08.12.1944
Sameinað þing: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

143. mál, fjárlög 1945

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Eins og vænta mátti, hafa komið hér fram margar brtt. við fjárlfrv. og við brtt. fjvn. frá ýmsum hv. þm., og hef ég fyrir hönd n. veitt athygli þeim rökum, sem hinir ýmsu þm. hafa fært fyrir sínu máli. Enn fremur hefur komið hér fram grg., einkum og sér í lagi frá þeim tveim þm., sem sérstöðu hafa, að því er snertir tekjuáætlunina. Það er eins og eðlilegt er, að því er þann lið snertir, að það sé hægt að benda á ýmsar veilur, bæði að því er varðar tekjuáætlunina, eins og hún liggur fyrir hjá n., og eins þó að henni væri breytt, því að vitanlega verður á engan hátt sagt neitt um það með vissu, hvernig ráðast kann það útlit, sem nú er, að því er snertir atvinnuvegi landsmanna. En sjálfsagt er rétt að taka undir það, sem hv. þm. Borgf. sagði, að á afkomu atvinnuveganna hvílir allt þetta mál, og ræður hún mestu um það, hvernig útkoma þess fjárhagsárs verður, er í hönd fer. Hv. þm. benti einmitt á þetta, og margt af því, sem hv. þm. sagði, hefði getað verið röksemd fyrir því, að í rauninni væri tæpast fært að ganga frá fjárl., svo að í lagi væri, fyrr en eitthvað er vitað meira um það, hversu fer um sölu afurða landsmanna. En þess er nú enginn kostur. Bæði gæti tíminn orðið of langur til biðar, og svo er það líka, að jafnvel þó að samningar um fisksölu (fyrirframsölu) tækjust ekki, þá er þar með ekki sögð öll sagan, því að það er ekki loku skotið fyrir það, að salan í sjálfu sér geti orðið sæmileg eða jafnvel eins góð, þó að ekki væri samið fyrir fram. Hv. þm. Borgf. minntist enn fremur á ýmsa liði, sem enn má gera ráð fyrir, að við bætist á fjárl., þó að ekki væri fallizt á neina af þeim brtt., sem liggja hér fyrir, og benti í því efni á þær mörgu n., sem enn starfa og kostaðar eru af ríkisfé. Þetta er alveg rétt athugað, enda var það fram tekið af minni hálfu í upphafi, að teygjan væri úr tekjuskattinum, jafnvel þó að svipað góðæri héldist og nú hefur verið um hríð. Og einmitt þetta, að teygjan er úr þessum tekjustofni, hefur líka haft sín áhrif á þann, sem hefur viljað beita nær vindi en hæstv. Alþ. hefur viljað gera, að því er varðar áætlun þeirra tekjustofna, sem um ræðir í 2.–3. gr. frumvarpsins.

Hér hafa komið fram ýmsar raddir til aðvörunar í þessu máli, til aðvörunar, að því er snertir meiri hækkun á útgjaldahlið frv. en nú er orðið. Það er nú svo, að jafnvel þeir, sem slíkum aðvörunum halda fram, hafa þó sýnilega komið með till., sem fara í hækkunarátt, og skal það engan veginn átalið af mér, því að svo lengi er ég búinn að vera hér innan þessara veggja, að ég þekki vel þær ástæður, sem legið geta til grundvallar því, að menn beri fram sérstakar brtt. við fjárlagaáætlun. — Þá hefur og verið bent á leið, og þá sérstaklega af einum hv. þm., til þess að ná jöfnuði, og skal ég ekki út í þau málefni fara, það verður vitanlega allt að koma til nánari athugunar, áður en til fulls er gengið frá fjárlfrv., í góðri samvinnu milli stj. og þings. Sömuleiðis má ég segja það fyrir hönd n., að það er ásetningur hennar að vinna áfram að þessu máli, vinna áfram að því að ljúka við af,gr. þessa máls á sem sómasamlegastan hátt og í samvinnu við hæstv. ríkisstj., enda er sú samvinna nauðsynleg, eins og málið horfir við, og nauðsynleg í framhaldi af þeirri samvinnu, sem verið hefur hingað til um undirbúning frv. fyrir þessa umr.

