28.02.1946
Efri deild: 74. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (1824)

60. mál, raforkulög

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég skal ekki vera langorður, því að þeir, sem hafa tekið hér til máls um þetta mál, eru yfirleitt sammála um að vísa því áfram óbreyttu til 3. umr., og verður það væntanlega afgreitt þannig. Er það og aðalatriðið, en ég get þó ekki látið hjá líða að segja örfá orð út af ummælum, sem hér hafa fallið, bæði frá hv. 1. þm. N.-M. og hv. þm. Barð.

Mér virðist, að fyrir hv. 1. þm. N.-M. vaki aðallega tvö atriði. Í fyrsta lagi, að afskipti ríkisins af rafmagnsmálum verði sem víðtækust, þannig að ríkið hafi á sinni hendi sem allra flestar rafveitur, og í öðru lagi, að rafmagn verði selt á sama verði hvar sem er á landinu, að þessu bæri að stefna og því æskilegt, að frv. færi sem næst þessu atriði, þótt mér skildist á hv. þm., að frv. þetta væri spor í rétta átt og að hann mundi fylgja því eins og það lægi fyrir.

Viðvíkjandi fyrra atriðinu nægir að vísa til þess, sem ég sagði hér í gær, að þar hélt ég því fram, að heppilegast væri að reyna að fá sem flesta aðila til þess að taka að sér að koma þessum framkvæmdum á fót, þannig yrðu þær örastar og á þann hátt verði unnt að verða við eftirspurninni. Ég læt mér nægja þetta um þetta atriði. En um hitt atriðið, þ. e. jöfnunarverðið, vil ég segja, að ég játa, að það geti orðið ásteytingarsteinn. Það, sem skar úr milli meiri hl. og minni hl., var, að meiri hl. vildi láta hafa sama verð um allt land, en minni hl. vildi hafa misjafnt verð, og er ég þeirrar skoðunar. Það er ekki hægt af tekniskum ástæðum að hafa sama verð. Og ómögulegt er að ákveða þetta verð á sama hátt og verð á kjöti. Sumar virkjanir þurfa ekki að örva neyzluna. Þær geta geymt orkuna og síðan látið hana í té fyrir eitthvert ákveðið verð. En svo getur verið um aðra virkjun að ræða, sem er eins og einhver virkjun af þeim fyrri, nema hún getur ekki geymt orkuna frá degi til dags og verður því að örva neyzluna, hvetja til sem jafnastrar notkunar. Ég nefni þetta atriði aðeins til þess að sýna fram á, að þær ástæður geti verið fyrir hendi, er geri ómögulegt að selja með sama verði. Má og nefna fleira, t. d. virkjunarskilyrði. Þetta kemur m. a. fram í því, að rafmagn er selt með mismunandi verði í Reykjavík, þar sem verðið er frá 2–3 aur. pr. kw. hitaorka allt upp í 1 kr. pr. kw. ljósaorka. Þetta er talið heppilegt vegna hins tekniska fyrirkomulags. Hér kemur og annað til álita. Þótt þessi aðstaða væri ekki eins ójöfn og ég hef á bent, þá væri rafmagnið samt selt sama verði til allra. Ég veit, að hv. þdm. skilja það, að mikill kostnaðarmunur er þess fyrir rafveitu að leggja stutta raflögn, heimtaug úr götu í hús í þéttbýlum bæ, rafveitan beri aðeins kostnað af þessari lögn, og hins að leggja háspennulínu marga km. Munurinn á þessu er gífurlegur, og orkar tvímælis, hvort réttmætt væri að fara eftir venjulegum verzlunarástæðum og hafa verðið hið sama. Kostnaðurinn yrði geipilegur fyrir þá, sem lengst búa frá aflstöðvunum. Á hinn bóginn er hætta á, ef jöfnunarverð verði tekið upp, að þá geti svo farið, að rafmagnið hækki hjá athafnamönnum, sem búa við góð skilyrði, hafa t. d. byggt upp iðnað, sem háður er rafmagninu. Jöfnunarverðið gæti haft mikla röskun í för með sér, torveldað mönnunum starf sitt og jafnvel komið því til leiðar, að atvinnureksturinn gæti ekki borið sig. Það er e. t. v. sérstaklega þetta atriði, sem ber að athuga. Að öllu samanlögðu er það ekki óskynsamleg aðferð að þræða þá leið, sem gert er ráð fyrir í frv. Ríkissjóður hjálpi til að greiða þann mismun, er verða kann.

Hv. þm. Barð. minntist á hið sama, sem hann lét getið í gær, nefnilega að eigi væri réttlátt, að þeir, er í dreifbýlinu byggju, yrðu látnir greiða meira en aðrir. Þessu svaraði ég þá, að gjöldin yrðu þessum mönnum ekki beinlínis fjötur um fót, ef þeir borguðu þeim mun lægri skatta. Ef nýir skattar koma ekki til á annað borð, þá munu dreifbýlisbúar ekki greiða neitt aukalega. Ég held, að hv.1. þm. N.-M. hafi ofboð lítið misskilið málið.

Um aths. þær, sem fram komu nú hjá hv. þm. Barð. við frv., vil ég segja fáein orð. Hann telur IV. kafla frv. óþarfan og einnig 6. gr. frv. Rétt er, að heimild sú, er hér um ræðir, er fyrir hendi í 6. gr. frv. Á hinn bóginn er rafveitum ríkisins ætlað að taka við orkunni og selja hana síðan héraðsveitunum í heildsölu. Aðalsjónarmiðið er, að ríkið hafi með höndum heildsöluna. Þess vegna eru héraðsrafveitur ríkisins settar upp þar, sem héruðin treysta sér ekki til að annast sjálf smásöluna, en hins vegar þar, sem ríkið annar ekki þessu verkefni. Ég tel þurfa skýrari ákvæða með en í 6. gr. frv. eru.

Ég sé svo ekki ástæðu til að eyða fleiri orðum að þessu. Ég er þakklátur hv. þdm. fyrir að vilja ekki tefja frv. í þessari hv. d.

Ég skal ekki fara svo mjög út í almennar hugleiðingar um frv., svo sem áhrif þess á fólksflutningana úr sveitum landsins til Rvíkur o. fl. í sambandi við frv. Báðir hv. ræðumenn, er áðan töluðu, viku orðum að þessu. En hv. 1. þm. N.-M. virtist álíta, að annað yrði þó til þess að draga fólkið til Reykjavíkur, og gat þar m. a. hitaveitunnar. Það er vel skiljanlegt. Algilt lögmál er, að einn flokkur manna vilji eigi sitja við skarðari hlut en annar.

Ég hef annars þá trú, að vegna þeirrar starfsemi, er komið mun verða á eftir ákvæðum frv., verði fólki úti um landið fyrr gert kleift að fá raforku en ella mundi verða. Eðlilegt er, að betur undirbúnar framkvæmdir gangi fyrir, nefnilega þar sem fjármagnið er mest: í þéttbýlinu.

Að lokum vil ég svo segja, að ég vonast til, að smátt og smátt verði frv. þetta til þess að sætta fólk við hlutskipti sitt. En að því er einmitt stefnt með frv.