05.12.1944
Neðri deild: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

96. mál, flugvellir

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. — Samgmn. hefur haft þetta mál alllengi til meðferðar, athugað það ýtarlega og leitað álits sérfræðinga um þau atriði, sem sérstaklega skipta máli.

Þetta frv. markar nýja stefnu í framkvæmdum okkar varðandi flugmál. Meginkjarni þess er sá, að ríkissjóður tekst á hendur að kosta helztu mannvirki, sem þarf til þess að halda uppi flugsamgöngum. Um þessa meginstefnu frv. var n. sammála, svo og um þá staði, sem flugvellir skyldu vera á. Um gerð flugvallanna lét n. sér nægja að leita álits sérfróðra manna. Hins vegar kom það í ljós, þegar velja átti staði fyrir flugvellina, að einstakir hv. þm. voru ekki ánægðir með þá staði eina, sem tilteknir voru. N. tók þá upp þá aðferð að hafa sámband við alla þm. og heyra óskir þeirra í þessu efni. Eftir það komst n. að þeirri niðurstöðu, að ekki yrði hjá því komizt að fjölga flugvöllum í frv., enda ekki stefnt í neinn voða, þótt það sé gert. Þessi l. eru hliðstæð l. um brýr og vegi, þar sem ákveðið er, hvar vegi skuli leggja og brýr smíðaðar. Fjárveitingavaldið ræður síðan, hvenær hafizt er handa á hverjum stað. Með hliðsjón af þessu taldi n. ekki óeðlilegt að taka upp í 4. flokk allmarga nýja staði, en í hinum 3 flokkunum er séð fyrir hinum nauðsynlegustu þörfum að áliti sérfróðra manna.

Það kom til athugunar í n., hvort ekki væri þörf fyrir stóran flugvöll fyrir millilandaflug á Norðurlandi. Til þessa var þó ekki talin knýjandi nauðsyn, og var ekkert ákveðið þar að lútandi. Samkv. till. n. skulu bætast í 4. flokk 16 nýir flugvellir, þannig að alls verða í 4. fl. 25 flugvellir. Ég sé ekki ástæðu til að nefna þessa staði, þeir eru greindir í nál. Enn þá hefur ekki farið fram nákvæm rannsókn á því, hvort þessir staðir eru heppilegir, en sú rannsókn verður að sjálfsögðu látin fram fara, áður en hafizt verður handa um framkvæmdir. En þessir staðir, sem teknir hafa verið inn, hafa verið teknir inn bæði samkvæmt óskum fulltrúa héraðanna og einnig í fullu samráði við forráðamenn flugmálanna, sem bezt bera skyn á þessi mál. Og þeir voru þeirri stefnu hlynntir, að inn í frv. væru teknir allmargir nýir staðir. Í stuttu máli sagt miða þessar brtt. allar að því, að stefnt verði að því, að sem fullkomnustu kerfi flugmannvirkja verði komið upp í landinu á næstu árum. Um það verður svo hins vegar að ráðast, hver röð verður á þessum framkvæmdum, og hljóta auðvitað yfirmenn og forystumenn þessara mála að ákveða það, eftir því sem þörf krefur og reynslan sýnir, að nauðsynlegt þykir.

III. brtt. n. er sú, að 2. mgr. 8. gr. frv. falli niður. En í þeirri gr. er ríkisstj. heimilað að leyfa sveitarfélögum, sýslufélögum og þeim, sem gera út loftför, að taka eignarnámi eignir þær, sem um getur í 1. mgr. sömu gr., gegn hæfilegu endurgjaldi, ef samkomulag næst ekki um bætur. Taldi n. naumast viðeigandi að veita þessum aðilum slíka beina eignarnámsheimild og taldi það enda óþarft. Þessi heimild mun áður hafa verið fyrir hendi í l. frá 1941, og n. taldi ekki nauðsyn á því að taka þetta ákvæði upp í þessi l.

