22.11.1945
Efri deild: 35. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í B-deild Alþingistíðinda. (2435)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Ég hef eftir þál., sem samþ. var á síðasta Alþ. og er birt í grg. þessa frv., óskað eftir, að félmn. flytti þetta frv. hér á þingi, og kann ég n. þakkir fyrir, hversu vel hún tók undir það, og vona, að það fái skjóta afgreiðslu. Í þál. var ríkisstj. falið víðtækt verkefni, t. d. að athuga, með hverjum hætti bezt og fljótast yrði greitt fyrir byggingu íbúðarhúsa í kauptúnum og sveitum landsins og kaupstöðum. Í þessari þál. var og ríkisstj. falið að afla gagna um tækni í byggingarmálum erlendis. Hafa húsameistari og skipulagsstjóri ríkisins verið í Svíþjóð í sumar, og vonandi geta þeir gefið nýjar upplýsingar um tækni í byggingarmálum. Samþykkt þessarar þál. var kærkomið tækifæri fyrir mig til þess að endurnýja kröfur Alþfl. Það þarf ekki að færa rök fyrir þessu máli vegna hinna miklu húsnæðisvandræða og erfiðleika á byggingum, byggingar lélegar og hafa staðið í stað þangað til frekast nú á þessu ári. Húsaleiga hefur hækkað mikið og verð á húsum komið upp úr öllu valdi. Frv. þetta miðar að því að gera mönnum auðveldara að byggja íbúðarhús og koma í veg fyrir spákaupmennsku, sem mjög hefur tíðkazt.

Frv. er í 4 köflum. Í I. kaflanum er lagt til, að framlag ríkis og bæja verði hækkað úr 2 kr. og upp í 4 kr. og mest 6 að viðbættri gildandi vísitöluhækkun. Þessi breyting mun geta tvöfaldað það fé, sem byggingarsjóður hefur til umráða. Og verði farið inn á þá braut að heimila lán allt til 75 ára og með 1½% vöxtum, þá mundi það nægja til meðgjafar á allt að 103 millj. kr. Það er því augljóst, að þessi breyt. á l. um verkamannabústaði getur aukið mjög byggingu þeirra.

Þá er og byggingarsjóði heimilt að stofna til innlánsdeildar, sem tekur við innlögum frá mönnum á félagssvæði viðkomandi byggingarsjóðs. — Þá eru hér og nýmæli þess efnis, að ekkjur látinna félagsmanna, börn og tengdabörn skuli hafa forgangsrétt að íbúðum, sem kaupsamningur hefur verið gerður um, enda gerist þau félagar viðkomandi byggingarfélags. — Um lóðir gildir hið sama og nú. Þó gæti komið til mála að setja ákvæði um, að lóðaleiga mætti ekki hækka á vissu árabili, t. d. fyrstu 50 árin. — Þá skal og heimilt að lána fé milli deilda.

Ég hef þá rakið aðalbreytingarnar á l. um verkamannabústaði, og ef þær verða samþ., þá hygg ég, að félögin geti aukið starfsemi sína. Einkum ætti ákvæðið um að lengja lánstímann að verða til þess að gera mönnum kleift að leggja út í húsabyggingar þrátt fyrir dýrtíðina.

II. kaflinn er um byggingarsamvinnufélögin; og er þeim leyft að starfa í tveimur deildum á hverjum stað, önnur, sem byggir einstæð hús, og hin, sem byggir fjölbýlishús. — Þá er hér ákvæði um, að enginn, sem fengið hefur íbúð að tilhlutun byggingarsamvinnufélags, megi selja hana, nema félagið hafi áður hafnað forkaupsrétti sínum. Þykir rétt að setja þetta ákvæði til að fyrirbyggja spákaupmennsku.

III. kaflinn er um íbúðabyggingar sveitarfélaga. Þar er lagt til, að safnað verði skýrslum um fjölskyldur, sem búa í heilsuspillandi íbúðum. Og er sveitarstjórn heimilt að leita aðstoðar ríkisins til þess að bæta úr slíku, ef nauðsyn krefur. Gert er ráð fyrir, að ríkissjóður láni slíkum sveitarfélögum 80% af byggingarkostnaði hverrar íbúðar, sem það lætur reisa. Þá er gert ráð fyrir, að sveitarstjórn byggi þessar íbúðir og ráði gerð þeirra og stærð, allt í samræmi við ákvæði byggingarsamþykktar staðarins og skipulagsuppdrátt, ef til er, og að heimilt sé að selja þessar íbúðir, ef henta þykir, og er í frv. gert ráð fyrir, að sett verði um þessar framkvæmdir allar sérstök reglugerð, sem félmrh. staðfestir, en sveitarstjórnir setji.

