04.04.1946
Efri deild: 99. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1669 í B-deild Alþingistíðinda. (2444)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Bjarni Benediktsson:

Ég get vitnað til þess, sem ég sagði hér við 1. umr. þessa máls, að ég tel frv. að þessum lagabálki vera að öllu til bóta frá því, sem áður var, þó að ég telji hins vegar, að honum hafi um ýmislegt verið ábótavant. Margt af því, sem ég taldi, að betur hefði mátt fara, er nú leiðrétt með þeim brtt., sem n. hefur orðið ásátt um. Tel ég því frv. nú vera stórum betra en það í upphafi var, þ. e. a. s., svo framarlega sem brtt. verða , samþ. Hins vegar eru þó nokkrar veigamiklar brtt., sem ég ber hér fram, en fengu ekki fylgi í n., og er ég því einn flm. að þeim. Fyrsta brtt. mín er um það, að reikningshald hvers byggingarsjóðs verði út af fyrir sig, svo sem vera á eftir frv., en áheimilt sé með öllu að lána fé á milli sjóðanna. Þetta er óbreytt fyrirmæli frá því, sem nú er í l., en frv. gerir ráð fyrir þeirri breyt., að það megi lána fé á milli sjóða. N. hefur tekið upp till. um það, að það megi gera til bráðabirgða. Ég tel, að í frv. félmrh. hafi ákvæðið ekki fólgið meira í sér en slíka bráðabirgðaheimild, og till. n. því að efni til óbreytt frá því, sem frv. ráðh. var. Ég legg hins vegar áherzlu á, að mín brtt. verði samþ., þ. e. a. s., að efnið í þessu verði óhaggað frá því, sem nú er í l. Verður að hafa í huga, að upphaflega voru byggingarsjóðirnir sérstakir fyrir hvern kaupstað og kauptún. Það er fyrst með l. frá 1935, sem sett var ein yfirstjórn yfir þessa sjóði, en þá átti þó að tryggja, að sjóðunum yrði ekki blandað saman. Með þessum ákvæðum, að lána milli sjóðanna, er fellt niður þetta varúðarfyrirmæli, sem hlýtur að verða til þess, að allmikil hætta sé á, að sjóðirnir blandist saman, að hinir fátækari sjóðir fái lán hjá þeim, sem betur eru staddir, og þannig verði ruglað í þessu. Niðurstaðan verður sú að lokum, að um einn sjóð í landinu verður að ræða, og skapast þá vitanlega hætta á því, að hinir efnaðri sjóðir frá hinum stærri stöðum verði notaðir til þess að greiða fyrir byggingum utan sinna endimarka. Þetta tel ég óheppilegt og óeðlilegt, þar sem greiðsla deildarinnar byggist næstum að helmingi á framlagi frá hverjum einstökum stað. Þess vegna hef ég einsett mér að halda fast við ákvæðið, sem gilt hefur, og að slík lán á milli deilda séu óheimil. Ég tel þess vegna talsverðu máli skipta, að þessi brtt. mín verði samþ. Aðrar brtt. eru í rauninni allar í einu samhengi varðandi III. kafla. Fyrsta brtt. þar má segja, að sé nokkuð sérstaks eðlis, en hinar eru allar svo samtengdar, að ef ein þeirra er felld, mun ég taka hinar allar aftur. Hin fyrsta af þessum brtt. við III. kafla er um það, að sú sérstaka fyrirgreiðsla, sem veita á af hálfu ríkisins til bygginga í kaupstöðum og kauptúnum eftir þeim kafla, verði því aðeins veitt, að á síðustu þrem árum hafi fólksfjölgun á þeim stöðum orðið meiri en meðalfólksfjölgun nemur. Ég sé ekki ástæðu til þess, að fyrirgreiðsla með svo óvenjulegum hætti sem í III. kaflanum greinir sé veitt á öðrum stöðum en þeim, þar sem húsnæðisvandræðin beinlínis stafa af óvenjulegri ef ekki óeðlilegri fólksfjölgun. Mér sýnist þvert á móti vera ákaflega eðlilegt, að löggjafinn hagi því svo til að greiða sérstaklega fyrir þeim stöðum, sem í örum vexti eru. Hitt eigi ekki að vera óvinnandi verk fyrir fólkið sjálft á þeim stöðum, sem ekki eru í vexti, að sjá fyrir sæmilegum byggingum af þeim sjóðum og með þeirri fyrirgreiðslu af hálfu hins opinbera, sem í I. og