16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (2762)

172. mál, nýbyggingar í Höfðakaupstað

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Um ummæli hæstv. ráðh. vil ég segja það, að gr. er ljós og lýsir fyllilega tilgangi sínum, en það er, að ríkið leggi fram spildur, sem væru nægar fyrir þetta þorp fyrst um sinn, og taki 2% af fasteignamati. Nýbýlanefnd mun standa fyrir þessu þar til 1951, en eftir það hreppsnefndin í Höfðakaupstað. Annars mun 8. gr. frv. skýra þetta atriði. Ég skal ekki segja, að þetta sé bezta fyrirkomulagið, og er sjálfsagt að athuga þetta nánar, ef hæstv. ráðh. óskar þess.

Hvað viðkemur ræðum hv. þm. Barð. og hv. 1. þm. Eyf., þá þýðir ekki að þrátta um kýrnar, því að ég hef sjálfur hirt kýr og mokað flór, og sýnir sig, að líkt er á komið hér og með Jósef í Egyptalandi. Einn hlutinn fer í eyðslueyri, en annað lokað inni, eins og Jósef, er hann safnaði í kornhlöðurnar. Hér eru teknar í kornhlöður 300 millj. kr., en hinu eytt. Það getur verið nógu erfitt að standa á móti því, að vöruþurrð verði í landinu, og það hefur verið gefið í skyn, að viðskiptaráð haldi ekki nógu fast í taumana. — Um brtt. hans skal ég ekki karpa frekar. Nýbyggingarráð er að láta framkvæma þetta og afhendir svo viðkomandi hreppsnefnd það, en ríkissjóður leggur fram peningana, og því er aðstaða hans ekki hin sama og hreppsnefndarinnar og nýbyggingarráðs, sem er hugmyndasmiðurinn og ber siðferðilega ábyrgð á þessu. Hreppsnefndin þarf ekki að kvarta, og hefðu áreiðanlega margar hreppsnefndir viljað fá slíkt hið sama.

Við hv. þm. Barð. er erfitt að ræða þetta, því að hann hefur flest á hornum sér. Frv. er rammi, og hann getur spurt í þaula, og ég treysti mér ekki til að svara öllu, sem hann kann að spyrja um. Þetta er rammi, og nýbyggingarráð á að fylla út í þennan ramma. Áhættuféð er 5 millj. kr., sem lagt er fram, og svo á að gera eins myndarlegan bæ og hægt er, og þetta er meira en venjuleg ríkisábyrgð, það er áhættusöm ábyrgð. Um veð í eignunum er það að segja, að það er sjálfsagt, að mannvirkin séu til tryggingar lánunum. Bezt væri, að svo vel tækist til, að þegar Höfðakaupstaður tekur við þessu, þá gæti hann endurgreitt þetta allt og ríkissjóður yrði skaðlaus. Og þetta er ekki ómögulegt, því að það eru engin ósköp fyrir svona bæjarfélag, þótt það taki að sér skuldir. Og skemmtilegast væri, að þessar 5 millj. kr. yrðu bara fyrirgreiðslufé, sem næstu þm. gætu svo lagt í annan kaupstað.

Um það, hvort ráða ætti sérstakan framkvæmdastjóra, þá hefur mér aldrei dottið í hug, að skipulagsstjóri ríkisins sæti þarna, og fer það mikið eftir því, hvernig nefndin spilar úr þessu, hvort hún felur þetta einum framkvæmdastjóra eða fleiri mönnum.

Ég treysti mér svo ekki til að skýra þetta nánar. Ég tel frv. ramma, og það fer eftir því, hvernig á málunum verður haldið, hver útkoman verður, en það er ekki rétt að gera ráð fyrir, að þetta fé skilist aftur.