26.03.1946
Neðri deild: 95. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2022 í B-deild Alþingistíðinda. (2832)

104. mál, atvinna við siglingar

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. sjútvn. fyrir afgreiðslu þessa máls. Það er ekkert tiltökumál, þó að það hafi tekið nokkuð langan tíma fyrir n. að gera þær breyt. á þessu frv., sem hér liggja fyrir. Og mér er það vel kunnugt frá því að ég átti þátt í því, að athuga frv., sem breyt. eru gerðar við og aðeins ná til eins flokks vélstjóra, að það er ekkert áhlaupaverk að bæta við og koma fyrir í réttri röð, svo ekkert raskist, tveim flokkum vélstjóra, eins og gert hefur verið í þessu frv. og ég tel í alla staði rétt og eðlilegt að gera með tilliti til þess, sem hér er farið fram á í því upphaflega frv.

Hér hafa að vísu verið gerðar nokkrar breyt., þannig að réttindaaukning til handa þeim, sem farið var fram á í frv., er ekki eins og þar var gert ráð fyrir, og má að sjálfsögðu eftir atvikum ekki telja óeðlilegt, þó að slík ákvæði séu sett, enda hefur mér skilizt, að afgreiðsla málsins í n. hafi byggzt á því, að inn á slíkt samkomulag var gengið. Ég vildi þá aðeins taka hér fram, hvernig ég skil þessi undantekningarákvæði, og bið hv. frsm. þá að gera aths. við, ef minn skilningur á þessu er ekki réttur. Það er sem sé gert ráð fyrir því í fyrsta lagi, að lengdur sé námstími þriggja vélstjóraflokka frá því, sem nú er, og tekur þetta einnig til þeirra, sem próf taka eftir að þessi 1. eru sett, þ. e. a. s., að þessum 3 flokkum vélstjóra er gefinn kostur á því á næstu 3 árum, eftir að þessi l. öðlast gildi, að öðlast þessi réttindi með, því að bæta við sig tveggja mánaða námskeiði og taka próf. Þá er sú undantekning frá þessu gerð, að þeir vélstjórar, sem nú hafa réttindi til þess að fara með vél allt að 150 ha., en eiga samkv. þessu frv. að fá réttindi til þess að fara með vél allt að 250 ha., þeir þurfa ekki að ganga á námskeið eða ljúka prófi, ef þeir hafa verið 4 ár — með þeim skilningi, sem hv. frsm. lagði í það, — sem vélstjórar á skipum eða bátum. Ég skil þetta þannig, og vildi ég skírskota því til hv. frsm., hvort þetta er ekki réttur skilningur. Og með tilliti til þessa skilnings á brtt. tel ég, að það sé mjög mikill vinningur að því að fá þessar breyt. samþ. og frv. afgr. sem l. á þeim grundvelli. Það ber vitanlega þannig að skilja það, að þessir vélstjórar, sem hafa farið með vél í 4 ár, öðlist þessi réttindi strax eftir gildistöku l.