10.04.1946
Neðri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (2506)

144. mál, Austurvegur

Frsm. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti. Mál þetta er fram komið í Ed. má segja í því formi, sem það er komið til þessarar deildar. Samgmn. Nd. hefur nú haft málið til meðferðar, og hafa allir nm. orðið á eitt sáttir eftir athugun á gögnum öllum, og telja þeir, að frv. þetta eigi að ná fram að ganga. Tveir nm. skrifa undir nál. með fyrirvara, og munu þeir gera grein fyrir sinni afstöðu.

Að þessu máli eru tvær undirstöður. Árið 1932 voru l. sett um þetta efni, en það voru lögin um Þrengslaveg, svo að hér er í rauninni ekki um neitt nýmæli að ræða, en síðan hefur málið fengið gagngerðan og öruggan undirbúning, svo að það er ábyrgðarhluti nokkur að láta nú dragast úr hömlu fremur en orðið er að veita þessu máli lagagildi. Verkfræðingar hafa verið til kallaðir að athuga þessa leið og gera mælingar og athuganir, og hafa þeir lagt til, að sú leið, er hér greinir í frv., verði valin, þar eð hún mundi öruggust til frambúðar. Þegar talað er um til frambúðar, er átt við, að þessi leið muni bílfær á þeim tímum árs, sem á annað borð er fært yfir fjallvegi. Nú er um að ræða aðra leið, hinn svokallaða Krýsuvíkurveg, sem er nokkru lengri, en margir telja öruggari, og skal því ekki í móti mælt, þótt hins vegar sé ekki fyrir því nein sönnun, þar sem Þrengslavegurinn er enn eigi kominn á og því engin reynsla af honum fengin.

Þá skal á það minnzt, sem fært hefur verið fram sem rök gegn þessum vegi, að með því að samþykkja þetta frv. yrðu hindraðar framkvæmdir varðandi byggingu Krýsuvíkurvegarins. Ég ætla þó, að þessu sé ekki svo háttað. Engum mun þykja hlýða að láta hætta við þann veg, sem þegar er langt kominn, þótt hins vegar sé horfið að því ráði að leggja þar veg, sem hann verður stytztur og jafnframt fullkomnastur.

Mér skilst, að nú sé úr sögunni að leggja járnbraut þessa leið, a. m. k. hreyfir því enginn, og má vera, að það sé rétt. En þá er auðsætt, að hverfa ber að því, sem næstbezt er, en það er fullkominn bílvegur, en eins og kunnugt er, hefur vegagerð mjög farið fram hin síðustu ár, svo að nú þarf lítinn hluta þess mannafla, sem áður gerðist, til að gera slíkan veg. Í 5. og 6. gr. frv. er gerð nokkur áætlun, að svo miklu leyti sem hægt er að tala um áætlun um slíkt stórmál, en í 5. gr. segir svo, að framkvæmdir skuli miðaðar við, að vegurinn verði fullgerður á næstu 6 árum, enda verði nægilegt vinnuafl fáanlegt, svo og stórvirkar vinnuvélar. Í 6. gr. er gert ráð fyrir, að ríkisstj. sé heimilað að taka lán allt að 20 millj. kr. til að standa straum af þessum framkvæmdum. Nú er það vitanlegt, að æskilegra hefði verið, að fé hefði verið handbært til þessa, en þó svo sé nú ekki, þá er það jafnframt kunnugt, að fé hefur einatt verið tekið að láni til ónauðsynlegri framkvæmda og í meiri óvissu en hér um ræðir. Þá er og þess að geta, að hér er einungis um að ræða heimild, sem vitanlega verður ekki notuð, ef fé er fyrir hendi.

Nú kann að vera, að einstakir þm. óski að flytja brtt. við þetta mál. En þá er þess að gæta, að nú er keppzt við að ljúka þingi innan fárra daga, en hins vegar mörg stórmál óafgreidd. Mætti því svo fara, ef þessu frv. væri nú breytt og sent aftur til Ed., að það næði ekki fram að ganga á þessu þingi. Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess fyrir hönd meiri hl. samgmn., að frv. verði samþ. í því formi, sem það nú er.