05.12.1945
Neðri deild: 49. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

60. mál, raforkulög

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem hæstv. samgmrh. hélt fram, að það skiptir verulega miklu máli, hvort þeir aðilar, sem að virkjun standa, þurfa að leggja fram allan kostnað við virkjunina eða aðeins standa straum af hluta kostnaðarins. Nú er í þessu frv. gert ráð fyrir því, að þessar tvær leiðir standi opnar, þannig að þeir, sem þegar hafa ráðizt í slíkar framkvæmdir, fái að halda þeim áfram á sama grundvelli og til þeirra var stofnað, enda viðurkenndi hæstv. ráðh., að það væri réttmætt, að þeir nytu þess stuðnings af hálfu ríkisins, sem þeir hefðu áður notið, þ. e. a. s. ábyrgðar með því hlutfalli, sem lagt hefur verið til grundvallar, sem sé að þeir fái ábyrgð fyrir 85% af kostnaði, og mér skildist, að þótt brtt. yrði samþ., þá yrði leitað ráða til þess, að þeir nytu þessa stuðnings, sem þá sennilega yrði með þeim hætti, að þeir fengju samþ. á Alþ. ríkisábyrgð, þar sem við þetta væri miðað, þrátt fyrir ákvæði l.

Ég vil hins vegar benda á það, að áður en þetta frv. kom fram, þá hefur í framkvæmdinni verið veitt ábyrgð fyrir lánum til þess að koma upp innanbæjarkerfi, einmitt á þeim grundvelli, að ríkið hafi staðið straum af því að leggja héraðsveituna á þeim stað. Þetta var í Keflavík fyrir um það bil tveim árum. Þá var samþ. hér á Alþ. heimild fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast lán, sem þurfti til þess að koma upp innanbæjarkerfi í Keflavík, þannig að bærinn fékk ábyrgð fyrir 85% af þeim kostnaði, sem þetta hafði í för með sér. Mér virðist því, að þetta mál liggi þannig fyrir nú, að gera megi ráð fyrir því, þrátt fyrir það þótt nokkur breyting verði hér á, að sama þörfin verði í ýmsum tilfellum fyrir hendi, þannig að það verði ýmsir, sem þurfi að fá ábyrgð fyrir allt að 85% af lánum við héraðsveitur, og auk þess í samræmi við það, sem áður hefur verið gert í þessum efnum, eins og ég hef nú fært rák að, að því er snertir lán til innanbæjarkerfis í Keflavík. Ég held þess vegna, að framgangur þessa máls sé miklu betur tryggður með því að hafa þessa ábyrgðarheimild, þ. e. a. s. eins og hún hefur verið að undanförnu og eins og felst í þeirri brtt., sem við hv. þm. Mýr. flytjum hér og liggur fyrir nú við þessa afgreiðslu málsins, því að þó að menn greini dálítið á um aðferðir í þessu máli, þá eru menn allir sammála um það, að á allan hátt eigi að greiða sem bezt fyrir framgangi þessa máls, og þá alveg jafnt fyrir því, að framkvæmdir geti orðið í höndum einstaklingsfélaga eins og á þeim, sem framkvæmdar verða á vegum ríkisins. Ég er sammála hæstv. ráðh. um það, að það er bezt og öruggast til framkvæmdar þessa máls að haga löggjöfinni þannig, að hún stuðli að því, að kraftar og geta þjóðfélagsins komi sem mest og bezt að gagni, og það er gert með því að láta þessar báðar leiðir standa opnar, og að gera beri allt, sem unnt er, til að tryggja, að því marki verði sem fyrst náð eftir báðum þessum leiðum.