II. kafla greinir. Það hefur verið fært á móti mínum brtt., að þær miðist einungis við hina stærri staði og þá fyrst og fremst Reykjavík. Það er auðvitað misskilningur, að þetta fari eftir stærð staða, heldur fer þetta eingöngu eftir því, hvert fólkið sækir. Það er ljóst samkv. reynslu síðustu ára, að Reykjavík mundi verða aðnjótandi hlunninda samkv. III. kafla, ef mínar brtt. yrðu samþ. En það yrði engan veginn bundið við Reykjavík, heldur alla aðra staði, sem verða að taka við meira en meðalfólksfjölgun, og má þá nefna staði eins og Akranes, Keflavík, Selfossbyggð, Hveragerðisbyggð og ýmsa aðra staði á landinu. Og ég er nú þeirrar skoðunar, gagnstætt því, sem ýmsir þm. vilja telja, að það sé eðlilegt og raunar óumflýjanlegt af ríkisins hálfu að beina fyrirgreiðslu sinni og styrkveitingum til þeirra staða, sem í örustum vexti eru. Þar hefur átt sér stað, svipað því, sem náttúrufræðingar tala um, hið náttúrlega val, þar hefur það verið hið náttúrlega val fólksins, sem gerir það að verkum, að þessir staðir vaxa, og það er vegna þess, að þar eru engar kenningar eða hugmyndir, sem koma til, heldur er það hin sára reynsla, og lífsþörfin, sem hefur skorið úr um það, að þessir staðir eru, a. m. k. eins og sakir standa, byggilegastir. Það á ekki að henda fé í þá staði, sem annaðhvort ekki vaxa, hvað þá staði, sem fara minnkandi, í því trausti, að fólkið haldist frekar við, ef slíkar fjárgreiðslur eiga sér stað. Þetta kann einstaka sinnum að heppnast, en oftast nær er þarna verið að henda fé í óbotnandi hít, og þess vegna glatað að miklu leyti það fé, sem í slíkt er sett, þar sem aftur á móti, ef greitt er fyrir fólkinu á þeim stöðum, þar sem það sjálft kýs helzt að vera, þá eru kannske líkur fyrir því, að unnið sé fyrir varanleg lífsþægindi almennings. Mér sýnist það því af öllum rökum vera auðsætt og eðlilegt, að þær óvenjulegu fyrirgreiðslur, sem ráðizt er í samkv. III. kafla, verði eingöngu bundnar við þá staði, þar sem meira en meðalfólksfjölgun hefur átt sér stað. Og ég held nú satt að segja, að ef ríkið ætlar að taka að sér fyrirgreiðslu varðandi aðra staði í svo ríkum mæli sem í þessum kafla er ráðgert, jafnvel eftir að brtt. meiri hl. n. eru samþ. varðandi þennan kafla, þá sé farið inn á mjög hála braut og ríkið í rauninni reisi sér hurðarás um öxl. Og ef fólkið helzt ekki við á þessum stöðum vegna atvinnuaðstæðna, þá gagnar það í sjálfu sér ekki, þó að allmikið fé hafi verið sett í húsbyggingar þar. Við sjáum einmitt, hvernig fólkið í rauninni flyzt á milli staða nokkuð án tillits til þess, hvernig húsnæðisástandið er á hverjum stað. Við sjáum fólkið þyrpast hingað til Reykjavíkur ár eftir ár, ekki sízt á stríðsárunum, þegar mikið húsnæðisleysi er hér. Það flyzt hingað vegna þess, að það treystir á atvinnumöguleika, vegna þess að þeir séu hér betri en annars staðar, þá muni úr húsnæðisvandræðunum leysast einhvern veginn, og fólkið fer jafnvel úr góðu húsnæði annars staðar út í vonleysið og húsnæðisleysið hér. Ég held, að það sé ákaflega varhugavert að ætla að beita sér á móti þessu vali fólksins sjálfs og ætla að hafa áhrif á það með óeðlilegum fjárgreiðslum úr ríkissjóði. Og einmitt sú landbúnaðarstefna, sem hér hefur átt sér stað, um það að fleygja fé víðs vegar um byggðir landsins án tillits til þess, hvar lífvænlegt er, og án heildarráðagerða, hefur nú sýnt, að þetta horfir ekki til góðs, og jafnvel stórkostlegar fjárgreiðslur úr ríkissjóði hafa ekki megnað að hefta fólkið í sveitunum, vegna þess að ekki var nóg um það hugsað að verja fé fyrst og fremst til hinna