21.11.1945
Efri deild: 34. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

92. mál, tekjuskattsviðauki 1945

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Hv. 1. þm. Eyf. vakti athygli á því, að betra gæti verið að hafa þessi l. ótímabundin. Ég get fallizt á þetta. En hvað þessu frv. viðkemur hef ég litið á það sem stundarfyrirbrigði. Ég hef ekki gert ráð fyrir, að tekjuskattsviðaukin.n verði framkvæmdur nema til þess að greiða niður landbúnaðarvörur. Annars er víst ekki mikill ágreiningur um það, að tekjuskatturinn er nú svo hár, að ekki kemur til greina hækkun á honum. Ég held að minnsta kosti, að að svo stöddu sé því ekki ástæða til að samþ. þessa brtt. á þskj. 188.

Þetta mál var svo þrautrætt á síðasta þingi í sambandi við veltuskattinn, og kom þá vel í ljós vilji hv. d. í þessu máli, og vart hefur hann breytzt svo frá þeim tíma. Hv. þm. er vel kunnugt, að skatturinn er ekki frádráttarhæfur fyrir 1946. Og það væri ósamræmi við veltuskattslögin, ef þetta yrði samþ. Á síðasta þingi voru flestir því sammála, að veltuskatturinn væri ekki frádráttarhæfur, því að hann væri lagður á þá, sem mest græddu í ófriðnum, og sú krafa kom ekki síður frá flokksmönnum þessa hv. þm. En ef nú yrði gripið til þess að gera hann frádráttarhæfan, orkaði það tvímælis, hvort það yrði ekki ágóði fyrir þau sömu fyrirtæki, sem veltuskattinn borguðu.

Ég sé því ekki ástæðu til, að þessi till. fari lengra, nema hv. þdm. hafi skipt um skoðun frá síðasta þingi.