IV. kafli þessa frv. er einnig algert nýmæli. Ríkisstjórninni hafði borizt frv. til l. um aðstoð við byggingar frá bæjarráði Reykjavíkur, þar sem var gert ráð fyrir að veita þessa aðstoð með nokkuð öðrum hætti og nokkru rífari en hér er gert ráð fyrir, og enn fremur, að sérstakar ráðstafanir yrðu gerðar til þess, að byggingarefni, sem flutt er til landsins, yrði notað til íbúðarhúsabygginga. Í III. og IV. kafla þessa frv. er gert ráð fyrir sams konar ráðstöfunum og stungið hefur verið upp á af bæjarráði Reykjavíkur, en þó nokkuð á annan hátt. Það er gert ráð fyrir því í IV. kafla þessa frv., að meðan skortur er á vinnuafli eða vöntun á því, að nægilegt byggingarefni fáist flutt til landsins til þess að fullnægja byggingarframkvæmdum þeim, sem árlega eru fyrirhugaðar í landinu, geti ríkisstj. falið nýbyggingarráði eða annarri stofnun að annast úthlutun innflutningsleyfa á byggingarefni og veitt ráðinu heimild til að ákveða, til hvaða bygginga því skuli varið. Þá er og í þeim kafla gert ráð fyrir því, að nýbyggingarráð skuli afla sér fyrir hver áramót — og þó er með bráðabirgðaákvæði lengdur fresturinn að því er snertir næstu áramót — upplýsinga um það, hvaða byggingar eru fyrirhugaðar á næsta ári, og að þeim, sem vanrækja að láta nýbyggingarráði slíkar upplýsingar í té, skuli ekki ætluð nein innflutningsleyfi á byggingarefni á því ári. Enn fremur er gert ráð fyrir því hér í frv., að ef sýnt þyki, að ekki fáist innflutt nægilegt byggingarefni til allra þeirra byggingarframkvæmda, sem fyrirhugaðar eru í landinu á næsta ári, eða ekki þýði að veita slíkt leyfi, vegna þess að vinnuafl muni skorta til byggingarframkvæmdanna, þá geti ríkisstj. ákveðið, að fengnum tillögum nýbyggingarráðs, að stöðva skuli stórbyggingar, sem hvorki eru ætlaðar í þágu framleiðslunnar né til íbúðar, og því byggingarefni, sem til slíkra bygginga hafi verið ætlað, skuli varið til íbúðarhúsbygginga. En sú takmörkun á innflutningi byggingarefnis, sem ég hef greint, nær þó ekki til byggingarefnis í þær íbúðir, sem sveitarstjórnir reisa samkv. III. kafla frv., meðan útrýming hinna heilsuspillandi íbúða stendur yfir.

Enn er hér gert ráð fyrir því, að þriggja manna nefnd verði skipuð af félmrh., sem hafi með höndum yfirumsjón og eftirlit með byggingarframkvæmdum þeim, sem í l. þessum greinir. Á hún að annast fyrir ríkisstj. hönd lánastarfsemi ríkissjóðs til sveitarfélaga samkv. ákvæðum III. kafla l. og eftirlit með því, að l. séu ekki misnotuð. Enn fremur á hún að sjá um, að framfylgt sé ákvæðum um takmarkanir á íbúðastærð og skiptingu byggingarefnisleyfa. Og þá á n. þessi að hlutast til um, ef ástæða þykir til, að komið verði á fót innkaupastofnun á byggingarefni, þannig að þeir aðilar, sem byggja eftir þessum lagafyrirmælum og njóta þeirra hlunninda, sem í þeim eru veitt, geti sjálfir annazt innkaup á byggingarefni.

Enn eru ýmis ákvæði í frv. til tryggingar því, að þessi l., ef frv. verður samþ., nái tilgangi sínum, og ég sé ekki ástæðu til þess að ræða það atriði sérstaklega.

Ég gat þess í upphafi, að ég hefði ekki séð ástæðu til að taka með í þetta frv. ákvæði um byggingar á sveitabæjum, vegna þess að það heyrði ekki undir félmrn. Um byggingar á sveitabæjum eru nú til a. m. k. tvenn lagaákvæði. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir, að veita megi endurbyggingarlán til 42 ára og vextir og afborganir fari þá ekki fram úr 5% á ári. Er hæst lánað í því skyni 9 þús. kr. Til slíkra endurbygginga er veittur styrkur úr ríkissjóði, mest 1500 kr. á býli, sem nú mun vera reiknað með vísitölu, þannig að hann mun geta farið upp í 4000–5000 kr., en þó sé hann ekki hærri en 7/17 stofnkostnaðar.

