18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (681)

143. mál, fjárlög 1945

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. — Það eru aðeins allra síðustu mínúturnar við þessar umr., sem ég hafði ætlað mér að segja örfá orð um eitt atriði. Kemur þetta til af því, að það virðist ríkja nokkur misskilningur, bæði hjá hv. fjvn. og eins hjá öðrum hv. þm., um brtt., sem nú liggja fyrir og reyndar voru hér áður í öðru formi, um læknisvitjanastyrkinn. Brtt. fjvn. eru á þskj. 725,2 og brtt. frá hv. 2. þm. N.-M. á þskj. 743,III. Þessar till. hafa það báðar sameiginlegt, að þær miða við allt annað en vera ber. Þær fjalla um, að þessi upphæð, er hér um ræðir, 11950 kr., eigi að vera sérstaklega handa aðilum, er illa standa að vígi í læknissókn, og kveða þær báðar á um að skipta þessari fúlgu milli sjóðanna og vísa til fjárlaga 1943 um læknisvitjanastyrki. Þetta er hins vegar alls ekki samkv. því, sem upphaflega var ætlazt til, og fer í bága við þau l., sem hér um gilda. Má einkennilegt heita, að þeir menn skuli gera sig seka um þetta, sem voru með í því og sóttu fast, að l. yrðu sett, og voru þess vitandi, að skilyrði voru sett fyrir frv., enda taka l. nr. 59 frá 1942 af skarið um þetta, en þar segir í 4. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir hreppar, er njóta læknisvitjanastyrks úr ríkissjóði samkvæmt ákvæðum fjárlaga, enda sé eigi stofnaður læknisvitjanasjóður í hlutaðeigandi læknishéraði, halda þeim styrk þrátt fyrir ákvæði laga þessara.“

Það er sem sé, eins og verið hefur fram að þessu, að það eru eingöngu þeir hreppar, er ekki hafa læknisvitjanasjóði, sem eiga þessa styrki, sem áður voru þeim ákvarðaðir og ekki þótti gerlegt að taka af, — en jafnóðum og læknisvitjanasjóður er stofnaður, þá fellur þessi styrkur niður. Þetta segja l., og þess vegna er það út í bláinn hjá tillöguaðilum, bæði hjá hv. fjvn. og hv. 2. þm. N.-M. og hv. 1. þm. Rang., að tala um, að þessi upphæð eigi að skiptast milli sjóðanna. Samkv. l. er þessi styrkur alls ekki til þeirra hreppa, sem hafa læknisvitjanasjóði, heldur til hinna hreppanna, sem hafa ekki treyst sér til þess að stofna sjóði, sem eiga að vera aðnjótandi þessa styrks samkv. l., og er ekki hægt að taka hann af þeim nema breyta 4. gr. þessara l.

Þessar till. eru teknar aftur, og er hv. 2. þm. N.-M. á sama máli og hv. fjvn. í þessu efni. Það verður að halda í þessa upphæð, og má um þetta benda á fjárl. frá 1943.