byggilegustu staða og gera fólkinu lífvænlegt þar, horfast þá frekar í augu við það, sem við af sögulegum og tilfinninga ástæðum kunnum kannske að harma. En tímans straumur hlýtur óhjákvæmilega að leiða til þess, að ýmsir útskæklar hljóta að verða minna byggðir en áður. Ég er ekki að ræða um það, að það eigi að hvetja fólkið til þess að hverfa af þessum stöðum, heldur að Alþ. og ríkisstj. verði, svo leitt sem okkur kann að þykja það, að fylgja fólksstraumnum eftir og játa, að ekki sé um annað að gera en að veita hina opinberu fyrirgreiðslu til þeirra staða, þar sem fólkið vill helzt dvelja: Því aðeins verður okkar starf að því gagni fyrir fjöldann og fyrir fólkið í heild, sem við nú allir óskum eftir. Ég vildi þess vegna ekki, þó að þessi till. mín fengi engan byr í n., falla frá henni og er sannfærður um, að reynslan á eftir að sýna, að ég hef í þessu efni haft rétt fyrir mér og að því miður verður miklu fé til einskis á glæ kastað til langframa, ef mín till. verður felld, svo sem ég nú fastlega geri ráð fyrir samkv. þeim anda, sem meginhluti þm. er haldinn af að þessu leyti. En jafnframt því, sem ég hef lagt áherzlu á, að það ætti fyrst og fremst að hugsa um þá staði, sem eru í örum vexti, varðandi þá hjálp, sem í III. kafla frv. greinir, þá hefði ég líka viljað hafa þátttöku almannasjóðsins í þessari fyrirgreiðslu með öðrum hætti en frv. gerir ráð fyrir. Ég hefði talið eðlilegt, að þar væri ríkið og sveitarfélögin bæði jafnréttháir og jafnskuldbundnir aðilar, þannig að hvor aðili um sig ætti að leysa úr vandræðunum að jöfnu, þegar þau skilyrði eru fyrir hendi, sem í upphafi kaflans greinir. Og það væri eðlilegt, að ríkið legði fram allverulega fjárhæð þegar í upphafi, en takmarkaði framlag sitt við ákveðinn hluta, þannig að ríkið og ríkisstjórnendur hefðu glöggt yfirlit um það, hvílíkar skuldbindingar það væru, en framlagið væri þá líka svo ríflegt; að það kæmi að verulegu gagni. Eftir frv. er þetta með öðrum hætti. Eftir því, sem frv. upphaflega var, mátti í rauninni segja, að framlag ríkisins ætti fljótt á litið ekki að vera sérstaklega mikið, heldur einkanlega fólgið í ábyrgðum. En þegar þetta var skoðað ofan í kjölinn, sást, að ábyrgðarskuldbindingar ríkisins gátu orðið svo miklar, að framlag ríkisins næmi allt að 100%, þannig að skylda sveitarfélaga hefði orðið harla lítil. A. m. k. var það augljóst, að þau sveitarfélög, sem vildu hafa refjar í frammi, voru ekki með fé sínu skuldbundin. Þau gátu þannig haldið á málum, að bagginn allur lenti að lokum á ríkinu, þó að hann í upphafi virtist ekki sérstaklega þungbær. Þetta er alveg á móti því, sem ég hefði talið eðlilegt í þessu. Ég vildi, eins og ég sagði, láta ríkið leggja ríflega fram, en skyldu þess verá takmarkaða. Í frv. aftur á móti er gert ráð fyrir heldur tregu framlagi ríkisins í upphafi, en skylda þess er líka nokkurn veginn ótakmörkuð, þannig að viðbúið er, að allt lendi að lokum á ríkinu, a. m. k. af hálfu hinna lökustu sveitarfélaga, og var með þessu í rauninni ýtt undir óskilvísi og óstjórn af hálfu sveitarfélaga. Ég get því ekki annað sagt en að heildarstefna þessa kafla frv. var og er mér ákaflega ógeðfelld. Og ég harma það, að ég fékk — engan af nm. til að fallast á þann hátt á þessu, sem ég taldi vera hinn eðlilega, og vil ég ekki segja, þótt það gæti legið nærri, að fyrir þeim vekti að fá Alþ. til þess að taka á sig nokkuð ótakmarkaðar skuldbindingar, þótt þær í upphafi litu sakleysislega út. En þrátt fyrir það að ég sé nú um þetta mjög ósamþykkur mínum nm. og hafi flutt brtt., sem lúta að því að koma