12.04.1946
Neðri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (2490)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Skúli Guðmundsson:

Ég vildi aðeins minnast á nokkur atriði í þessu máli, áður en það fer til n. Það er að vísu dálítið erfitt að ræða frv. á sömu stundu og því er útbýtt. En það, sem ég vildi sérstaklega benda á, að þyrfti athugunar við, er það, hvort þess væri ekki þörf, um leið og slíkt frv. er samþ., að gera ráðstafanir til þess, að byggingar yrðu ódýrari en nú er. Húsaleigunefnd í Rvík metur íbúð í nýju húsi á 60 þús. krónur, tvö herbergi og eldhús, og á 90 þús. krónur 3 herbergi og eldhús. Það liggur í augum uppi, að það er ofvaxið flestum að búa í slíkum húsum. Nú er á það bent, að þetta verði viðráðanlegra fyrir þá, sem eru í byggingarfélögum, en aðalatriðið er það að gera byggingarnar ódýrari. Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir, að lána megi allt að 90% út á hús til 42–75 ára. Mér virðist ískyggilegt að leggja þær byrðar á komandi kynslóðir að byggja mikið af þessum dýru húsum. Ég er þeirrar skoðunar, að hægt sé að lækka byggingarkostnaðinn allverulega. Það mun satt vera, að einstakir menn og byggingarhlutafélög hafa safnað óhæfilegum gróða á þann hátt að byggja og selja hús undanfarin ár. Þess munu og dæmi, að teknar séu 10 þús. kr. fyrir að hafa eftirlit með smíði á einni íbúð. Ef byggingarfélögin hins vegar hefðu í sinni þjónustu fasta starfsmenn, sem litu yfir og aðstoðuðu einstaklinga við byggingarnar, gæti það orðið miklu ódýrara. Ég veit til þess, að bankamenn hér í bæ, sem eiga von á tilbúnum húsum frá Svíþjóð, hafa ákveðið að vinna sjálfir að uppsetningu húsanna í frístundum sínum. Ég held, að þetta sé mjög til fyrirmyndar. Það er hollt fyrir þá, sem vinna, t. d. í skrifstofum, að vinna sjálfir að því að koma sér upp húsi í tómstundum. Ég vildi nú beina því til hv. n., hvort hún sæi ekki ráð til þess að aðstoða slíka menn, sem vilja reisa sér hús sjálfir. Ég hef veitt því athygli, að í 18. gr., c-lið, í frv. um byggingarsamvinnufélög er gert ráð fyrir því, að menn byggi hús sín sjálfir, en ég hef ekki fundið hliðstæð ákvæði í frv. um verkamannabústaði, og vildi ég einnig beina því til n., hvort ekki væri rétt að setja hliðstæð ákvæði þar inn. Þá finnst mér nokkuð mikill munur á aðstoð þeirri, sem byggingarsamvinnufélög og verkamannabústaðir eiga að njóta, og þætti mér réttmætt, að þar væri meiri jöfnuður.