19.11.1945
Efri deild: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

23. mál, byggingar- og landnámssjóður

Frsm. meiri hl. (Eiríkur Einarsson):

Ég sé, að hv. 1. þm. N.-M., sem hefur skrifað undir nál. með fyrirvara, er ekki staddur hér. Ég býst við, að hann ætli að geyma að bera fram brtt., ef hann ætlar að gera það. Þar sem svo stendur á, get ég fallizt á að láta það, sem hreyft hefur verið hér til andmæla, liggja niðri, þangað til það verður endurrætt við 3. umr.

Eins og hv. frsm. minni hl. taldi þetta misskilning hjá mér, eins tel ég vera um misskilning að ræða hjá honum. Hann taldi þessa reglu einnig ná til takmarkana á sölu verkamannabústaða í Reykjavík. En þess ber að gæta, að fasteignamat Reykjavíkur er allt öðrum reglum háð að þessu leyti. Og það er eitt, hvaða styrkur er veittur til bygginga verkamannabústaða, og annað, hvað er veitt til bygginga samkv. l. um byggingar- og landnámssjóð. Það er matsatriði, hvernig menn líta á þá hluti.

Það er óþarfi að svara hv. þm. Barð. Hv. þm. er nokkuð óvær orðinn, og hann hefur sínar lagaskýringar, en það hef ég líka og það heilan lagabálk. Ég veit um endurgreiðsluréttinn á styrknum. En ég vil mælast til, að hv. þm. athugi það, hvort honum finnst rétt, að það sé tekið með annarri hendinni, sem er búið að gefa með hinni.