26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í D-deild Alþingistíðinda. (6383)

224. mál, virkjun Fljótaár

Frsm. 2. minni hl. (Pétur Ottesen):

Það voru aðeins fáein orð að gefnu tilefni frá hæstv. atvmrh. Mér virðist það koma greinilega fram, að það sé mikill áhugi fyrir því, að fram fari rannsókn á því, í hverju sé fólginn sá mikli kostnaður, sem orðið hefur við þetta verk, umfram það, sem áætlað var. Það virðist vera almennur vilji fyrir því hjá bæjarstjórn Siglufjarðar, að þessi rannsókn fari fram, eftir því sem hæstv. atvmrh. segir. Mér finnst því vera ósamræmi í milli þessarar yfirlýsingar og þess að vilja ekki láta slíkt koma fram í till. sjálfri, og því meira ósamræmi finnst mér vera í þessu, þar sem því hefur verið yfir lýst af hæstv. samgmrh., að hann leggi þann skilning í þetta ákvæði till., að það beri að framkvæma þetta þannig, að það komi ekki í bága við hagsmuni Siglufjarðarkaupstaðar. Ég skil ekki, þegar þetta mál liggur þannig fyrir, hvernig á því stendur, að það er amazt svo mikið við því, að þetta ákvæði sé í till. Hæstv. atvmrh. sagðist ekki skilja, hvers vegna við, sem stöndum að 2. minni hl., vildum láta þetta ákvæði standa þarna. Ég vil svara þessu með því, að ég skil ekki afstöðu hæstv. atvmrh. og annarra, hvers vegna þeir geta ekki verið því samþykkir, að þetta sé í till.