09.04.1946
Efri deild: 102. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (2611)

29. mál, fræðsla barna

Bjarni Benediktsson:

Ég hef ekki átt þess kost að fylgjast með umræðum. En ég hjó í það, að ráðh. sagði, að ef brtt. yrðu samþ., þá yrðu skólanefndirnar skipaðar á annan veg í sveitum en í kaupstöðum. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Mundi þá ekki þurfa breytingu á skipun skólanefnda í kaupstöðum strax, ef frv. yrði að lögum, og skipa þær að nýju eftir fyrirmælum laganna? Með þessari spurningu er ég ekki að taka afstöðu til þessarar brtt., heldur vildi ég kynna mér þetta áður og hvaða afleiðingar breytingin mundi hafa.

Annað atriði, sem ég vil spyrja um, er það, hvernig ráðgert er að framkvæma styrk til skólabygginga. Ég leyfi mér að spyrja, hvort það skuli ekki ná til allra þeirra skólahúsa, sem nú er verið að reisa, en ef svo er ekki, hver eiga þá mörkin að vera?

Varðandi brtt. hv. 1. þm. Eyf. finnst mér hæpið að setja svo víðtæka heimild. Þótt aðeins sé um heimild að ræða, þá mundu allir kennarar reyna að nota hana til hins ýtrasta. Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hversu marga kennara væri um að ræða á ári, svo að deildin fengi yfirlit um, hvað stórkostleg útlát væri um að ræða árlega. Ég get hugsað mér, að kennarar séu ekki færri en 300–400, þá væri hér um að ræða 30–40 menn árlega á fullum launum, án þess að þeir gerðu nokkuð. Mér fyndist það ganga nokkuð langt að svo stöddu máli. Hitt er annað mál, að veita kennurum eitthvert leyfi eftir langa þjónustu til hvíldar og hressingar, og gæti ég hugsað mér 3–4 mánaða leyfi, þá næðu þeir hálfu ári í leyfi, þegar sumarleyfið er talið með. Þó að menn telji sér skylt að vera örlátir, þá verður það að vera innan einhverra takmarka. Ég ber meira traust til hæstv. ráðh. en 1. þm. Eyf., en það gæti komið sá ráðh. til valda, sem misnotaði þessa heimild. (BSt: Kennararnir eiga að verja tímanum til náms.) Við erum að sjálfsögðu alltaf að bæta anda okkar, þegar við erum í leyfum, hvort sem við erum launaðir eða ekki. Og það væri meiri andlegi vesalingurinn, sem ekki notaði leyfi til þess einhvern hátt að uppbyggja sig og auka þekkingu sína. Ég er ekki á móti því, að gefin sé einhver heimild í þessu efni, en ég tel hæpið að ganga svona langt strax í byrjun.

Varðandi brtt. hv. þm. Str. um skipun fræðsluráðsins, þá get ég fallizt á þá brtt., ef sveitarstj., sem tilnefnir fræðsluráð, kysi formann úr sínum hópi. Ég tel, að slík fræðsluráð og skólanefndir eigi að vera fulltrúar héraðanna, og þess vegna tel ég alls ekki eðlilegt, að ráðh. ráði um skipan þeirra. Hitt er óeðlilegt, að skólanefndirnar séu skipaðar þannig, að frá þeim komi tillögur, sem séu litaðar og ekki samkv. vilja héraðsbúa, heldur ráðherra. — Það er enginn ráðh. bættari með að fá tillögur frá mönnum, sem hann sjálfur hefur skipað og getur því skipað að segja það, sem hann vill. Nei, það eiga að vera sjálfstæðir aðilar, óháðir ráðh., sem gera tillögur.