendar inneignir séu allt annars eðlis en þær eru. Því var lengi haldið fram manna á milli, að það væru fáeinir auðmenn, sem ættu þetta. Og frá sjónarmiði kommúnista var auðvitað sjálfsagt að taka þetta fé allt af auðmönnunum. Svo var það, að einn bankastjóri Landsbankans, sem á sæti hér í hv. d., hélt fyrirlestur um þetta. Ég geri ráð fyrir, að það hafi verið af því, að hann hafi álitið, að þessar villandi kenningar væru ekki til bóta fyrir fjármálalífið í landinu. Hann skýrði frá, að meiri hluti þessa fjár væri sparisjóður, og hann sagði, að 47 þús. sparisjóðsbækur væru til um inneignir í Landsbankanum. Og þegar svo eru teknir aðrir sparisjóðir og hinir bankarnir, þá er kannske ekki ósennilegt, að sparisjóðsbækurnar verði 100 þús., en náttúrlega er ekki víst, að eigendurnir séu jafnmargir. — Eftir þessa ræðu varð óhægra að halda því fram, að það væru svo sem aðeins 2–3 milljónerar, sem ættu erlendu innstæðurnar. Og það kom líka fram óánægja yfir þessari ræðu hjá sósíalistum, sem sást á því, að snúið var út úr ræðunni, og á fleiru, vegna þess að menn eins og hv. 7. landsk. voru óánægðir yfir því, að þessi skýring kom fram. Ég heyrði einu sinni verkamann úr Reykjavík, sem átti að vita betur, halda því fram á almennum bændafundi, að það mætti taka 60 milljónir af þessum erlendu innstæðum og leggja í landbúnaðinn. Og maður hefur líka heyrt talað um það í sambandi við uppbætur á verði landbúnaðarafurða, að það mætti standa undir þeim með þessum erlendu innstæðum.

Það er svo langt frá því, að það sé tilgangslaust að tala um þetta mál. En sá misskilningur hygg ég, að hafi komið fram hjá hv. þm, Barð., því að það ríkir ekki aðeins hjá Sósfl. misskilningur um þetta mál, heldur víðar. Maður tekur það ekki svo mjög alvarlega, þótt viðvaningar eins og hv. 7. landsk. taki málið eins og hann hefur talað hér. Það er verið með ýmsar bollaleggingar um, hvernig eigi að ná þessu fé, og maður heyrir stundum það í því sambandi, sem getur verið dálítið til skemmtunar. T. d. er það, að maður, sem til skamms tíma var flokksbróðir hv. 7. landsk., tók sér fyrir hendur í vetur að mynda um sig nokkurn hóp áhugamanna til þess að finna, hvernig bjarga ætti atvinnulífinu í landinu. Honum var ljóst, að ekki var hægt að ganga að þessum 500 milljónum úti í löndum eins og væru þær eign hins opinbera. En til þess að ná þessum peningum undir umráð ríkisvaldsins og Alþ. þá vildi hann fella krónuna um 25%. Hann skildi sambandið á milli innstæðnanna hér í bönkunum og inneignanna erlendis. Þess vegna ætlaði hann að minnka krónuna svo mikið, að nokkuð af erlendu innstæðunum yrði eign bankanna. Þegar hann væri búinn að ná þessu fé undir bankana, býst ég við, að hann hafi viljað með einhverjum skattakúnstum ná þessu fé frá bönkunum í ríkissjóðinn. Hann sýndi þetta ýmsum mönnum, m. a. mér. (BBen: Var hann þá í Kommúnistaflokknum enn þá?) Hann hefur verið þar á sínum tíma. En hann kom til mín sem gamals manns, og ég svaraði honum eins og sómdi minni elli. Svo ætlaði hann að láta landbúnaðinn fá nokkuð af þessu fé. Og sá landbúnaður átti að vera eftir rússneskri fyrirmynd. Þar áttu 10 fjölskyldur að búa á einni jörð og ráðsmaður vera yfir, ráðinn til 10 ára af ríkisstj., og húsmæðurnar áttu að elda til skiptis í eldhúsinu. Þegar ég hafði hlustað á þennan unga mann, sagði ég við hann: Ég þakka þér fyrir þessa skemmtun. — Það fór eins og oft, þegar ellin getur ekki samsinnt æskunni, og ég átti erfitt með að trúa, að það gæti gengið vel að 10 húsmæður elduðu hver ofan í aðra. — En þessar og þvílíkar bollaleggingar eru alltaf á gangi í landinu út af þessu stöðuga umtali kommúnista um að þarna séu peningar í erlendum innstæðum, sem þing og stj. geti ráðstafað. Og án þess að ég ætli að svara hv. 2. þm. Reykv. út af ræðu hans, ætla ég aðeins að segja það, að þótt þessar 580 milljónir væru teknar, sem hann taldi, að væru fyrir hendi í erlendum innstæðum, — en þær eru ekki svo margar til, enda talaði hann stundum um 500 millj., — þá er kostnaðurinn við að gera þessa hluti, sem hann talaði um, svo mikill, að t. d. til þess að hægt væri að smíða hér togara, þá mundi það eftir núgildandi verðlagi kosta 7 millj. kr., eins og útvegsmenn vilja hafa þá hér. Og þessir 200–300 vélbátar mundu kosta hlutfallslega eins mikið fé. Og dálítil umbót á Sogsvirkjuninni mundi kosta 40 millj. kr., sem þó mundi ekki leysa vandamál Reykjavíkur og næsta nágrennis um raforkumál. Það væri þannig ekki hægt að gera nema lítinn hluta af því, sem kommúnistar tala um, þó að þessu fé væri ráðstafað.

