23.04.1946
Efri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (2671)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Það er aðeins út af bráðabirgðaákvæðinu um innflutning húsa, sem Nd. hefur samþ. Það er nú til athugunar í nefnd, hvort hentugt sé að flytja inn tilbúin hús. Sú nefnd hefur ekki enn þá skilað áliti. Ef nefndin kemst að þeirri niðurstöðu, að slíkur innflutningur sé heppilegur, þá yrði þessi heimild notuð. En hins vegar ef húsin reyndust miður heppileg, þá mundi ég ekki telja rétt að gefa neinar tollaívilnanir. Þetta atriði veltur því á niðurstöðum nefndarinnar.

Ég vil geta þess, að óskir hafa komið fram um, að umræðum um þetta mál verði frestað, einkum vegna 39. gr. frv. Ég flyt því þau tilmæli áfram til hæstv. forseta. Þó læt ég mig það engu skipta.