08.12.1945
Sameinað þing: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

16. mál, fjárlög 1946

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég vil aðeins með örfáum orðum lýsa ánægju minni yfir því, að fjvn. hefur lagt til, að útgjöldin til vega og hafnarmála yrðu verulega hækkuð frá því, sem fjárlfrv. gerir ráð fyrir. Mér var það ljóst í upphafi, þegar frv. var lagt fram, að það mundi þurfa að hækka það verulega frá því, sem þar var gert ráð fyrir, enda hefur það líka verið gert. N. hefur lagt til, að framlög til nýrra vega yrðu hækkuð um rúmar 2 millj. kr. frá því, sem er í frv., og er það þá, eftir því sem segir í áliti n., um 900 þús. kr. hærra en framlag til vega í þessa árs fjárl. Um skiptingu þessa vegafjár orkar alltaf tvímælis, og skal ég alveg leiða minn hest frá því að fara neinum orðum um skiptingu n., því að alltaf eru einhverjir óánægðir með þessa skiptingu og alltaf eru einhverjir, sem vilja fá meira en þeim er ætlað og telja sig ekki verða fyrir réttlátri útdeilingu, þó að maður skyldi ætla, að svo væri. Það höfuðsjónarmið, sem ég lagði áherzlu á við n. og hún hefur tekið til greina, er það, að vegalagningu til þéttbýlla staða, stórra sjávarþorpa og kaupstaða yrði hraðað eins og mögulegt væri. Hefur verið lögð sérstök áherzla á vegarlagningu til Siglufjarðar um Siglufjarðarskarð, og er gert ráð fyrir, að henni ljúki fyrir það fjárframlag, sem nú er gert ráð fyrir, 450 þús. kr. Til Ólafsfjarðar er líka gert ráð fyrir að ljúka veginum fyrir 400 þús. kr., sem til hans er veitt. Veginum til Neskaupstaðar um Oddsskarð, sem veittar eru til 300 þús. kr., á einnig að vera hægt að ljúka fyrir þá upphæð. Allir þessir staðir eru kaupstaðir, mannmargir á okkar vísu, hafa verið vegalausir til þessa, og með furðu litlu átaki, þó að þetta sé nokkuð stór upphæð, er hægt að koma þessum stöðum í akfært samband við vegakerfi landsins. Þetta hefur fjvn. fallizt á, og er ég henni þakklátur fyrir það. Og í beinu framhaldi af þessu koma svo enn aðrar stærri vegalagningar, sem eru aðalbrautir landsins, svo sem eins og Hafnarfjallsvegur, Vatnsskarðsvegur og Öxnadalsheiðarvegur, með samtals upp undir 1 millj. kr. fjárveitingu, á norðurleiðinni. Þetta er ein fjölfarnasta leið landsins, og er mikil ástæða til að flýta lagningu hennar eins og mögulegt er, enda líka orðið við því, því að til hennar er ætlað í till. n. um 1 millj. kr. Auk þessara vega er svo aðalleiðin til Vestfjarða um Þorskafjarðarheiði, sem gert er ráð fyrir, að verði unnið að á þessu ári að verulegu leyti fyrir það fé, sem til er, en þó bætt við það miklu, að hægt verði að gera bryggju við enda vegarins, á Arngerðareyri, og komast þannig í samband við farþegaflutningana um Ísafjarðardjúp. Þá er líka, til þess að koma heilum landshluta í samband, að nefna má veg eins og Barðastrandarveg og Selvogsveg, en til hans er veitt 600 þús. kr., og þó að það sé heldur minna en ég ímyndaði mér, að vegamálastjóri hefði lagt til, þá er ekkert við því að segja, því að upphæðin er há. Fleiri dæmi mætti nefna um aðalbrautir, sem ég hefði fyrir mitt leyti viljað leggja áherzlu á, og það er sjálfsagður hlutur, finnst mér, að þar, sem eru þéttbýlir og fjölmennir staðir á okkar mælikvarða, sem geta komizt í samband með tiltölulega litlum kostnaði, verði lögð áherzla á að koma þeim í vegasamband á þann hátt þó, eins og hér er gert ráð fyrir, að hlutur þeirra smærri verði ekki heldur fyrir borð borinn, heldur verði haldið áfram vegagerð á þeim eftir því, sem ástæður frekast leyfa. Enda hefur það verið gert, því að framlög til hinna stærri vega eru svipuð að upphæð og þau voru í fyrra, en heildarupphæðin um 900 þús. kr. hærri, og kemur það aðeins í hlut hinna smærri. En undan því finnst mér engin ástæða að kvarta, þar sem staðirnir, sem ég tel stóra, fá líka sínar framkvæmdir að mestu fyrir þær upphæðir, sem þar er ætlað. Það hefur ekki verið tekin