31.10.1945
Neðri deild: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

6. mál, togarakaup ríkisins

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég get þakkað hv. fjhn. fyrir góðar undirtektir við þetta frv. Og eftir atvikum hef ég ekki heldur yfir því að kvarta, að hv. n. hafi á nokkurn hátt dregið afgreiðslu málsins. Jafnstórt mál og hér er um að ræða kallar á mikla athugun og öflun upplýsinga. Og mér finnst ekki hægt að bera hv. n. á brýn, að hún hafi notað til þess óeðlilega langan tíma.

Það er í sjálfu sér ekkert verulegt, sem ber á milli hv. meiri hl. og hv. minni hl. fjhn. í þessu máli, ekkert, sem snertir aðalkjarna málsins. — Ég þarf ekki að láta í ljós neinar aths. við ræðu hv. frsm. meiri hl. fjhn., þar sem ég er honum í öllum aðalatriðum sammála. — Varðandi ræðu hv. frsm. minni hl. n. skal ég leyfa mér að drepa á aðeins örfá, þó minni háttar atriði.

Ég er ekki sammála hv. frsm. minni hl. fjhn. um það, að ríkisstj. hefði átt að setja það á oddinn að vera búin að ganga frá samningum um sölu á þessum togurum, áður heldur en hún batt sig gagnvart byggjendum skipanna um byggingarsamninga þeirra. Ég hygg, að ég segi það rétt, að málefnaaðstaðan heimilaði ekki slíkt. Þess var ekki kostur að bera sig saman við þá einstöku aðila, sem ef til vill vildu kaupa skip, áður en við gerðum byggingarsamninginn. Og ég hygg, að ef sá háttur hefði verið á hafður og ríkisstj. hefði einskorðað sig við hann og gert það að aðalatriði, að ríkissjóður byndi sig ekki í þessu efni fyrr en ríkisstj. væri búin að ganga frá bindandi samningum við kaupendur skipanna, þá hefðum við farið á mis við þessi skipakaup. Það er mjög mikil eftirspurn eftir þessum skipum nú í heiminum. Og þegar við að lokum gengum frá samningum þessum, í kringum miðjan október, þá lá fyrir skeyti frá umboðsmönnum ríkisstj., sem þá voru staddir í Englandi, um það, að ríkisstj. yrði nú að ganga að eða frá samningunum tafarlaust, og það eftir því tilboði, sem þá lá fyrir, vegna þess að þá stóðu sakir þannig, að skipabyggjendurnir gátu snúið sér til annarra, tekið tilboðum margra annarra, sem þá leituðu á með að fá keypt slík skip af þeim, en komust ekki að vegna okkar, þar sem byggjendur skipanna voru þá bundnir samningum við okkur. Ég hygg einnig, að það geti út af fyrir sig verið öllum meinfangalaust, þótt þessi háttur hafi verið á hafður, enda þótt einhver vildi vefengja, að ekki hefði verið þess kostur að hafa þetta á annan hátt, sem ég vona, að menn taki mig trúanlegan um að athuguðu máli, að ekki var hægt. Ég hygg, sem sagt, ástæðulaust að óttast það, að ríkissjóður þurfi að taka á sig fjárhagslegan bagga eða áhættu af þessu máli, eins og það nú er komið. Ég hygg, að þess verði kostur, — og ég tel mig hafa mikla ástæðu til að vona það, að þess verði kostur að selja skipin — öll, vona ég — áður en langt líður. Þetta kemur náttúrlega í ljós, því að nú er einmitt að því komið, að málið komist í það horf, að hægt sé að ganga úr skugga um þetta. En það er tæplega fyrr en nú, að hægt hafi verið að fullyrða um þetta.

Hv. frsm. minni hl. fjhn. beindi til mín, að gefnu tilefni af samþykktum bæjarstjórnar Reykjavíkur, fyrirspurn um það, hvort ríkisstj. hefði, áður en hún gerði endanlega bindandi samninga um smíði togaranna, sem um er að ræða, bundið sig í sambandi við þau skilyrði, sem fram eru tekin í tilgreindu bréfi frá Reykjavíkurbæ. Það gerði ríkisstj. ekki. En ég hygg, að það mál liggi þannig fyrir, að óhætt sé að staðhæfa, að bæjarstjórn Reykjavíkur telji, að þeir hafi fjallað um þetta mál, sem bærir séu til þess að ákveða, með hverjum hætti þessi skip skuli byggð og hverjum tækjum þau skuli vera búin, þannig að því sjónarmiði sé fullnægt, sem Reykjavíkurbær vildi setja tryggingu um, að skipin væru sem fullkomnust, og að þær breyt., sem gerðar voru, séu a. m. k. fullt endurgjald fyrir þá verðhækkun, sem af þeim leiðir.

