03.12.1945
Neðri deild: 47. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (1868)

81. mál, embættisbústaðir héraðsdómara

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft þetta mál til athugunar, og mælir hún með, að það verði samþ. með nokkrum breyt. N. var sammála hv. flm. um það, að þörf sé á að bæta húsakost hjá þessum embættismönnum ríkisins og þess sé tæpast að vænta, að bót verði á því með öðru móti en að ríkið sjái þeim fyrir húsnæði bæði til íbúðar og embættishalds. Nokkur meiningarmunur var að vísu innan n. um, hvernig framkvæma beri þetta, en heildarniðurstaða n. varð þó að mæla með, að málið næði fram að ganga. Annars er þess getið í nál., að 3. nm. hafi þar nokkra sérstöðu um viss atriði, og munu þeir, ef þeim þykir þurfa, gera grein fyrir afstöðu sinni. Annars mælir n. með, að frv. verði samþ. með þessum breyt., og vil ég vænta þess, að d. geti á það fallizt og jafnframt að hv. flm. málsins geti sætt sig við þær till. og niðurstöður, sem n. hefur komizt að, því að hún hefur í öllum höfuðatriðunum gengið inn á hans rökstuðning hvað frv. áhrærir.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið.