04.03.1946
Efri deild: 76. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (1996)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Út af því, sem hv. þm. Barð. sagði um skólaskyldualdurinn, þá er það ekki að öllu leyti á valdi viðkomandi sveitarstjórnar, hvort skólaskyldualdurinn sé til 14 eða 15 ára aldurs, því að það þarf samþykki fræðslumálastj. til að lækka hann niður í 14 ára aldur. Með þessu er þeim tilgangi náð með 8. gr., að þetta atriði komi til framkvæmda eftir því, sem efni standa til, og í sumum tilfellum yrði aðalákvæði 8. gr., um 15 ára skólaskyldu, ekki framkvæmt, og yrði þá aðalástæðan sú, að skólahús vantaði. En ég tel, að ekki komi til mála að lækka skólaskyldualdurinn niður í 14 ár, því að þá er kerfinu raskað. Þessi lög gera ráð fyrir, að tekið sé unglingapróf, þegar lokið er tveggja ára námi gagnfræðastigsins, og er ætlazt til, að það sé almenn skylda.

Þá var annað atriði í ræðu hv. þm., sem var byggt á misskilningi, en það var um kostnaðaráætlunina, 1,8 millj., sem frv. gerir ráð fyrir. Hv. þm. sagði, að þetta væri grunntala, en það er misskilningur. Það er gert ráð fyrir því eftir þeim áætlunum, sem fyrir liggja, að við muni bætast um 1200 nemendur, sem er þannig reiknað, að það er gert ráð fyrir því í grg. frv. um gagnfræðanám, að nemendur verði 7500 í skólum gagnfræðastigsins, og frá því dregst tala þeirra nemenda, sem nú eru í sambærilegum skólum, (gagnfræðadeildum menntaskólanna, gagnfræðaskólum, héraðsskólum, unglingaskólum o. fl.), sem eru 3400 nemendur. Frá þessu dregst svo enn fremur einn árgangur barnaskólanna, sem reiknaður verður nú með gagnfræðastiginu, vegna þess að skyldunám barnaskólanna nær ekki nema til 13 ára aldurs, og það eru 2300 nemendur, og enn fremur a. m. k. 600 nemendur, sem mundu fá skyldunám sitt allt án verulegs aukakostnaðar á vegum barnaskólanna í sveitum og þorpum. Mismunurinn verður þá 1200 nemendur, og það er gert ráð fyrir, að það þurfi 40 kennara til þess að sjá þessum nemendafjölda fyrir kennslu, og það þýðir, ekki í grunnlaun, heldur reiknað með vísitölu 285, 1,200,000 kr. Þá er og gert ráð fyrir, að annar viðbótarkostnaður verði 600,000 kr., kostnaðarauki alls 1,800,000 kr. Gert er ráð fyrir, að þessi kostnaður komi í framkvæmd á næstu 5–10 árum. Hér er reiknað með hámarkslaunum kennara í gagnfræðaskólum.

Þá vildi ég segja það viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði um 9. gr., að það væri óljóst, hvað átt væri við, þegar talað er um styrk af almannafé til handa nemendum, sem ekki geta stundað skyldunámið sakir fjárskorts, að ég held, að það sé alveg ljóst, að þessi styrkur á að greiðast af því opinbera, frá ríkinu og viðkomandi sveitarfélagi, í sömu hlutföllum og annar rekstrarkostnaður skólanna. Ég held þess vegna, að það sé fráleitt að fara að taka upp einhver ákvæði um skiptinguna í þetta frv., vegna þess að það fjallar ekki um það, hvernig fjárveiting til skólanna skiptist milli ríkis og sveitarfélaga.