Svar mitt er: Ríkisstj. spurði ekki bæjarstj. Reykjavíkur ráða í þessum efnum og taldi sig ekki þá — og telur sig ekki í dag — hafa þurft þess. Og ríkisstj. hefur ekki tekið ákvarðanir um það, hvort hún telur sig bæra um að verða við þeim óskum frá bæjarstj. Reykjavíkur, að í Reykjavík verði staðsettur þetta mikill hluti togaranna, sem fram á var farið. Þessi mál eru enn þá óútkljáð í ríkisstj. — Ég sagði áðan, að nú væri málum þessum svo langt komið, að hægt ætti að vera að hefjast handa um sölu skipanna. Ég fer ekki út í það á hæstv. Alþ. að ræða þau vandkvæði, sem þarf að yfirstíga við samningu réttlátra reglna um úthlutun þessara skipa til þeirra einstöku aðila, sem sótt hafa um að fá þau keypt. Ég veit, að hv. þm. er ljóst, að það verður, af eðlilegum ástæðum, meiri eftirspurn eftir þeim skipum, sem fyrst verða afhent Íslendingum, heldur en hinum, sem síðar verða afhent. Og það er mikill vandi að setja um það reglur, sem allir una við og ekki verður vefengt, að séu a. m. k. byggðar á fyllsta réttlæti, sem við verður komið. En ég fullyrði, að ríkisstj. hefur tilhneigingu til þess að komast svo úr því vandamáli, að henni verði ekki með réttu borið á brýn, að hún í því efni hafi dregið taum eins fremur en annars. En um leið og þær reglur eru fyrir hendi, sem um þetta verða settar, verður snúið sér til kaupenda til að vita, hverjir af þeim vilja hlíta þeim skilyrðum, sem ríkisstj. setur fyrir sölu skipanna, og það tel ég, að standi nú bráðlega fyrir dyrum.

Þá brtt. hv. minni hl. fjhn. við 1. gr. frv., að við hana bætist ákvæði um það, að væntanlegir kaupendur skipanna skuli borga einn fimmta hluta af umsömdu verði þeirra fyrir 1. des. 1945, tel ég ónauðsynlega og auk þess — ef á annað borð ætti að setja um þetta reglur — ekki fullnægjandi. Eins og ég mun hafa gert grein fyrir við 1. umr. þessa máls, er það ætlun ríkisstj. að hafa þann hátt, að einstökum kaupendum skipanna, sem vilja sætta sig við þau almennu skilyrði og una þeim ákvæðum, sem sett verða í sambandi við sölu togaranna til einstakra kaupenda, verði gerður kostur á því að ganga inn í samninginn óbreyttan eins og hann er. Þeir öðlast þá réttindi og taka á sig skyldur samningsins, sem ríkisstj. hefur gert, taka á sig allar greiðslur, jafnóðum og þær falla í gjalddaga, og leggja á sínar herðar um leið þær kvaðir, hver að sínu leyti, sem nú liggja á ríkissjóði Íslands, til þess að ríkissjóður hafi enga ábyrgð eftir það vegna þeirra skipa, sem seld eru til einstakra aðila, þó hann hafi nú ábyrgð gagnvart byggjendum skipanna. Og það er hugsun ríkisstj. eða a. m. k. mín hugsun, að enginn annar fái að gerast aðili þessa samnings en sá, sem getur sett baktryggingu fyrir uppfylling samningsins, þ. e. a. s. að staðreyndin verði sú, að jafnóðum og ríkissjóður formlega afhendir réttinn á byggingu einstakra skipa til einstakra kaupenda, þá sé það annaðhvort kaupandinn, sem inni af hendi greiðslu alls verðsins — sem ég geri þó ekki ráð fyrir, að menn vilji — eða að bankarnir íslenzku verði hinn raunverulegi aðili um ábyrgð gagnvart ríkissjóði.

Ég vona, að hv. frsm. minni hl., að fengnum þessum upplýsingum, sjái, að brtt. hans er ekki nauðsynleg og að því leyti ekki fullnægjandi, að hún fer ekki fram á þá fjarlægingu áhættunnar í þessu efni frá ríkissjóði, sem ég geri ráð fyrir að eigi að liggja fyrir, ef fylgt er þeim reglum, sem ríkisstj. hugsar sér um þetta að setja.

