13.02.1946
Neðri deild: 66. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (2548)

29. mál, fræðsla barna

Frsm. (Páll Þorsteinsson) Aðeins fáein orð. Ég er fús og mér er það ljúft að færa það í tal við n., sem hv. 2. þm. Skagf. benti á, að álit skólanefnda kæmi til við alla tilhögun framkvæmda í þessu máli. En um 2. atriðið, um farartæki til að flytja börn til skóla, þá vildi ég benda á, að í 14. gr. frv. er gert ráð fyrir, að ríkið taki þátt í þeim kostnaði. Um það segir svo í 3. málsgr.:

„Í skólahverfum, þar sem svo hagar til, að börn geta ekki sótt heimangönguskóla nema þeim sé ekið til og frá skólastað, er heimilt að greiða styrk til kaupa á skólabíl, er nemi allt að þremur fjórðu hlutum kostnaðarverðs.“ Hvorki menntmn. né skólanefndir hafa látið þetta fram hjá sér fara. En þetta er algert nýmæli.

Út af þeirri aths., sem hv. þm. V.-Húnv. gerði við 14. gr. frv., þá vil ég taka það fram, að í þessu frv. eru engin ákvæði um eignarrétt sveitarfélaga á skólahúsunum, frekar en verið hefur.

Ég álít, að það sé ótvírætt, að litið sé svo á, að skólahúsin séu eign hreppanna, en það, sem ríkið leggur fram, er aðeins styrkur. Eins og frv. er nú, felur það ekki í sér neina breyt. á þessu. — Hv. þm. V.-Húnv. benti einnig á, að e. t. v. væri ástæða til að bæta því inn í frv., að allar tekjur af skólahúsunum féllu til hreppanna. Ég vil stuðla að því, að það verði athugað, áður en frv. verður sent frá deildinni. Ég vil og benda á, að þetta er aðeins 2. umr. og því enn tækifæri fyrir menntmn. og einstaka þm. að koma fram með brtt. fyrir næstu umr. — Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri.