20.03.1946
Efri deild: 88. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

128. mál, landshöfn í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum

Eiríkur Einarsson. Ég skal ekki flytja um þetta langa ræðu, enda segir sig sjálft, að það á að vera óþarft, þar sem ég er einn í sjútvn. og hef skrifað undir nál. án fyrirvara. En það, sem kemur mér til að rísa úr sæti, er það, að ég vildi láta í ljós yfirlitsskoðanir mínar á þeim opinberu framkvæmdum, sem þessi hafnargerð er einn þáttur af.

Það kemur einatt fram, að margt það stóra, sem nú er óskað eftir, krefst meira starfs og fjármagns en svo, að það verði allt framkvæmt í einu. Þegar setja skal slík lög sem þessi, verður það meginsjónarmið að ráða, hvort hér er um nauðsynjamál að ræða. Ég tel, að landshöfn á þessum stað sé réttmæt, og ég tel það lýsa fyrirhyggju að lögfesta, að hún skuli gerð. Hins vegar geri ég ráð fyrir, að margir séu þeirrar skoðunar, að ekki verði unnt að ljúka slíkum stórframkvæmdum í náinni framtíð, þótt rétt sé að taka um þær ákvarðanir. Innflutningur og mannafli og margt fleira hlýtur svo að ráða því, þegar stundir líða, hversu hratt framkvæmdirnar ganga. Mér þykir rétt að láta þessa getið í sambandi við þetta mál, þótt það eigi jafnframt við um önnur en þetta. Þyrftu allir hv. þm. að gera sér þetta ljóst, einkum þeir, sem varðandi sum stórmál sjá ótal ljón á veginum, þótt svipuðu máli gegni og um þetta mál.

Varðandi það, sem kom hér fram áðan hjá hv. frsm., að hann léti sér ekki svo dátt um, að gerðar yrðu margar landshafnir, vil ég segja það, að ég get ekki um það dæmt, hversu nauðsynlegar slíkar hafnir eru, en ef rannsóknir sýna, að slíkar hafnir séu nauðsynlegar vegna almenns öryggis sjófarenda öllu fremur en vegna þarfar heimabáta, þá álít ég einsætt, að þessar hafnir eigi að vera landshafnir í orðsins fyllstu merkingu. Aðalatriðið fyrir mér er að tryggja sem bezt almennt öryggi, hvað sem hinu arðvænlega líður, þótt vitanlega væri æskilegast, að þetta tvennt gæti farið saman. Ég er ekki að halda því fram, að þetta mál sé að öllu eins og það ætti að vera, en hér er um merkt nýmæli að ræða, og það, sem miður kann að vera, stendur til bóta. Af þessum ástæðum hef ég skrifað undir nál. án fyrirvara.