18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

143. mál, fjárlög 1945

Helgi Jónasson:

Ég ætla ekki að fara að svara þeim hnútum, sem fjvn. hefur orðið fyrir, að sumu leyti eflaust að makleikum. Ég vil aðeins minnast ummæla hv. þm. Barð. (GJ), sem sveigði að mér fyrir það, að ég hefði gerzt svo djarfur að halda því fram, að fjvn. hefði viljað sýna sanngirni og réttlæti í vegamálum. Hann áleit það réttasta vera, að samgmn. réði þeim hlutum. Þar á hann sæti, og þess vegna eru allir ánægðir með gerðir þeirrar n. Ef hún tæki við þessum vanda, væri víst allt í lagi. Ágætt, ef svo væri. En ég óttast, að það mundi annan veg reynast samt.

Það er nú orðið ljóst, hvernig verða muni afgreiðsla á fjárl. næsta árs. Breyt. munu ekki nema mjög miklu umfram það, sem þegar er samþ. eða komið fram í till. fjvn. Því hefur verið lýst yfir, að ríkisstj, og fjvn. hafi orðið sammála um þessa afgreiðslu í aðalatriðum. Þetta er ekki rétt, því að mikill ágreiningur var í n. um stór atriði, og er það bókað og yfir lýst. Á síðasta fundi n. komu fram ákveðnar óskir frá fjmrh. um, að fjárl. yrðu afgreidd fyrir jól, að fjárveitingar vegna dýrtíðarráðstafana yrðu ekki teknar á fjárl. og að teknar yrðu á fjárl. 41/2 millj. kr. vegna útgjaldaauka af nýjum launalögum. Ég benti á það í fjvn., að mér þætti ósamræmi í því að taka inn greiðslur vegna launalfrv., sem er ekki orðið að l., en engar greiðslur vegna dýrtíðarráðstafana, sem ákveðið er, að gerðar skulu, þótt eigi sé það komið í lög heldur. Ekkert tekjuöflunarfrv. ríkisstj. var þá fram komið, þótt boðuð hefðu þau verið, og við vissum ekkert um, hvernig þau mundu verða. Ég verð að játa, að ég er dálítið tortryggur vegna þessarar aðferðar. Hæstv. fjmrh. lýsti yfir því, að dýrtíðarfrv. mundi verða að l. En við vitum ekkert um, hvernig á að standast útgjöld, sem af því leiðir. Í fyrra var ákveðið, að það yrði gert með hækkun álagningar á áfengi og tóbak. Nú er allt slíkt óumrætt. Ég er ekki að væna ríkisstj. um, að hún ætli að hindra framgang dýrtíðarfrv., enda væri það gagnstætt „prógrammi“ hennar að svíkjast um það.

Það stakk mig dálítið illa að heyra hjá hv. frsm. (JJós) , að engin ástæða væri til að láta bíða að taka kostnað vegna launal. upp í frv. Er þá ekki jafnsjálfsagt að taka upp kostnað vegna dýrtíðarráðstafana, sem samkomulag er um, að gerðar verði?

Ég geri ráð fyrir, að þegar ríkisstj. tók við völdum, hafi hún verið búin að ræða um leiðir þær, sem hún ætlar að fara til tekjuöflunar. Þess vegna kemur manni þetta svo undarlega fyrir sjónir, að kappsmál skuli vera að afgreiða fjárl., áður en uppskátt er gert um tekjuöflunarleiðirnar. Ég óskaði miklu fremur, að fjárl. biðu fram yfir nýár, og sérstaklega taldi ég það eiga að vera meginreglu að taka inn öll útgjöld, sem vitað væri um.

Ég lýsi enn yfir, að ég greiddi atkv. móti þessari afgreiðslu í fjvn. En ýmsir hafa nú vítt hana svo þunglega, að ég get haft um hana færri orð en ella mundi.

Ég á brtt. á þskj. 743, XVI. Mér þykir sú fúlga há, sem þar er til tekin, en ekki er um gott að gera. Fyrir 2 eða 3 dögum voru samþ. l. um bændaskóla í Skálholti. Ég var á móti þessu frv., m.a. af því, að með því móti hlaut kostnaður að verða miklu meiri en á Sámsstöðum, þar sem ákveðið hafði verið að hafa bændaskóla Suðurlands. En meiri hl. Alþ. vildi ekki annað en byggja hann í Skálholti, og er þess eindregið að vænta, að sá meiri hl. viti, hvað hann hefur gert, og skeri ekki við neglur nauðsynleg framlög til bændaskólans, því að það mál þolir ekki langa bið. Til þess að hægt sé að hefja þar skólahald, tel ég, að gera þurfi brú yfir Hvítá hjá Iðu, leggja 3 km veg og byggja öll hús, sem skóli og skólabú þarfnast. Iðubrúin er talin álíka dýr og brú yfir Jökulsá á Fjöllum. Áætlanir eru ekki til um hana hjá vegamálastjóra, en til hennar verður að ætla um 1 millj. kr. Vegurinn mun kosta um 180 þús. kr. með þeim vinnuaðferðum, sem nú eru hafðar. Ég skal játa, að brúnni mætti fresta eitthvað, þótt hún sé nauðsyn til þess að Skálholt verði eigi svo afskekkt sem það er nú. Vil ég því bera fram skrifl. varatill. við brtt., sem ég skýrði frá, og draga þar frá brúarverðið. Þá yrði aðeins eftir fé fyrir veginum og til þess að byrja á byggingum og öðrum undirbúningi, ef hún verður samþ., en ekki aðaltill. um 2 millj. framlagið, sem veita þarf nú þegar, ef vel á að vera.

(Skrifleg brtt. kom fram frá 1. þm. Rang. Leitaði forseti afbrigða. Voru þau leyfð, en fengust eigi samþ. að sinni, því að eigi voru nema 25 þm. á fundi.)