Niðurstaða mín í því, sem ég vil segja við hv. 7. landsk. þm., er þetta, að til þess að nokkur brú sé í kenningum hans í þessum efnum, þurfa þeir, sem þeim halda fram, að byrja á því að upphefja eignarréttinn, sem einstaklingar hafa á þessum milljónum. En þeir eru ekki búnir að gera það, og meðan það er ekki gert, er allt tal þeirra í þessum efnum ekkert annað en munnfleipur. Og þó að ég og mínir ástkæru vinir á Húsavík vildum fá þessa peninga til þess að kaupa fyrir vélbáta, þá yrði ekki tekið tillit til þess frekar en þótt hv. 7. landsk. kæmi og beiddi um slíkt. Bankastjórarnir eru trúnaðarmenn þeirra, sem eiga þetta fé, þ. e. almennings, og á þeim hvílir ábyrgð á því að vinna á móti því, að þessar villandi kenningar séu uppi, sem hv. 7. landsk. heldur hér á loft um það, að taka megi þessa peninga og ráðstafa af alveg óviðkomandi mönnum.

Ég álít, að tilgangi mínum með fyrirspurn þessari sé náð á þann hátt, að þar sem þessi blekkingarræða var flutt á Alþ. í útvarpi, þá hafi þessar umr. hér, sem að vísu er ekki útvarpað, haft sína þýðingu. Það var ekki svarað í útvarpi þessum blekkingum, sem bornar voru fram um sparifjáreign almennings í landinu. Og þess vegna áleit ég rétt, úr því að búið var að gera þetta að þingmáli, að það væri skýrt, eins og nú er orðið, ekki sízt fyrir tilverknað hæstv. fjmrh.

Fyrir utan sjálft málið hefur svo verið ýmislegt gamansamt, sem fram hefur komið hjá hv. þm., svona eins og blómkögur í kringum sjálft málið til fegurðar. — Eins og vænta mátti frá svo áhugasömum þm. og hv. þm. Barð., þá lét hann þetta til sín taka. Hann byrjaði með því að taka ákaflega illa þessari fyrirspurn, þegar hún kom fram, og lét í ljós nokkra gremju þá strax yfir því, að hún var fram komin. Þetta var mér torskilið vegna þess, að ef hér var fast land undir fótum, þá hefði hans prýðilega kjördæmi haft gott af því. En ég hygg, að það hafi komið í ljós síðar, að hv. þm. hafi komið þar fram sem „ambassadör“ eða sem sérstakur sendimaður kommúnistadeildarinnar í flokki sínum til þess að sýna samúð þeim í Sósfl., sem hafa orðið þarna fyrir nokkru spaugi. Þetta er kannske ekki svo ákaflega erfitt fyrir hv. þm. Barð., af því að hann mun hafa hallazt að nazistískum trúarlærdómum á fyrri árum, meðan sú skoðun hafði meira veraldargengi en nú. Og af því að ekki er svo ákaflega langt á milli kommúnismans og nazismans, hafa þessi ambassadörsspor ekki verið eins ákaflega erfið fyrir þennan hv. þm. og ef lengra bil hefði verið þar á milli.

