12.09.1944
Neðri deild: 48. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

96. mál, flugvellir

Eysteinn Jónsson:

Ég tel vel farið, að þetta frv. er komið fram. Ég hef litið yfir frv. og grg. þess, og mér finnst ég sakna þar ýmislegs, sem þurft hefði að vera. Þar er ekki sett fram nein áætlun um það, hvernig flugferðum verði fyrir komið á næstunni, en slík áætlun væri þó nauðsynleg. Ég finn til þess t.d. á Austurlandi, þar sem ég er kunnugastur, hve þar er ákaflega erfitt að átta sig á fyrirætlunum, sem gengið sé út frá í þessari löggjöf. Mér virðist ekki sízt ástæða til að efla loftsamgöngur við þá landshluta, sem tregastar hafa samgöngur með öðru móti. Það er gert ráð fyrir einum stórum flugvelli á Fljótsdalshéraði, nærri Egilsstöðum, einnig litlum flugvelli hjá Búðum í Fáskrúðsfirði og öðrum í Vopnafirði. Í 3. gr. er gert ráð fyrir dráttarbraut og flugskýli fyrir sjóflugvél einhvers staðar á Austurlandi, ekki tekið fram, hvort það skuli verða víðar en á einum stað. Ég vildi mjög eindregið skora á þá n., sem fær frv. til meðferðar, að kynna sér sem rækilegast, hvað þeir hafa hugsað, sem undirbjuggu frv., og hvernig þeir hafa byggt það upp. Ég veit, að ég mæli a.m.k. fyrir hönd allra þm. af Austurlandi, er ég ber fram þá ósk við n., að þm. fái að kynna sér öll gögn, sem hún fær frá þeim, sem undirbjuggu frv., og fái þm. að njóta góðs af þeirri þekkingu, sem n. getur aflað í málinu. Þá getur annaðhvort tekizt samkomulag við n. um nauðsynlegar brtt. eða einstakir þm. bera fram brtt. í samræmi við fengna vitneskju. Önnur leið, að hrúga saman brtt. án samvinnu við n., er ótæk að mínum dómi, og vildi ég með þessum tilmælum koma í veg fyrir, að það sé gert.