28.09.1944
Efri deild: 51. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í D-deild Alþingistíðinda. (6365)

111. mál, erlendar innistæður

Kristinn Andrésson:

Herra forseti. — Ég skal ekki þreyta mikið umr. lengur. — Það er hart að þurfa að hlusta hér á þessa þvælu hér í þingsölum, bæði að því er snertir ræðu hæstv. fjmrh. og ræðu hv. þm. S-Þ.

Hæstv. fjmrh. lagði mikla áherzlu á, að það væri ekki hægt að kaupa neitt fyrir þessar inneignir landsmanna, nema samþykki sparifjáreigenda innan lands fengist til þessara kaupa. Og hv. þm. S-Þ. hélt, að það þyrfti sósíalistíska byltingu fyrst til þess að framkvæma þessa hluti. Hæstv. fjmrh. talaði einnig um, að eitt væri teoría og annað praxís í þessum efnum, og þó að bankarnir væru skráðir eigendur þessara peninga, þá væru hinir raunverulegu eigendur þessa fjár einstakir landsmenn.

En hver mundi svo þessi praxís verða? Hver ástæða er til að halda það, að eigendur þessa fjár hér í sparisjóðum og bönkum innan lands vildu ekki verja því fjármagni til þess að tryggja atvinnu í landinu? Það þarf áreiðanlega enga byltingu hér í landinu til þess að fá þetta fé. Það hefur ekki staðið á landsmönnum hingað til um að koma á framkvæmdum í landinu, heldur þeim, sem fara með gjaldeyrismálin og bankamálin. Það stóð ekki á byggingamönnum hér um árið um að byggja hér í landinu, heldur gjaldeyrinum og leyfi til þess að fá að flytja inn efni til bygginga. Og enn mundi svo vera, að það stæði ekki á eigendum fjárins til að framkvæma fyrir það nytsama hluti. Það er ekki nokkur maður, sem talar í alvöru um, að það þurfi að taka þetta fé eignarnámi til þess að því verði varið til framkvæmda í landinu. Það er það, sem þjóðin þráir, að ávaxta fé sitt á þann hátt, að það verði jafnframt til þess að auka framleiðsluna. Hvernig er hægt að ávaxta þetta fé betur en einmitt með því að byggja upp atvinnulífið í landinu? Það er vitanlega á margan hátt hægt að gera slíkt. Menn vita, að öll útboð, sem gerð hafa verið undanfarið, hafa gengið þannig, að eftirspurnin hefur verið margföld á við framboðið á skuldabréfum. Og hvort sem hlutafélög væru stofnuð til þess að koma framleiðsluframkvæmdum á eða bæjarfélög eða aðrar stofnanir gengjust fyrir því, þá er áreiðanlegt, að þá mundi ekki standa á mönnum innan lands um að leggja fram féð. Það er á gjaldeyrisyfirvöldunum og þeim, sem umráðarétt hafa yfir þessu fé, sem allt stendur, en ekki þeim, sem „raunverulega eiga þetta fé“, svo að tekin séu upp orð hæstv. fjmrh. Það er einmitt krafa almennings, sem á þetta fé, að því sé varið til þess að tryggja afkomu landsmanna. Það er ekkert annað en fáránaháttur að vera að tala um annað eins og það, að þetta fé fáist ekki til framkvæmdanna.

Hv. þm. S-Þ. talaði um gamansemi hjá mér í þessu máli. Það má líka tala um gamansemi hjá honum. Það er hart, að maður, sem er í fjvn. og í bankaráði Landsbankans, skuli koma með slíka firru hér fram eins og þessa fyrirspurn. En það er líka allt annað, sem liggur á bak við hjá þessum mönnum. Þeir vita, að það er vilji hjá almenningi til framkvæmda í landinu, en þessir menn, sem að þessari fyrirspurn standa, vilja hindra það, að atvinnulífið blómgist. Þeir vilja, eins og kemur fram í grg., að þessar inneignir verði að engu og atvinnuleysi haldist, svo að þeir geti í skjóli þess atvinnuleysis komið fram ofbeldisráðstöfunum sínum. Þessir menn sjá ekkert annað en ofbeldi og eignarán í öllum hlutum, og þeim dettur aldrei í hug, að það sé nein samkomulagsleið til um það að fullnægja vilja og óskum sparifjáreigenda um það, að stjórn þessara mála hafi með höndum að gera ráðstafanir til þess, að þessu fjármagni sé varið til framkvæmda í landinu. Hitt er aftur á móti reikningslist og jafnframt draumur hv. þm. S-Þ., að þetta fjármagn geti orðið að engu. Hann kemst að þeirri niðurstöðu, að hér sé aðeins um 500 millj. kr. að ræða, og hann sér ekkert ráð til þess að verja þeim til framkvæmda annað en gera þær verðlausar. Aðrir sjá önnur ráð. Og eftir þeim ráðum mundi verða heilladrýgra að fara.