Þó að það sé rétt hjá hv. frsm. minni hl. (SkG), að það hafi verið haft eftir mér, að greiða ætti 20% af kostnaðarverði skipanna, þegar samningar hefðu verið undirritaðir, þá hefur sú breyting orðið á því, að nú þarf ekki að greiða nema 10% við fyrstu afborgun, og þær greiðslur hafa nú þegar farið fram. Varðandi þá seinni brtt. minni hl. þætti mér vænt um, ef menn vildu láta greinina standa óbreytta eins og hún er, af því að enn hafa skipin ekki verið seld, og þó ég geri fastlega ráð fyrir, að 25 millj. kr. lánsheimild, í stað 60 millj. kr., sé nægileg, þá er það ástæðulaust að setja ríkisstj. strangari skorður í þessum efnum, því að hún mun ekki leyfa sér að taka lán að ástæðulausu. Og ég segi, að það er ekkert launungamál, að ríkið hefur ekki tekið nein lán vegna þessarar 10% afborgunar á 7 eða 8 millj. kr., heldur hefur það verið greitt af fé hjá aðilum, sem ríkið á annars stærri upphæðir hjá. Og í stað þess, að ríkið færði þetta fé á milli á einn reikning og notaði það til bráðabirgða til slíkra greiðslna, gekk hlutaðeigandi banki inn á að leyfa að nota, endurgjaldslaust, í svip fjárupphæð til jafns við það, sem við eigum inni hjá öðrum og legið hefur rentulaust, ef ég veit rétt.

Ég vil skýra frá því, að í viðbót við þessa 28 togara hafa verið fest kaup á 2 dieseltogurum, sem verða afhentir á öndverðu ári 1948. En þessir togarar eru 2 þús. £ ódýrari og 5 fetum styttri en togari með gufuvél. Ég get vel trúað, að þau skip séu fullt eins æskileg, ef menn geta treyst dieselvélinni eins vel og gufuvélinni, en um það er ég ekki dómbær, þó að ég hafi verið við slíka útgerð riðinn í nokkra áratugi. En ríkisstj. telur sér skylt að fylgja till., sem dómbærir menn á þessu sviði leggja til.

Þeir 5 menn, sem hv. minni hl. segir frá í áliti sínu, voru kallaðir til ráða og þar með að ákveða, hvort kaupa ætti þessa togara, og það var einróma álit þeirra að kaupa gufuvélatogara, en ekki dieseltogara. Af þessum ástæðum festi ríkisstj. kaup á gufuvélatogurum. en taldi þó rétt að gera tilraun með þessa 2 dieseltogara, sem koma eiga í ársbyrjun 1948. Þeir menn, sem leitað var til, óskuðu ekki eftir dieseltogurum, og hefði átt að hverfa að því ráði almennt að kaupa dieseltogara, hefði orðið lengri frestur á afhendingu þeirra, því að þeir hefðu komið til afhendingar á árinu 1948, eins og gert er ráð fyrir að verði um þá 2 dieseltogara, sem samið hefur verið um smíði á, í stað þess, að við fáum nokkra togara í árslok 1946 og hina á árinu 1947. Afhendingu hefði þá seinkað um hálft annað ár, auk þess sem mér skilst, að ekki liggi fyrir nægilegt öryggi með þær vélar, sem hér er um að ræða. Það er að vísu rétt, að þeir togarar, sem nú hafa verið fest kaup á, eru sumir með dieselvélum. Er það ætlunin, að þeir verði til að mennta þjóðina undir það að geta næst, þegar menn ráðast í byggingu dieseltogara, rekið þá með góðum árangri, því að eins og það er jafnframt staðreynd, að ekki er ólíklegt, að takast megi með sæmilegum árangri að reka 2 dieseltogara, þó ekki sé talið hagkvæmt að reka 30 slíka togara, þá megi sæmilega með varfærni og góðri þekkingu starfrækja 1 eða 2 skip, þó ekki gildi það sama um 30.

Ég tel, að ekki þurfi að hafa um þetta fleiri orð. Ég vil svo endur taka þakklæti mitt til hv. fjhn. fyrir góðar undirtektir og vona, að hv. minni hl. sætti sig við, að hans till. séu ekki nauðsynlegar.