hér upp nein sérstök fjárveiting til hinnar nýju Suðurlandsbrautar, sem mþn., sem starfað hefur 2 undanfarin ár, hefur nú gefið álit um. Það nál. er svo nýkomið, að ráðuneytið hefur enga ákvörðun tekið um afstöðu til þess enn, og því síður að Alþ. hafi verið skrifað um málið, svo að ég skal ekki fara lengra út í það, en vil aðeins vekja athygli á því, að það er ekki í fjárlfrv. ætluð nein upphæð til þessarar vegalagningar, þó að ýmsum kynni kannske að finnast það eðlilegra, að einhver upphæð væri þar nefnd. Nál. mþn. gerir ráð fyrir að skipta verkinu á 6 ár með 4 millj. kr. framlagi á ári, svo að ekki er um smáar upphæðir að ræða á þeim grundvelli, sem n. gerir ráð fyrir. Eins og ég sagði, skal ég ekki fara út í að ræða skiptinguna, um hana má alltaf deila, en ég vil aðeins að gefnu tilefni segja það, að það hefur sums staðar þar, sem hagkvæmt hefur þótt, verið unnið nokkuð meira en fjárl. gerðu ráð fyrir í ár, ef fé hefur verið lagt fram úr héraði að láni til bráðabirgða. Þetta hefur tíðkazt áður og gefizt vel. En frá ráðuneytisins hálfu hefur ekki verið undirgengizt neinar skuldbindingar aðrar en þær, að féð yrði endurgreitt viðkomandi aðilum, þegar veitt væri til þess í fjárl. Þessari reglu hygg ég, að verði haldið áfram, ef ekki kemur fram skýr þingvilji fyrir því. Er þetta tekið fram að gefnu tilefni frá hv. 2. þm. N.-M. Þar sem vantar aðeins litla vegkafla til þess að komast í samband við heil héruð og því tiltölulega litla viðbót við þá fjárveitingu, sem veitt er í fjárl., þá er engin ástæða, ef viðkomandi hérað vill lána og leggja í hættu einhverja fjármuni til þess að gera þetta, til að synja um, að það verði gert. Úr því ég var í 13. gr., skal ég með örfáum orðum einnig minnast á hafnargerðir. Þær hafa verið hækkaðar í till. n. um rúmlega 2 millj. í beinum framlögum, þar að auki er heimilt að taka allt að 2 millj. kr. lán til hafnarmannvirkja sérstaklega. Með hafnarbótasjóði verður þá til umráða til hafnargerða sem ríkisframlag á næsta ári, ef lánsheimildin verður notuð, rúmlega 7 millj. kr. Þetta er það hæsta, sem nokkurn tíma hefur verið varið til þessara hluta. Það er alveg sérstök ástæða til þess að hafa framlögin til hafnargerða veruleg á næsta ári. Það er gert ráð fyrir því, að á árunum 1946 og 1947 aukist skipastóllinn um allt að því 100 mótorbáta og 30 togara fyrir utan annan skipaflota, sem verið er að kaupa, og það er höfuðnauðsyn, að þessi skipafloti geti verið öruggur einhvers staðar, svo að hann reki ekki upp á land og ónýtist fyrir okkur, þegar við erum búnir að fá hann. Það hefur þess vegna verið höfð sú viðleitni af hv. fjvn., sem ég vildi fullkomlega taka undir, að láta þær hafnir ganga fyrir með fjárveitingu, sem eru fiskiskipahafnir, og þar sem vænta má, að veiði verði mest um hönd höfð, eins og t. d. hér við Faxaflóa og annars staðar þar, sem svipað stendur á um. Náttúrlega hefði verið æskilegast, að allt þetta framlag hefði komið úr ríkissjóði og hann hefði verið látinn annazt lántökuna, en eins og málum er komið og fjárl. orðin há, er ekkert við því að segja, þó að þessi upphæð sé tekin að láni, því að meiningin er, að það verði aðeins gert að þessu sinni. — Ég ætla ekki hér, frekar en um vegina, að gera hina einstöku staði að umtalsefni, um þá má alltaf deila, einn telur sig hafa fengið of lítið o. s. frv. En að gefnu tilefni frá hv. þm. S.-Þ. út af Húsavík sýnist mér hægt að svara hans máli með því að vísa til till. hv. fjvn., því að það er sjáanlegt, að hv. þm. þarf ekki að kvarta, því að bæði er fjárveitingin beint framlag umfram það, sem gert var ráð fyrir, og svo er heimild, eins og ég gat um, í nál. til þess að nota af lántökunni ákveðna upphæð, eins og þar er gert ráð fyrir, því að það er gengið út frá, að lánsheimildin verði notuð eins og fjvn. hefur lagt til í nál. sínu. Það mætti náttúrlega segja ýmislegt fleira um þetta, en ég tel ekki ástæðu til þess.

