05.12.1944
Neðri deild: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

96. mál, flugvellir

Ingólfur Jónsson:

Eftir að ég hafði séð nál. samgmn., hefði ég álitið þarflaust, að ég tæki til máls, og jafnframt fyrir hv. samþm. minn. En það þótti honum ekki. Honum var ekki nóg, að ákveðinn væri flugvöllur á Rangárvöllum, heldur saknaði þess, að ekki stóð: Á Geitasandi á Rangárvöllum. — Sandar eru við Rangárnar báðar, og munu, Englendingar, sem höfðust við á eystri staðnum, einkum hafa notað flugvöllinn þar og tínt úr honum grjót, en um flugvallargerð var þar alls ekki að ræða hjá þeim. Á Hellusandi virðist flugvallargerð mundu verða þeim mun auðveldari, að þar þarf ekkert grjót að hreinsa burt. Þar er líka að verða komin þétt byggð, og bílar koma þar jafnan við, en Geitasandur er eyðisandur, þar þyrftu farþegar að ganga alllanga leið frá bæjum á flugvöllinn.

Eftir að frv. var útbýtt, kom ég að máli við formann flugfélagsins og flugmálaráðunaut ríkisins. Við fórum í reynsluför austur í flugvél og lentum á Helluvaðssandi. Flugmálaráðunauturinn fullyrti, að lokinni athugun, að þarna ætti flugvöllurinn að vera, og veit ég, að hann mun staðfesta þau orð, þegar til hans verður leitað.

Það er ofætlun, ef hv. þm. ætlast til, að þm., sem ókunnugir eru, fari að fastákveða það, hvar á, Rangárvöllum flugvöllurinn skuli vera, í stað þess að sérfróðir menn ákveði það á sínum tíma. En menn geta e.t.v. skilið, hvers vegna þm. er órólegur að eiga að bíða um það sérfræðiúrskurðar, en ég rólegur að bíða. Það er af því, hve Geitasandur er óheppilegur, saman borinn við Helluvaðssand, þegar á alla hluti er litið. Ég sé raunar ekki, hvaða ástæðu hv. samþm. minn hefur til að sækja þetta mál svo fast. Ef við fáum flugvöll í Landeyjum og annan við Ytri-Rangá, megum við því vel una, og ég veit, að ekki hefur Helgi læknir talið eftir sér að skreppa í bílnum sínum út að Ytri-Rangá, þegar þörf gerðist. Það er óviðeigandi, að við séum að kýta um þetta hér. — Ég vil þakka n. góða afgreiðslu.