20.12.1945
Efri deild: 57. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (1545)

148. mál, nýbyggingarráð

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Þetta frv. mælir svo fyrir, að 15% af andvirði útflutnings landsmanna fyrir hvert ár skuli lagt á sérstakan reikning, eins og þegar hefur verið gert um 300 millj. kr., sem samkv. ákvörðun Alþ. voru teknar frá í því skyni, að þeim verði varið einvörðungu til svonefndrar nýsköpunar. Meginhugsun þessa máls er sú, að þegar Alþ. ákvað að leggja 300 millj. kr. af fé landsmanna til hliðar í því skyni að afla nýrra tækja til framleiðslunnar, var það ætlun manna, að sú fjárfúlga yrði tekin af þeim sjóðum, sem þá höfðu safnazt. Hins vegar hefur það að sjálfsögðu verið venja að undanförnu, sem skapazt hefur af eðlilegri þörf og nauðsyn þjóðarinnar, að nokkur hluti þess fjár, sem þjóðin aflar á hverju ári, gangi til þess að kaupa fyrir ný tæki. Og í samræmi við það og þá grundvallarhugsun, sem vakti fyrir hæstv. Alþ., þegar nýbyggingarsjóður var stofnaður, þá er nú lagt til, að með sérstökum l. verði tryggt, að þessari venju verði fylgt, þannig að handbært fé liggi fyrir í þessum sjóði, sem hæstv. Alþ. ákvað, að myndaður skyldi á síðasta ári. Þetta er þá, sem sagt, gert til þess að tryggja það, að eftir því sem auðið er, og svo lengi sem unnt er, verði árlega tekin frá fjárfúlga umfram það, sem upprunalega var lagt í þennan sjóð, til þess að kaupa fyrir ný tæki.

Að svo stöddu er ekki hægt að segja um það, hve lengi hægt er að framfylgja slíkum ákvörðunum eða hvaða ráðstafanir kynni að þurfa að gera varðandi eyðslu manna á öðrum sviðum, til þess að hægt verði að fullnægja þessari ákvörðun. En það er þá þess þings, sem á hverjum tíma um það fjallar, að velja um, hve hart það vill ganga að þjóðinni viðkomandi fjáreyðslu til daglegra þarfa annarra en aukningar á framleiðslutækjum. En hv. nýbyggingarráð, sem samið hefur þetta frv., og ríkisstj., sem um það hefur fjallað, eru á einu máli um það, að það sé þó sjálfsagt að lögfesta þetta ákvæði, til þess með því að lýsa þeim vilja Alþ., að þjóðin freistist þess að haga svo starfsemi sinni og rekstri þjóðarbúsins, að ekki verði af því, sem þjóðin árlega aflar, meiru eytt en svo til eyðsluþarfa, að afgangs verði hæfileg fjárfúlga til aukningar á framleiðslutækjum.

Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til grg. frv., sem í meginatriðum færir fram þau rök, sem að þessu hníga. Ég leyfi mér að mælast til þess, ef þetta frv. sætir ekki andmælum, að það mætti verða afgr. nú, áður en þingfrestun fer fram.