Svo langar mig til að minnast á nokkur atriði í till. n., sem ég er meira í vafa um en það, sem ég hef nú rætt. Það er þá í fyrsta lagi brtt. n. við 11. gr. b-lið, sem fjallar um opinbert eftirlit. Það heyra undir það ráðuneyti, sem ég hef með að gera, nokkrar stofnanir, sem n. leggur til, að verði allar skornar niður og fái engan eyri í fjárl. hér eftir. Það er í fyrsta lagi löggildingarstofan, sem er í fjárl. með 38 þús. kr. fjárveitingu, sem n. leggur til, að verði strikuð út. Þetta liggur í því, að n. gerir ráð fyrir, að tekjur stofnunarinnar verði hækkaðar það mikið, að ríkissjóður þurfi þar engu við að bæta. Það er rétt, að það hefur verið þannig, að löggildingarstofan hefur staðið undir sér, en með hækkuðum launum hafa útgjöldin hækkað nokkuð, og varð ekki að óbreyttum tekjum unnt að ganga frá rekstraráætlun nema með framlagi úr ríkissjóði, 38 þús. kr. En með hækkuðum þjónustugjöldum stofnunarinnar er sjálfsagt hægt að ná þessum jöfnuði, en það verður þá að gera sér ljóst, að um leið og framlagi ríkissjóðs er kippt burtu, verður að hækka skoðunargjöld löggildingarstofunnar. Það getur ekki farið saman að ætla að kippa þessu frá henni, sem ríkissjóður hefur greitt til hennar, en láta tekjurnar standa í stað.

Þá er önnur stofnun, sem lagt er til, að verði sirkuð út hvað fjárveitingu snertir. Það er Rafmagnseftirlit ríkisins. Það hefur samkv. áætlun 390 hús. kr. gjöld, en 340 þús. kr. tekjur og 50 þús. kr. framlag frá ríkissjóði. Þetta leggur hv. fjvn, til, að verði strikað út. Þetta þykir mér nokkuð orka tvímælis, nema gerð væri tilheyrandi lagabreyt., því að mest af tekjum rafmagnseftirlitsins er ákveðið með l. Störf rafmagnseftirlitsins vaxa með hverju ári, og það er mjög hættulegt að gera þær ráðstafanir, sem verða til þess að draga úr þessum starfsmöguleikum. Nú er hér að vísu ekki um stóra upphæð að ræða í hlutfalli við heildartekjuþörf stofnunarinnar, en að sjálfsögðu mætti færa þetta til betri vegar á sama hátt og hjá löggildingarstofunni með hækkaðri greiðslu, sem hún tæki fyrir störf sín, svo að það þyrfti enginn voði að vera á ferðinni, þó að þetta væri gert. En það þyrfti um leið að sjá um, að stofnunin gæti fengið þær tekjur, sem hún þyrfti til þess að standast reksturinn.

