21.03.1946
Efri deild: 89. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Bjarni Benediktsson:

Ég spurðist fyrir um það til fróðleiks, hvaða þýðingu þessi lagasamþ. mundi hafa, og tel ég nauðsynlegt að fá úr því skorið, ekki sízt vegna þess að mér virðist, ef síðasta till. hv. þm. Barð. verður samþ., að þá sé með henni gerð grundvallarbreyting á frv. Ef sú er ætlunin með frv., að ríkinu sé skylt að byggja alla þá skóla, sem þörf er á, strax eftir að þetta frv. hefur náð samþykki, þá er hér um svo mikils fjárhagsatriði að ræða, að það krefst náinnar athugunar. Þessu vildi ég vekja athygli á.

Ég varpaði því fram áður, hvort þetta frv. hefði nokkra raunhæfa þýðingu, ef hin skólafrv. verða ekki samþ. líka, því að mér virðist lagagildi þessa frv. lítils virði og tel það vera meira stefnuyfirlýsingu í þessum málum. Og ég hef skilið þetta þannig, að það sé komið undir fjárveitingarvaldinu á hverjum tíma, hvað framkvæmt verður. Sé þessi skilningur ekki réttur, þá óska ég eftir nánari skýringu á málinu. En ég teldi heppilegast að láta þetta mál bíða, þar til hin skólafrv. eru komin eitthvað áleiðis.