13.12.1945
Efri deild: 48. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (2114)

21. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 262 um það, að tveir staðir við Eyjafjörð verði teknir í B-lið 2. gr. frv., sem eru Árskógssandur og Hauganes. Ég þakka hv. sjútvn. og frsm. hennar undirtektirnar undir þessa brtt., sem eru full meðmæli með öðrum staðnum og í raun og veru báðum. Þessir staðir eru nú verstöðvar, eins og menn vita, en ekki hafa verið sett um þá sérstök lög um lendingarbætur. Hins vegar hefur þó hæstv. Alþ. áður þótt rétt að styrkja þar lendingarbætur, því að báðir staðirnir hafa áður fengið styrk til bryggjugerða. En það hefur ekki verið borið fram frv. um sérstök l. fyrir þá, en nú sting ég upp á að taka þá inn í þessi l. Það er alveg rétt, sem hv. frsm. n. veik að, að þessir staðir eru báðir í sama hreppi. Og það er ekki langt á milli þeirra.

Það er nokkuð síðan fiskiþing Norðlendingafjórðungs beindi þeirri ósk til yfirstjórnar þessara mála og löggjafarvaldsins, að gerð yrði höfn eða trygg lending á Árskógsströnd, en treysti sér ekki á því stigi til þess að gera till. um, á hvaða stað það ætti að vera. Hins vegar gerði það ráð fyrir, að þetta yrði ekki nema á einum stað á Árskógsströnd. Nú hafa bæði hreppsnefndin í Árskógsstrandarhreppi og fleiri aðilar fyrir alllöngu beðið vitamálaskrifstofuna að athuga þetta og gera ákveðnar till. um það, hvar aðalhafnarmannvirki ættu að vera þar á ströndinni. En mér vitanlega hefur vitamálaskrifstofan ekki haft tíma til þess enn að vinna þetta verk fyllilega. En ég hygg nú, eins og mér skildist á hv. frsm. n. líka, að hann liti á, að ekki sé neinn skaði skeður a. m. k., þó að báðir staðirnir séu samþykktir, því að bæði stjórn og þing hafa á valdi sínu með þeirri fjárveitingu, sem veitt verður, að það verði aðallega annar staðurinn, sem styrktur verður til verulegra hafnar- eða lendingarbótaframkvæmda. Það er líklegt, að það kunni að verða Hauganes, þó að ég geti ekki lagt þar dóm á. En jafnvel þótt svo yrði, tel ég engar líkur til þess, að ekki verði þörf á bryggju og nokkurri aðstöðu á Árskógssandi a. m. k. fyrir ekki stóra báta. Þar er nú þegar nokkurt þorp, sem ég tel ekki líkur til, að leggist í eyði. Og svo má einnig benda á það, að þar er sú sjálfsagða ferjustöð yfir til Hríseyjar. Samgöngur við eyna ganga fyrir sig á þann hátt, að bátur fer milli lands og eyjar og lendir venjulega á Árskógssandi, því að þaðan er stutt yfir í eyna. Ég held því, að þó að Hauganes yrði aðalútgerðarstöð á þessu svæði og sú, sem aðallega yrði styrkt af því opinbera, þá mundi það ekki á neinn hátt reynast hættulegt eða óeðlilegt, þó að Árskógssandur sé hafður með hér í B-lið 2. gr. þessara l. um hafnar- og lendingarbætur.