20.12.1945
Neðri deild: 62. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (1585)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. forsrh. sagði, að það hefði verið mjög hæpinn meiri hluti, sem hefði verið fyrir setningu l. um verðlagsmálin á árunum. Það kemur náttúrlega lítið þessu máli við. Hann sagði, að 25 þm. hefðu verið með þeim af 49. Hingað til hef ég haldið, að tvisvar sinnum tuttugu og fimm væru fimmtíu. Og 25 þm. voru meiri hlutinn af 49 þm. Enn fremur vil ég benda hæstv. ráðh. á, að það mun ekki vera rétt alls kostar, sem hann sagði, því að 26 munu hafa staðið að þessum l. þá. Enda liggur það í augum uppi, því að mér skildist, að þann þingmannafjölda hafi þurft með málinu, til þess að hafa meirihlutafylgi með því í báðum deildum.

Hæstv. ráðh. bar sig illa yfir því, að maður hefði farið úr skiprúmi hjá honum eftir kosningarnar 1934, af því að sá þm. hafi verið ráðinn hjá honum. Það er gaman að heyra þessa játningu af vörum hæstv. forsrh., sem hann á sínum tíma mótmælti svo mjög. Því að í kosningahríðinni héldum við framsóknarmenn þessu fram, að Bændaflokksmenn væru ráðnir hjá hæstv. núv. forsrh. En þá linnti ekki mótmælum gegn þessu af hendi sjálfstæðismanna. Þeir Bændaflokksmenn hefðu svo sem frjálsar hendur, sögðu þeir þá. Nú vill hæstv. forsrh. viðurkenna, að þeir hafi verið ráðnir.

Annars er tónninn í þessum umr. hjá hæstv. forsrh. þessi: Framsóknarmenn gerðu það, þess vegna er það sjálfsagt. - Það er að sumu leyti ánægjulegt fyrir framsóknarmenn að hlusta á þetta innan um allar svívirðingarnar. En heldur er þetta lélegt innlegg í rökræður um mál. Því að ef samanburð á að gera þannig, verður að bera saman sambærileg málsatriði. — Hæstv. forsrh. sagði, að allt þetta tal um fordæmi hefði komizt inn í umr. þessar vegna þess, að við, sem mótmælum frv. þessu að ýmsu leyti, hefðum talað um, að hér væri skapað svo ákaflega hættulegt fordæmi með þessu máli. Ég hef áður bent á, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, er ekki hliðstætt því, sem hæstv. forsrh. telur, að hafi verið fordæmi fyrir því, nema að forminu til, og alls ekki að efni til. En ég lagði aðaláherzluna á það, að þetta væri hættulegt af prinsipástæðum. Og það ætla ég, að eftir því sem þetta er oftar gert, liggi í því meiri hætta, með því að það verði endurtekið og vísað til fyrri aðgerða ríkisvaldsins í því efni. Og slíkar tilvitnanir eiga sér oft stað með hæpnum röksemdum.

Hæstv. forsrh. sagði, að fyrst menn endilega vildu rökræða þetta, væri rétt að hann tæki þátt í því, og sannast að segja mátti það ekki seinna vera en við 3. umr. málsins, að hann gerði tilraun til þess að ræða um kjarna málsins, En þá hefði ég búizt við, að hæstv. ráðh. færði rök fyrir því, að hann vildi endilega hafa ákvæði í l. um, að samkomudagurinn skyldi vera 1. október. En það hefur hann ekki gert enn. Og þá hefði ég gert ráð fyrir því, að hann færði rök gegn því, að 1. september eða 1. ágúst væri heppilegri tími sem samkomudagur Alþ. Það gerði hann ekki heldur. Í þess stað fór hæstv. forsrh, að tala um það að slíta þessu þingi á morgun og setja nýtt þing 1. febrúar, ef það væri það, sem menn vildu. Það er því aðferð hæstv. forsrh, nú að ræða alls ekki það, sem hér liggur fyrir. Það lágu fyrir brtt. um það, hvernig þessu skyldi fyrir komið. Og það er búið að fella þær tvær leiðir til miðlunar í þessu efni. Mín till. er sú að fresta að ganga frá þessu máli þangað til 1. eða 2. febrúar. Það liggur ekkert á því fyrr. Og þá getum við notað þann tíma, sem líður til 1. febrúar, til þess að vita, hvort ekki næst samkomulag um þetta. Það liggur ekkert á að afgr. þetta mál með afbrigðum fyrir jólin. Það er leikur einn að afgreiða það á tímabilinu milli 1. og 15. febrúar.

Svo mótmæli ég því, sem hæstv. forsrh. sagði, að ég talaði aldrei svo til hans orð hér í þinginu, að ég ekki kastaði til hans svívirðingum (Forsrh.: En þetta með blágómuna?). Það er ekki svívirðing, af því að ég átti alls ekki með því við hæstv. forsrh. persónulega, heldur átti ég við þetta dæmi, sem hæstv. ráðh. var að tala um. Ég mótmæli þess vegna algerlega, að þetta hafi verið meint persónulega til hæstv. forsrh., og skírskota til þess, sem hv. þm. er kunnugt um, að þetta er algerlega út í bláinn sagt hjá hæstv. forsrh.

Ég sé ekki ástæðu til að halda þessum umr. áfram. Ég vildi aðeins benda á, að til er sú eðlilega leið í þessu að gera út um þetta mál, þegar þing kemur saman eftir frestun í byrjun febrúar. Það er nú þegar búið að fella tvær miðlunartill. í þessu máli. Og ég sting upp á, að endanlegri afgreiðslu málsins verði frestað þangað til eftir þingfrestun.