29.11.1945
Neðri deild: 44. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

123. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð (heildarlög)

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. sagði, að skoðanamunur á milli hans og mín væri mjög veigalítill. Það kann vel að vera, að það gæti orðið svo í framkvæmdinni, en fyrir því hefur maður enga tryggingu. En um formið á þessum ákvæðum er skoðanamunur verulegur okkar á milli. — Hæstv. ráðh. talaði um það, að það væri málsmekksatriði, hvort í l. eigi að standa ríkisstjórn eða ráðherra, þar sem um er að ræða yfirstjórn þessara mála. Ég minntist á það í fyrri ræðu minni, að það væri efnisatriði og ég teldi og mundi telja það mikils virði að hafa það tryggt fyrirfram, að öll ríkisstj. stæði að því að ákveða um það, hvaða vörur t. d, yrðu settar á frílista. Og slíkur háttur yrði að sjálfsögðu á hafður, ef mínar brtt. um það verða samþ.

Hæstv. ráðh. sagði, að ákvæði frv. gerðu eiginlega enga breyt. á gjaldeyriseftirlitinu, og ég undrast, að hann skuli segja það. Því að svo var ákveðið í gjaldeyrisl. áður, og ég legg til, að það verði óbreytt, að engan gjaldeyri megi láta af hendi án leyfis viðskiptaráðs. En nú er gert ráð fyrir í frv., að kannske verulegur hluti af gjaldeyrinum verði látinn af hendi án leyfis viðskiptaráðs. Það er settur út úr starfi ríkisstj. mikill þáttur gjaldeyriseftirlitsins kannske að verulegu leyti, sem er viðskiptaráð, því að það ákveður, hvort ráðlegt er fyrir þjóðarheildina að verja gjaldeyrinum til þessarar eða þessarar vörutegundar eða ekki. Það hefur aldrei verið veitt leyfi fyrir neinni greiðslu nema ganga fyrst úr skugga um, að þar sé um nauðsyn að ræða,sem hún hefur talið sig geta samþykkt.

Um skipun n. vil ég aðeins segja, að ég tel, að henni sé bezt komið á þann veg, sem ég legg til, af þeirri einföldu ástæðu, að með því teldi ég skapað öruggara skjól um viðskiptaráð, þar sem hver flokkur fyrir sig ákvarðaði, hvaða menn skyldu skipa ráðið. Nú er gert ráð fyrir því, að ráðh. hafi þetta vald í sínum höndum, jafnvel þó að gera megi ráð fyrir, að hann mundi hafa ráðagerð við aðra flokka að einhverju leyti um skipun ráðsins, þá er þó aldrei fyrirfram vitað um það, hvernig það yrði, en það er alltaf öruggast, að flokkarnir geti ráðið því sjálfir, hvaða menn þeir setja til slíkra starfa.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um þetta mál framar, ekki sízt þar sem hæstv. forseti hefur í huga að ljúka umr., áður en venjulegur fundartími er á enda, og þar sem ég geri ráð fyrir, að þessi umr. kunni helzt að breyta um niðurstöðu í d., þá sé ég ekki ástæðu til að tefja tímann með lengri umr.