Svo fór hv. þm. Barð. að kenna í brjósti um mig fyrir það, að ég gæti hvergi skrifað í blöð og þess vegna hefði ég viljað koma máli mínu á framfæri í útvarpi. Ég þakka hv. þm. umhyggju hans í þessu efni. En hann er áreiðanlega allra manna duglegastur í að auglýsa sig, og enginn auglýsir sig eins og hann. Það er talið að hann hafi töluverðan skrifarahóp í kringum sig, — eins og þegar tornæmir nemendur hafa kennara í kringum sig. Og þegar hann kemur að vestan úr kjördæmi sínu, þá koma þessi prýðilegu viðtöl frá verksmiðju hans, sem framleiðir skrifin, þannig að þegar hann kemur að vestan, þá segir hann einhver stórtíðindi, eins og t. d. það, að kjósendur hans bíði eftir því, að eitthvað verði gert í dýrtíðarmálinu, og þá ætli þeir að fallast á það. — Hann hefur kannske ekki nægilegt yfirlit yfir þennan skrifarahóp. —

En það má nú ekki teljast neitt fjarska mikið, þó að einn þm. komi með fyrirspurn, þegar mánuður er liðinn af þingi. Ég hef nú verið svo óduglegur að koma ekki að öðru leyti með neitt þingmál, síðan þing byrjaði að þessu sinni. Hv. þm. Barð. veit, að honum þykir nokkuð miklu skipta auglýsingastarfsemi, og honum hefur dottið í hug sú fjarskalega fjarstæða, að það væri auglýsing fyrir mig að koma með eina fyrirspurn.

Þá minntist hv. þm. Barð. á eitthvert þskj., sem hann tiltók, að hefði verið frá mér og verið allt of langt. Ef ég hef skilið þennan hv. þm. rétt, þá átti hann við frv., sem honum þótti, að mér virtist, leiðinlegt. Það er eitt með fleiri þskj., sem gefin hafa verið út í sérstakri bók og selzt mikið og verið lesin mikið úti um land. Ég vil ekki særa hv. þm. Barð. út af rithöfundartilhneigingu hans. En þó að hann vildi gefa út þau skjöl, sem hann ungar út með sínum prýðilegu hjálparkokkum, þá mundu þau ekki seljast eins og þetta þskj. mitt, sem ekki aðeins hefur orðið til gamans, heldur til þess að skýra málið, sem það var um. Og úr því að hann minntist á, að ég fengi ekki að skrifa í blöð, þá er því til að svara, að ég er nú orðinn aldraður maður og er ritstjóri að tveimur tímaritum, og annað þeirra er fjölkeyptasta og fjöllesnasta tímarit á landinu. Og kraftar mínir eru þannig, að ég anna ekki meiru nema með því að fá mér skrifara, sem ég hef ekki gert. — Og þar að auki vill svo til, að þegar ég var á gangi hér inni í þingsal, þá segir maður við mig, að þetta þskj. sé komið út í Vísi. Og var það, án þess að ég hefði nokkuð um það beðið. En þetta þskj. þótti svo gott, að Vísir tók það upp.

Nú vil ég, að hv. þm. Barð. reyni að gera svo góða fyrirspurn, að Tíminn taki hana sem leiðara. Ef það má ekki verða, þá vil ég samt sem áður, að hann geti haft fullan svefn fyrir því, að ég eigi ekki eins bágt í þessu efni og hann hefur haldið.