IV. brtt. n. er við 9. gr. frv., þar sem í frv. er svo fyrir mælt í 1. mgr., að bætur fyrir landnám og jarðrask vegna flugvalla í 3. og 4. flokki skuli greiðast úr sýslu- og bæjarsjóði, þar sem land það er, sem bætur greiðast fyrir. — N. taldi óeðlilegt, að þetta ákvæði væri tekið upp í þessa löggjöf, þar sem meginreglan er sú samkv. vegal., að ríkissjóður greiði slíkar bætur, þegar um slíkt er að ræða vegna vegalagninga. Þetta ákvæði var tekið upp í vegal. með l. nr. 21 frá 1940. En í vegal. frá 1933 var gert ráð fyrir, að sýslusjóðir greiddu slíkar bætur. En því var breytt með l. frá 1940, þar sem ákveðið var, að ríkissjóður skyldi greiða allan slíkan kostnað. N. taldi óeðlilegt, að í sambandi við flugmannvirki væri þessi kvöð lögð á sýslu- og bæjarsjóði. Gerir hún því að till. sinni, að 1. mgr. 9. gr. frv. falli niður. Í samræmi við þá brtt. leggur n. til, að niðurlagsorðin í fyrri mgr. 6. gr. frv.: „sbr. þó 1. mgr. 9. gr.“ falli niður, því að þar er vísað til mgr., sem n. leggur til, að falli burt úr frv.

Loks er það V. brtt. n. við frv., að fyrirsögn frv. breytist, hún verði: Frv. til l. um flugvelli og lendingarstaði fyrir flugvélar. — N. taldi, að orðið „gerð“ gæfi ekki fyllilega rétta hugmynd um aðalefni frv. En aðalefni þessa frv. er um byggingu flugvalla, flugvélaskýla og dráttarbrauta fyrir flugvélar. Orðið „gerð“ svarar hins vegar meir til fyrirkomulagsatriða. Á þau er að vísu drepið í 1. gr. frv. En n. taldi þó réttara að hitt orðalagið yrði notað, þar sem það gæfi betur til kynna meginefni og tilgang þann, sem í frv. felst.

Ég hygg þá, að ég hafi gert næga grein fyrir brtt. samgmn. við þetta frv. — En ég vil aðeins víkja að aths., sem hv. þm. Vestm. gerði við 1. umr. þessa máls varðandi flugvelli, sem gerðir hafa verið, áður en þessi l. ganga í gildi. Hann lét í ljós nokkrar efasemdir um það, að kostnaðarverð þeirra fengist greitt úr ríkissjóði, og áleit, að e.t.v. þyrfti að kveða skýrar á um það með jákvæðum ákvæðum í sjálfum l. Samgmn. tók þetta atriði til athugunar og komst að þeirri niðurstöðu, að að sjálfsögðu hlyti ríkissjóður að greiða slíkan kostnað, svo fremi að í framkvæmd mannvirkisins og byggingu hefði verið gætt þeirrar forsjálni, sem nauðsyn yrði talin krefja, þ.e.a.s., að ráði sérfróðra manna hefði verið hlítt og mannvirkið gert nokkurn veginn í samráði við þá aðila, sem nú fara með flugmálin. Ég hygg þess vegna, að þeim höfuðtilgangi, sem virtist vaka fyrir hv. þm. Vestm., sé nokkurn veginn náð með þessari yfirlýsingu n., að hún telur þetta felast í löggjöfinni, eins og hún er að þessu frv. samþ.

Ég vil svo segja fyrir hönd samgmn., að hún leggur áherzlu á, að þetta mál nái fram að ganga nú á þessu þingi, og telur slíka löggjöf vera nauðsynlegan hyrningarstein mjög merkilegra umbóta í samgöngumálum þjóðarinnar. Ég leyfi mér þess vegna að vænta þess, að þótt nokkuð sé nú liðið á þingtímann, verði þetta mál ekki látið gjalda þess, að það hefur orðið mikilvægi síns vegna að vera alllengi hjá n., heldur fái frv. lokasamþykkt á hæstv. Alþ., áður en þessu þingi slítur.