17.04.1946
Efri deild: 110. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2048 í B-deild Alþingistíðinda. (2895)

31. mál, menntaskólar

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég ætla ekki að fara að deila og ekki heldur gefa mönnum ástæðu til þess að fara í þjark við mig eða koma af stað málþófi. Brtt. sú, er ég flyt hér, er shlj. brtt. minni við frv. til l. um gagnfræðanám. Þessi till. er framhald af brtt. við barnafræðslufrv.

Till. mín er umorðun á 16. gr. Einu atriði er þó aðeins breytt. Það er, að heimilt sé að veita kennara ársorlof bara einu sinni á kennslutíð hans, þó því aðeins, að hann sé búinn að gegna embætti í 10 ár. Á hinn bóginn, ef þetta er ekkert takmarkað, þá getur sá, er verið hefur kennari í 30–40 ár, fengið mörg orlof, og þá fer allt samræmi út um þúfur. Ég tel ákvæðið í 16. gr. þess eðlis, að verið geti einungis um stundarsakir. Verður bara að setja sérstök l. um orlof þessara manna, sem eru embættismenn ríkisins.

Till. mín hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„16. gr. frv. orðist svo:

Nú hefur kennari gegnt embætti í 10 ár og óskar að hverfa frá störfum í eitt ár til að efla þekkingu sína og kennarahæfni, og skal hann þá senda fræðslumálastjóra beiðni um orlof ásamt greinargerð um, hvernig hann hyggst að verja orlofsárinu. Ef fræðslumálastjórn telur þá greinargerð fullnægjandi, getur hún veitt kennaranum ársorlof með fullum launum. Engum kennara skal þó veita slíkt orlof nema einu sinni. Beiðni um orlof skal send fræðslumálastjóra með árs fyrirvara. Fræðslumálastjórn veitir kennurum, er þess óska, leiðbeiningar um, hvernig orlofsári skuli varið, en allir verða þeir að gefa henni fullnægjandi skýrslu um störf sín að orlofsári loknu, að viðlögðum launamissi fyrir það ár.

Fræðslumálastjórn setur nánari reglur um framkvæmd orlofs kennara. Skal þess gætt, að það trufli ekki störf skólans eða torveldi þau.“

Að svo mæltu leyfi ég mér að afhenda hæstv. forseta brtt.