16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1820 í B-deild Alþingistíðinda. (2982)

194. mál, útflutningur á afurðum bátaútvegsins

Pétur Ottesen:

Hæstv. atvmrh. mæltist til þess í gærkvöld, að þær brtt., sem fluttar hafa verið við þetta mál, yrðu teknar aftur til 3. umr., og tók ég fyrir mitt leyti undir það, að svo yrði gert hvað viðvíkur mínum till. Til þess kom þó ekki, þar sem málið var tekið af dagskrá, en umr. um það ekki lokið. Málið var tekið af dagskrá í því augnamiði, að því er mér skildist, að fjhn., sem hefur haft málið til meðferðar, gæti tekið málið til athugunar og þær till., sem fyrir liggja. Þetta horfir þannig við, að þessar till. eru um sama efni. Er því rík ástæða til að samræma það, sem hér er lagt til, í eina heild. Eftir upplýsingum, sem hér komu fram frá einum hv. nm., hefur n. ekkert sinnt þessu máli. Ég verð að segja það, að þar sem þetta er svo mikilvægt mál, að það snertir sölu á afurðum annars aðalatvinnuvegar landsmanna, þá er það harla einkennilegur háttur, að fjhn. Nd. skuli algerlega vanrækja að sinna þessu máli nokkurn skapaðan hlut. Hún tekur að sér eða meiri hl. hennar að flytja málið fyrir hæstv. ríkisstj. eða atvmrh. Svo bætast við þetta brtt. frá ýmsum mönnum og auk þess frá hæstv. atvmrh. sjálfum, en eigi að síður skýtur n. sér algerlega undan því að sinna málinu nokkuð, og það þrátt fyrir það að hæstv. atvmrh. hafi farið fram á, að ný athugun færi fram á málinu, og borið fram óskir til einstakra þm. um, að þeir tækju aftur sínar brtt. meðan n. athugaði málið. Þetta virðist harla einkennilegt og óvenjulegt fyrirbrigði á Alþ. Og ég verð að segja, að það er næsta einkennilegt samstarf eða samstarfsleysi, sem þarna á sér stað í þessari n. og í ríkisstj., að þeir, sem eru yfirlýstir stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., skuli ekki taka betur undir óskir hennar en þetta bendir til. Það, sem hér er um að ræða, er slíkt stórmál, að það á að gera sérstakar ráðstafanir til þess að selja afurðirnar við því verði, að þeir menn, sem þennan atvinnuveg stunda, geti haldið áfram því starfi. Að því stefna þær till., sem hér liggja fyrir. Ég verð að segja, að þetta er mjög einkennilegt. Og eins er það einkennilegt, að hæstv. ríkisstj. eða hæstv. atvmrh., sem málið heyrir undir, skuli ekki vera viðstaddur í d., þegar verið er að ræða um þetta mál, eins og á sér stað í sambandi við þessar umr. Mig hefði þó langað til að segja nokkur orð við hæstv. atvmrh. einmitt í sambandi við þessar brtt, En hann kemur nú þarna. Ég var að segja, að mér þætti ástæða til að segja nokkur orð við hæstv. atvmrh. í sambandi við þær brtt., sem ég lagði fram í þessu máli. Áður hafði ég talað um, — ég hugsa hæstv. ráðh. hafi ekki heyrt það, — að undarlegt væri það samstarfsleysi, sem lýsti sér milli ríkisstj. og fjhn., þar sem n. vanrækti að sinna málinu að öðru leyti en því að koma því á framfæri á Alþ., þrátt fyrir það þótt hæstv. atvmrh. hér á fundi í gærkvöld óskaði eftir, að slík athugun færi fram á málinu. Út af brtt. atvmrh. vildi ég segja það, að þær ráðstafanir, sem þar er talað um, þ. e. að leyfa ríkisstj. fyrir hönd ríkissjóðs að taka á leigu allt að 20 flutningaskip til þess að annast flutninga á fiski á enskan markað, þar sem þessir flutningar hafa algerlega lagzt niður í sambandi við þær breyt., sem nú hafa orðið, ég vildi segja það, að ef að þessu