Svo kemur þriðji aðilinn, það er Skipaskoðun ríkisins, sem er í fjárl. með 118 þús. kr. og ekkert á móti. Það leggur n. til, að verði strikað alveg út og þá hafður á sá háttur, sem verið hefur hjá skipaskoðuninni, og ég sé ekki, hvernig þetta á að geta komizt í framkvæmd. Það er að vísu svo, að skipaskoðunarstjóri er ekki hér á landi, en er væntanlegur bráðlega, og hefur þess vegna ekki verið hægt að hafa samband um þetta við hann, en ég vildi eindregið fara fram á það við n., að hún frestaði þessari till. sinni til 3. umr. Ég tel ekki viðunandi á þessu stigi málsins, meðan ekki liggja fyrir um það skýlausari upplýsingar en hér eru nú, að strika skipaskoðunina alveg út. Ég vænti þess, að það megi þá alveg eins, ef það sýnir sig við rannsókn, að einhverjir möguleikar séu fyrir þessu, gera það við næstu umr., þegar skipaskoðunarstjóri er við, eins og að gera það nú.

Þá eru örfáar aths., sem ég vildi gera við 14. gr. Fjvn. hefur tekið upp þann hátt að færa styrkinn til húsabóta á prestssetrum af 14. gr. yfir á 20. gr., og er ekkert við það að athuga. En um leið hefur tveimur liðum verið slengt saman í 20. gr., sem heitir Til kaupa á jörðinni Hesti í Borgarfirði. Samkv. samningi, sem gerður hefur verið, kaupir landbrn. jörðina Hest til þess að láta þar fara fram rannsókn á sauðfjársjúkdómum, en nota átti andvirðið til að byggja á Hvanneyri. Þessi 150 þús. eru greiðsla frá ráðuneytinu fyrir sölu á jörð þessari, og tel ég, að þessa upphæð eigi að færa sér á reikningi, vegna þess að hún er annars eðlis. — Viðvíkjandi 14. gr. að öðru leyti er það að segja, að þar er farið inn á að fella niður smástyrk, 5000 kr., til málgagns íslenzku þjóðkirkjunnar. Ég sé ekki ástæðu til að fella þennan styrk niður og er því mótfallinn. Teldi ég heldur verra, að það væri gert en ekki. Það er fleira, sem lagt er til að fella niður, og eru þeir liðir einnig svo smáir og þannig vaxnir, að ég hélt n. gæti varla haft sig til þess. Sparnaður er ekki mikill, þótt þessir liðir séu felldir niður, og er það meira en vafasamt verk.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð mín fleiri. Það er ekki ástæða til, að allir séu ánægðir í þessu efni, en ég verð að segja, að yfirleitt get ég verið ánægður með þetta frv.

Ég vil vekja athygli á, að hér var lögð fram áætlun um jarðboranir, en hún hefur ekki verið tekin til greina. Brtt., hefur verið flutt um þetta efni af hv. 11. landsk. Ég hefði óskað, að gerð yrði grein fyrir þessu máli fyrir 3. umr. Möguleikar fyrir jarðborunum eru svo miklir, að við megum ekki við því að láta þá ónotaða, og kostnaður við virkjun af þessu tagi er minni en við vatnsaflið. Úr einni lítilli holu, sem gerð hefur verið í Hveragerði, er mér sagt, að streymi gufa, sem mundi nema 50–60 kw., ef hún væri beizluð. Það mætti því ef til vill spara sér lagnir þangað, en þær kosta mikið fé. Ég vænti þess, að n. vildi athuga þetta mál fyrir 3. umr. og að málið verði ekki afgr. fyrr.

Sjómannaskólanum er ætluð 1 milljón í fjárl., og er það talsvert meira en í fjárl. fyrir árið 1945, og er það því skilyrði bundið, að það verði endurgreitt á næsta ári. Það er ekki ástæða til að fara um málið fleiri orðum, en ég vænti þess, að n. taki bæði þetta mál og önnur, sem ég hef minnzt á, til athugunar fyrir 3. umr., svo og að þessari till. um afnám fjárframlags til skipaskoðunar verði frestað til 3. umr., þar til liggur fyrir álit skipaskoðunarstjóra. Varðar miklu, að vel sé frá þessum málum gengið.