19.11.1945
Efri deild: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

23. mál, byggingar- og landnámssjóður

Frsm. meiri hl. (Eiríkur Einarsson) :

Ég tel, að af hálfu meiri hl. landbn. sé óþarft að fjölyrða mjög um afstöðu til þessa máls. Hér er um að ræða það grundvallaratriði, sem ég þykist vita, að sé nokkur ágreiningur um, hvernig eigi að líta á og þar með hvernig eigi að taka á þessu frv. Það er mjög keimlíkt máli, sem hefur verið rætt í d. og afgr. frá henni um afnám 17. gr. jarðræktarl., og þau málsrök, sem voru því frv. til stuðnings, eiga að ýmsu leyti við að því er þetta frv. snertir frá sjónarmiði mínu og annarra, sem líta líkt á, og þar til hygg ég megi telja meiri hl. landbn., þó að einn af þremur nm. meiri hl. hafi skrifað undir með fyrirvara, en fyrir þeirri sérstöðu, sem ég vænti, að snerti ekki markmiðið, heldur annað, sem er formlegs eðlis, mun hann sér á parti gera grein nú eða við 3. umr.

Það er meginatriðið hér, að þessar hömlur, sem lagðar eru á fasteignir landsmanna, hvort sem það eru jarðir, og það, er um að ræða í 17. gr. jarðræktarl., eða fasteignir í heild eins og um er að ræða, þar sem styrkur hefur verið veittur samkv. ákvæðum byggingar- og landnámssjóðs, þá er þetta álit okkar, að þessar kvaðir hafi fengið þá reynslu að sumu leyti, að þær geti ekki komið í veg fyrir verðhækkun á jörðum, og svo hins vegar það, sem er kannske aðalatriðið, að ef þessi hjálp er yfirleitt veitt til þess að auka kjark og bæta aðstöðu til að bæta jarðir og húsakynni í sveitum, sem meðal annars á að verða til þess að vernda þann stofn, sem sveitirnar eiga heima fyrir, þá sé annaðhvort að gera það eða gera það ekki, og til þess að geta bætt jarðir sínar kvaðalaust, þá eigi ekki að setja því hömlur með annarri hendinni, sem búið er að veita með hinni.

Það var líka svo með þá lagagr. byggingar- og landnámssjóðsl., sem mælir fyrir um þetta, sem er sú 47. í þessum l., að þar er svo ákveðið, að jörð, sem hefur orðið þessara hlunninda aðnjótandi, megi ekki selja hærra en á fasteignamatsverði með nánari ákvæðum, sem þar segir. Ef þetta ætti að varðveitast og haldast í l. til að koma í veg fyrir svonefnda handahófssölu eða brasksölu á fasteignum, þá álít ég, að þetta sé ekki réttlætanlegt til að koma í veg fyrir þess konar handahófssölu og brask, það yrði að taka þar til annarra og almennari ráða en að reyna að fyrirbyggja það með sérstökum takmörkunum, sem settar væru á þær jarðir, sem hefðu notið styrks úr byggingar- og landnámssjóði. Ég get vel skilið afstöðu þeirra hv. þm., enda hefur hún verið margskýrð og liggur ljós fyrir, — sem halda því fram, að jarðir í landinu eigi að vera eign ríkisins, en ekki einstaklinga, þó að ég skilji enn þá betur, að á því þróunarstigi, sem nú er hér um að ræða hér á landi um meðferð slíkra eignargæða, að það hefur hingað til verið heldur hvatning til aðgerða og starfa, að menn hafi verið á sjálfseign heldur en leiguliðar, en þá reynslu, sem fengin er um þetta, tel ég mikils verða. En þar er annaðhvort að sleppa eða halda, meðan það er viðurkennt, að þessar eignir skuli hafa frjálsan viðskiptarétt á sér. Ég býst við, að þeir blessuðu kaupstaðaborgarar, sem eiga sínar húseignir með hömlulausum lóðaréttindum, mundu syngja mjótt, ef ætti að leggja sams konar hömlur á þær húseignir, sem hefðu notið einhverra hlunninda á einn eða annan veg. Ég vil, að sú varðveizla, sem eignargæðum er yfirleitt veitt, sé samræmanleg til sjávar og sveita og henni sé fylgt og hún útfærð á samræmanlegan hátt.

Ég get í þessu sambandi nefnt t. d., að það er sveitabóndi, sem hefur mjög hlynnt að jörð sinni, aukið hana og eflt, við skulum segja, að það sé ekki einn, heldur tveir bændur, sem hafa mjög líka aðstöðu. Nú eru þeir uppgefnir menn og börnin komin í kaupstaðinn, og þeir eiga ekki annars úrkosta en að koma eignum sínum í peninga og flytja í kaupstaðinn, — því miður er þetta það, sem oft er um að ræða. Við skulum segja, að annar, sem hefur ekki fengið neina hjálp hjá byggingar- og landnámssjóði, geti selt jörð sína, sem virt er á 20 þús., á 40 þús. kr., og þá fær hann það hömlulaust, en hinn, sem hefur jafndýra jörð, verður að láta sér nægja hálfu minna verð, ef hann hefur fengið liðsinni byggingar- og landnámssjóðs. Þetta segi ég til að teikna, lauslega að vísu, en þá á þann hátt, sem gæti átt sér stað, að hér er um herfilegt misrétti að ræða milli tveggja manna, sem eru jafnt að sínum jarðargæðum komnir. Þetta er handahófskennt, hvernig sem á það er litið, og það er þetta handahóf, sem við viljum láta nema burt úr l. og láta þá, sem eiga jarðeignir, njóta sömu ráðstöfunarheimildar með sömu hömlum eða hömlulaust, meðan það stendur. En ef ætlunin er að skerða þennan rétt og koma á öðru eignarvarðveizlukerfi, þá á að gera það gagngert, en þetta, sem nú er, gerir ekkert annað en að skapa handahóf og misrétti um meðferð eignargæða manna, sem kemur fram í þessari takmörkun, sem fyrir liggur um 47. gr. þessara l. Þetta hafa bændur séð, hef ég ástæðu til að ætla, þar sem samþykkt búnaðarþings mun liggja fyrir um það, að þetta skuli ekki lengur haldast í l., og það er hver sínum hnútum og aðstæðum kunnugastur að þessu leyti.

Ég sé ekki ástæðu til að fara nánar út í þau ákvæði, sem hér er um að ræða, en það, sem hefur orðið því valdandi, að ég gerðist meðflm. að þessu frv., er sama ástæðan og ég hef tekið fram og var þess valdandi, að ég hef viljað styðja að því, að 17. gr. væri numin úr gildi, en það er, að eignargæðaaðstaða bænda sé samræmd, en þeim sé ekki misjafnað um eignarumráðarétt sinn, heldur séu þeir allir sameiginlega hvattir til að efla eign sína og stöðva þar með að einhverju leyti þá, sem vilja flýja úr sveitinni, en þeim flótta virðist því miður ekki vera lokið enn, og ég vil ætla, að ef breytt yrði til, þá yrði það gert á annan hátt en með þessari handahófsíhlutun, sem hér er um að ræða og okkar till, eiga að fella úr lögum.