Það má vel vera, að nauðsyn sé á að endurskoða þessi ákvæði að einhverju leyti, sem í frv. eru. En af ástæðum, sem ég hef þegar greint, taldi ég ekki rétt að taka ákvæði um byggingar íbúðarhúsa í sveitum inn í þetta frv., sem ég hef hér lagt fram. Ég hygg, að í frv. þessu séu farnar þær leiðir, sem líklegar eru til úrbóta, án þess að íþyngja um of fjárhagsgetu ríkisins og bæjarfélaganna. Ég gat þess áðan, að ef byggingarsjóðir yfirleitt hækkuðu framlag sitt úr 4 kr. og þar kemur ríkisframlag á móti, þá mundu tekjur sjóðanna hækka í rúmlega eina millj. kr., sem þá skiptist á milli bæjar- og sveitarsjóðanna, og yrði þá framlag ríkissjóðs til þessara málefna hækkað úr 450 þús. kr., sem það er nú, í 900 þús. kr., en gert er ráð fyrir, að áfram haldist þær 150 þús. kr., sem samkv. l. á að greiða úr ríkissjóði til byggingarsjóðanna af ágóða tóbakseinkasölunnar.

Í sambandi við byggingarsamvinnufélög er hér ekki gert ráð fyrir neinum sérstökum útgjöldum úr ríkissjóði.

Í sambandi við ráðstafanir, sem lagt er til, að gerðar verði til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum, er lausleg tilraun gerð til nauðsynlegrar áætlunar um byggingarkostnað eftir þessu frv. Og ef gert er ráð fyrir, að byggðar verði 300 íbúðir á ári, er áætlað, að kostnaðurinn við að byggja þær mundi verða um 18 millj. kr. Yrði þá kostnaðurinn samtals við að útrýma þessum heilsuspillandi íbúðum alls um 72 millj. kr., 18 millj. kr. á ári í 4 ár. Vitanlega er þetta lausleg áætlun. Þessi kostnaður gæti orðið hærri og gæti einnig orðið eitthvað lægri. Framlag ríkissjóðs og byggingarsjóðanna til þessara mála yrði þá um 2 millj. krónur á ári, eða um 8 millj. kr. á þessum 4 árum.

Ég hygg, að með þessu lagafrv. sé reynt að fara þá leið að ná því marki, að sem allra flestir landsmenn geti eignazt smám saman íbúðir án þess að íþyngja um of fjárhag þeirra né heldur fjárhag sveitarfélaga eða bæjarfélaga.

Það má vel vera, að einhverjar fleiri leiðir séu færar í þessum efnum, og væri þá vel, að hv. heilbr.- og félmn. tæki þær till. til athugunar. Og mundi ég þá óska eftir að eiga umr. við n. um breyt. á frv., ef fram kynnu að koma till. um þær.

Ég tel, að með samþykkt þessa frv. yrði stigið ákaflega stórt spor til þess að bæta úr húsnæðisvandræðum hér í landinu, og jafnframt yrði komið í veg fyrir þá hættulegu spákaupmennsku, sem virðist vera að verða hreinn þjóðarvoði. Mér er t. d. sagt, að það sé algengt hér í Reykjavík, ef maður nær í byggingarefni til þess að byggja hús með þremur íbúðum, þá geti hann, vegna þeirrar eftirspurnar, sem nú er eftir íbúðum, selt tvær íbúðirnar því verði, að hann eigi þá þriðju algerlega skuldlausa. — Í öðrum löndum, bæði í Englandi og Bandaríkjunum, hefur nú komið til mála að setja hámarksverð á hús. En vegna þess að verðlagseftirlitið hefur reynzt að sumu leyti erfitt hér á landi og mun reynast, meðan menn hafa mikið fé undir höndum, þá hef ég ekki séð mér fært að taka ákvæði um það efni upp í þetta frv. En ég vildi aðeins skjóta því fram hér til athugunar, hvort heilbr.- og félmn. sýndist rétt að taka þetta atriði til nánari umr.

Ég vænti þess, — vegna þess hve mál þetta er undirbúið og á hvern hátt það er flutt og af því að hér er um ákaflega mikilsvarðandi málefni að ræða fyrir alla þjóðina, sem nauðsynlegt er, að allir sameini sig um að bæta úr, — að frv. þetta nái skjótri og góðri athugun og afgreiðslu hér í hv. d.