17.04.1946
Efri deild: 110. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2044 í B-deild Alþingistíðinda. (2884)

31. mál, menntaskólar

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég ætlaði að bera fram fyrirspurn til hæstv. menntmrh., ef hann væri við látinn. (Forseti: Hann er víst lasinn og kemur ekki fyrr en við atkvgr. seinna). Það er í sambandi við stað fyrir nýjan menntaskóla í Reykjavík. Ég hef orðið þess áskynja í sambandi við störf mín utan Alþ., að það mun vera mjög í ráði að flytja menntaskólann hér í Reykjavík af þeirri lóð, sem hann er á nú. Nú er það þannig, að þessi staður, sem skólinn er á, er sá sami, sem skólinn hefur verið á alla tíð, frá því er hann var fluttur hingað til Reykjavíkur fyrir réttum 100 árum. Og ég þori að fullyrða, að það sé enginn staður, sem sé hentari vegna legu sinnar hér en hann. Það er haft á móti þessum stað, að það sé ekki nóg landrými á lóð hans til leika úti við og eins að hann liggi nokkuð nærri aðalumferðargötu. Sannleikurinn er sá, að það er engin nauðsyn, þó að nemendum sé ætlaður staður til leikvangs, að sá leikvangur sé alveg við skólann sjálfan. Það er meira að segja líklegt, að slíkur leikvangur mundi verka truflandi á kennsluna heldur en hitt, ef hann er rétt við skólann sjálfan. Og það er a. m. k. eftirtektarvert, að menn skuli vilja leikvang fast við skólann, þar sem því er annars vegar haldið fram, að skólinn sé fullnærri aðalgötu í bænum, því að þá mundu nemendur skólans. miklu fremur verða fyrir truflandi áhrifum, ef leikvangur væri alveg fast við skólann. Ég held því, að það sé alveg auðsætt, að þau rök, sem hafa verið færð gegn því að hafa skólann á sama stað og hann er nú, séu einskis virði. Hitt er ljóst, að þessi skóli á væntanlega eftir að verða um langan tíma ákaflega fjölsóttur staður. Og ég efast um, að það séu margar skrifstofubyggingar sem er þó talið nauðsynlegt, vegna þess hve fjölsóttar þær eru, að séu í miðjum bæ, — fjölsóttari en þessi skóli. Skóli þessi verður, ef að líkum lætur, sóttur af a. m. k. 400–500 manns daglega yfir alla vetrarmánuðina. Og það er þess vegna greinilegt, að það yrði til stórkostlegra óþæginda, ef þessi skóli væri settur einhvers staðar út úr, þannig að það væri óhjákvæmilegt, að meginhluti nemendanna yrði að koma dags daglega þangað með einhverjum farartækjum. Það væri bæði erfitt að koma því við að láta farartækin vera við höndina til þess að flytja unglingana á svo fastbundnum tíma sem hér er um að ræða, auk þess sem þetta yrði varanlegur og fast bundinn kostnaður. Aftur á móti, ef skólinn er á þeim stað áfram, sem hann nú er á, mundi þetta verða miklu minni og hverfandi óþægindi og kostnaður miðað við það, sem væri, ef ætti að setja skólann á slíkan útkjálka, sem ég hef heyrt nefndan í þessu sambandi. Ég held, að það sé staðlaust, sem haldið hefur verið fram um þetta, að það sé ekki hægt að koma nægilegum skólabyggingum fyrir á lóð þeirri, sem skólinn hefur staðið á. Það er ekki vafi á því, að slyngur byggingarmaður mundi geta komið þessu mæta vel fyrir, ef hægt væri að kaupa upp lóðir austanvert við núverandi skólalóð og stækka hana þannig. Ég held því, að öll rök hnígi að því, að sjálfsagt og óhjákvæmilegt sé að láta skólann vera áfram þar, sem hann hefur verið um aldar skeið, og ýmsar sögulegar minningar eru tengdar við, bæði varðandi skólann sjálfan og landið allt. Og það eru ekki svo margir staðir, hvorki í þessum bæ né heldur á landinu öllu, þar sem slík lifandi arfsögn á við og um þennan skóla og þennan skólastað, að það sé rétt að óþörfu að eyða henni.

Ég hafði þess vegna hugsað mér að spyrja hæstv. menntmrh. í sambandi við þetta mál, hverjar ráðagerðir átt hefðu sér stað í þessu efni viðvíkjandi stað fyrir Menntaskólann í Reykjavík. Og ég tel þetta, sem ég hef sagt, vera ákaflega mikil atriði í þessu sambandi. Vildi ég gjarnan leita við hæstv. ráðh. samkomulags um það, að hann gerði ráðstafanir til þess, að skólinn yrði ekki fluttur. Ef hæstv. menntmrh. fengist ekki til að gefa yfirlýsingar í þá átt, að hann yrði ekki fluttur, hafði ég hugsað mér að bera fram brtt. við þetta frv., sem væri á þá leið, að ákvæði hennar létu í ljós vilja hæstv. Alþ. um það, að skóli þessi yrði ekki fluttur, — a. m. k. ekki án þess að frekari rök fyrir því kæmu til að mæla með flutningi hans en enn hafa komið fram. Ég vildi nú mega mælast til þess, að hæstv. forseti eða hv. frsm. n. kæmu þessari fyrirspurn minni til hæstv. menntmrh. og að umr. um málið yrði frestað a. m. k. þangað til síðar í dag, svo að hægt væri að flytja hingað svör frá hæstv. menntmrh. við því, sem ég vildi bera fram fyrirspurn til hans um. Og ég bendi á það, að það er ekki hægt að fallast á það, að mál, sem ekki hefur verið samið um, að eigi að fá framgang, séu afgr. með slíkum hraða, að þm. gefist ekki færi á að átta sig á þeim né gefið sé tóm til þess að flytja brtt. við þau. Og þetta mál er hvorki aðkallandi mál né heldur mál, sem samið hafi verið um, að skuli fá afgreiðslu á einhverjum tilsettum tíma. Og þess vegna tefur meðferð þess raunverulega fyrir þeim málum, sem ákveðið hefur verið, að afgreiðslu fengju á þinginu.