því fram, er ég tel rétt í þessum efnum, þá verð ég að segja, að ég tel fyrirgreiðslu ríkisins vera svo nauðsynlega á sérstökum stöðum vegna neyðarástands, sem skapazt hefur, og þrátt fyrir það, þó að fyrirgreiðslan sé með alröngum hætti að mínu viti, þá vil ég nú ekki gerast meinsmaður frv. fyrir þær sakir, þó að mínar till. falli. Ég vil vekja athygli á því og segja það sem varnaðarorð, sem ég hef sagt í n., að út af fyrir sig má ég sem fulltrúi fyrir stórt sveitarfélag vel við una þann hátt, sem á þessu er hafður í frv. En sem fulltrúi ríkisheildarinnar og til eftirlits með því, að á þessu sé hafður skaplegur háttur, fjárgreiðslur ríkisins takmarkaðar og stutt að góðri stjórn sveitarfélaga landsins í heild, tel ég till. félmrh. í þessu vera óheppilegar. Ef þm., eftir að þeim hefur verið bent á þetta og ríkisstj. hefur verið bent á óheppilegar afleiðingar af frv., engu að síður halda fast í þessi ákvæði og vilja ekki fallast á sanngjarna og hófsamlega leiðréttingu, þá ganga þeir aðilar þar með opin augu í þá ófæru, sem á er bent, og það verður þá á þeirra ábyrgð. En ég vil taka það fram, að ég tel það þó góðra gjalda vert, að hæstv. félmrh. hefur beitt sér fyrir þátttöku ríkisins í þessum efnum í stærri stíl en nokkur hans fyrirrennari hefur gert, og fyrir það á hann þess vegna þær þakkir skilið, sem ég hef fært honum nú, þó að ég hefði kosið, að frv., sérstaklega vegna hagsmuna ríkissjóðs, væri með öðrum hætti að þessu leyti en það er.

Ég skal svo ekki fjölyrða miklu meira um þetta. Ég vil taka það fram, að brtt. n. við III. kafla eru að mínu viti allar til hins betra, þó að þær fari ekki eins langt og ég hefði talið æskilegt. Ég tel visst ósamræmi í þeim eins og þær liggja fyrir, en skal ekki fara að rekja það að þessu sinni, en áskil mér rétt til að gera það við 3. umr., þegar komið er á daginn, hvort þær ná samþykki. Þá tel ég réttara að breyta einstökum atriðum þeirra í samræmi við þá heildarhugsun, sem í þeim felst, en fer ekki í það nú, vegna þess að ég vil á þessu stigi halda fast við þær till., sem ég hef fram flutt. Að öðru leyti skal ég segja það, að ég hefði talið réttara, eins og ég benti á við 1. umr. þessa máls, að frv. þetta hefði verið flutt sem fjögur sérstæð frv., og greiddi því atkv. í n. brtt., sem ég flutti í þá átt, að frv. yrði klofið í slík fjögur frv. Ég er sannfærður um, að ef frv. hefði verið flutt með öðrum hætti strax í upphafi, þá er sennilegt, að strax fyrir jól hefði verið hægt að afgr. einhverja kafla frv. út af fyrir sig. Hæstv. ráðh. vildi ekki fallast á þetta, og hefur hann vafalaust haft sínar gildu ástæður til þess, þótt ég gæti ekki séð þær. En ég játa, úr því sem komið var með afgreiðslu málsins og samkomulag var fengið um kaflaskiptingu frv., að það kynni að hafa stefnt málinu í tvísýnu, ef átt hefði að fara að fjórskipta frv. Og fyrir tilmæli hæstv. dómsmrh. lét ég því undan og varð ásáttur með að afgreiða málið í heild. Ég vildi kljúfa frv. í sundur. Þegar svo var komið, að trauðla mundi tími vinnast til að afgr. allt, þá vildi ég hins vegar engan veginn seinka afgreiðslu málsins, eins og sjá má af því, að ég afhenti þegar brtt. mínar fyrir síðustu jól.

Ég tek þetta fram vegna aths. minna við frv. Enda þótt ég vildi, að veigamikil atriði í frv. væru öðruvísi, þá tel ég því betur farið með aðeins litlum breyt., jafnvel þótt sumar mínar brtt. o. fl. verði felldar, og mun greiða því atkv., enda tel ég það þrátt fyrir allt miða mjög í rétta átt. En ég tel það spilla mundu málinu, ef sumar till. annarra nefndarmanna yrðu samþykktar.