Ég vil geta þess, að fjvn. vill fallast á tilmæli hæstv. fjmrh. um það að taka aftur til 3. umr. 29. brtt. á þskj. 579 um kirkjubyggingarstyrk. Með því er þó ekki nein yfirlýsing gefin um það, að n. falli frá þeim till. sínum, en n. sér enga ástæðu til að hafa á móti þessum tilmælum hæstv. fjmrh. — Þá vil ég enn fremur fyrir n. hönd lýsa yfir því, að brtt. á sama þskj., nr. 113, d-liður og g-liður, eru teknar aftur til 3. umr.

Eins og hv. þm. munu geta skilið, hef ég á þessu stigi málsins ekki neina aðstöðu til að gefa neinar sérstakar yfirlýsingar gagnvart einstökum brtt. Í sambandi við það vildi ég beina því til þess hv. þm., er flytur brtt. á þskj. 612, II, um styrk til að starfrækja talstöðvar á afskekktum stöðum, að sú till. er óþörf, enda hefur n. í höndum bréf frá póst- og símamálastjórninni, þar sem lýst er yfir, að þessi styrkur sé þannig vaxinn, að póst- og símamálastjórnin líti svo á, að heimilt sé að greiða hann, ef ástæða þyki til, af ýmsum útgjöldum.

Margir hv. þm. hafa látið svo um mælt, að þeir væru fúsir til þess að taka brtt. sínar aftur til 3. umr. Nú er það svo, að ef fjvn, hvetur til slíks, þá er það kannske lagt þannig út, að með því séu einhver fyrirheit gefin af n. hálfu um að taka upp þær óskir, sem þannig kunna að liggja fyrir. Ég vil því lýsa yfir, að fjvn. hefur engar óskir í þessu efni, og vill hún láta hvern þm. sjálfráðan um, hvort hann heldur fram brtt. nú eða tekur þær aftur til 3. umr. Það er því ekki ætlun mín að fara út í umr. um sérstakar brtt. að þessu sinni, heldur miklu fremur láta slíkt afskiptalaust. En hins vegar hef ég leitazt við að festa niður og skrásetja höfuðrök hv. þm. fyrir hinum einstöku brtt. og mun gera grein fyrir þeim að svo miklu leyti sem mér er unnt á næsta fundi fjvn. eða fundum, sem haldnir verða til undirbúnings 3. umr. málsins.

Að síðustu vildi ég aðeins bæta því við, sem ég hef áður sagt viðvíkjandi tekjuhlið frv., að ég tel það vera nauðsynlegt, — og þar á ég við það, sem hæstv. fjmrh. sagði um viðskiptaráð, — að ríkissjóðs vegna og ýmislegs annars verði ekki of einstrengingslega haldið á höftum varðandi innflutning á vörum. Ríkissjóður skaðast við það, og almenningur líður við það óþægindi; enn fremur er það til þess að ýta undir dýrtíð í landinu,þegar vöruskortur er á einhverju sviði, sem svo vill verða til þess að hækka mjög í verði þær, vörur, sem mjög er sótzt eftir. Teldi ég skaðlaust, að vinnubrögðum viðskiptaráðs yrði breytt á þann hátt að torvelda minna innflutning á ýmsum vörum en verið hefur fram að þessu.

Ég skal svo ekki þreyta neinar umr. lengur um þetta mál. Ég get í rauninni látið í ljós ánægju yfir þeim anda, sem ríkt hefur í ræðum allra hv. þm. um störf fjvn. Hitt er svo annað mál, að það er eðlilegt, að þeir, sem þykjast á einhvern hátt. afskiptir eða líta svo á, að n. hafi átt að líta meira á þetta eða hitt fyrirtækið, þennan eða hinn veginn, höfnina eða hvað annað, sem fé skal veita til, láti í ljós óskir sínar og álit sitt á þeim málefnum, sem hér hafa verið rædd við þessa umr. Nú ríður mikið á því, að þeir dagar, sem eftir eru, þangað til endanlega verður gengið, frá þessu máli, verði vel notaðir og heppilegt samstarf takist milli allra aðila, sér í lagi milli hæstv. ríkisstj. og fjvn., til þess að finna viðunandi lausn á því, hversu miklu skuli endanlega varið til útgjalda, og ekki síður heppilegt samstarf verði milli hæstv. ríkisstj. og hæstv. Alþ. til þess að finna ráð til að mæta útgjöldum, sem nú verða. sett á fjárlfrv. eða fjárl. fyrir næsta ár. Vona ég, að það megi vel takast.