horfir, þá rekur nauður til þess, að þetta verði gert nú þegar. Nú stendur þannig á við Faxaflóa, að það er góður afli þessa dagana og mjög er að lagast með gæftir frá því, sem verið hefur. Hraðfrystihúsin hafa engan veginn undan við að verka þann afla, sem á land berst. Saltbirgðir eru að vísu enn þá nokkrar, en ganga mjög ört til þurrðar, ef ekki fæst önnur lausn á málinu, og auk þess eru sökum fólkseklu nokkrir erfiðleikar á því að verka fiskinn með þeim hætti. Þess vegna tel ég, að ef að þessu ráði er horfið og ríkisstj. leigi skip og komi aftur á fót flutningum á fiski á enskan markað, að þá verði að gera ráðstafanir nú þegar. Nú fer í hönd dymbilvikan og vegna frídaga verður miklu erfiðara og kostnaðarsamara að nota þá verkun á fiski að salta hann, og ef til vill er lokað fyrir það, að á þessum dögum verði hægt að koma þeirri verkun við. Þess vegna álít ég, að allt mæli með því, að þessum framkvæmdum verði hraðað sem kostur er, svo að hægt sé að nota aflahrotuna og góða veðrið, sem nú er þessa dagana. — Þetta er það, sem ég vildi láta koma í ljós við hæstv. atvmrh. Ég skal svo ekki blanda mér inn í eða leggja dóm á það, sem hér er lagt til í brtt. hæstv. atvmrh., t. d. það, að ef verðið á hraðfrystum fiski fer upp úr ákveðnu marki, séu sett l. um það, að hluti af því verði skuli tekinn af þeim, sem fiskinn eiga, og varið til þessara ráðstafana. Ég býst við, að ef litið er á þessa ráðstöfun með ísfiskflutningana og kaup á fiski til Englands, þá sé það öruggasti vegurinn fyrir ríkissjóð og rétt og sjálfsagt að reyna að tryggja sér möguleika á því að greiða þann halla. Það er sjálfsagt varfærnast að gera ráðstafanir í þessa átt, en hvort það er réttlátt út af fyrir sig að vinna upp þennan halla með þeim hætti, sem lagt er til, skal ég ekki leggja neinn dóm á. En það er sýnilegt, að með þessu er farið inn á tiltölulega nýja braut í atvinnulífi okkar og verzlun með því að gera slíkar ráðstafanir. Þá er enn fremur lagt til í þessum brtt., að ríkisstj. skuli heimilt að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs greiðslu á andvirði útfluttra afurða, sem seldar kunna að verða með gjaldfresti, enda hafi ríkisstj. samþykki til sölunnar. Þetta er afleiðing af því, að miklir erfiðleikar eru á því að selja hraðfrysta fiskinn og ef til vill verður að leita markaða í þeim löndum, sem eins og nú er ástatt, geta ekki greitt fyrir fiskinn við móttöku hans, og af þeim ástæðum verði að selja fiskinn með nokkrum gjaldfresti. Það er skiljanlegur hlutur, að það mundi valda miklum erfiðleikum fyrir þá menn, sem keypt hafa þennan fisk fyrir það verð, sem ákveðið er af því opinbera hér innanlands, að selja fiskinn með þessum hætti. Þeir einstaklingar, sem eiga þar hlut að máli, hafa ekki bolmagn til þess að bíða eftir greiðslu á fiskinum, og þess vegna verður til slíkra ráðstafana að grípa. En að því er snertir það, sem ég hef heyrt talað um, að þessar ráðstafanir gagnvart hraðfrysta fiskinum réttlæti það, að gripið sé þarna inn í og ákveðið að taka nokkurn hluta söluverðsins til sérstakra ráðstafana, að það réttlæti þessa ábyrgð, sem veitt er gagnvart útfluttum fiski, þá lít ég öðruvísi á það mál, af því að ég tel, að hér sé um að ræða ráðstafanir, sem snerti þjóðfélagið í heild, en ekki einstaka aðila þess. Það er vitað, að hér er um að ræða atvinnurekstur í landinu, sem fjöldi manna byggir afkomu sína á og er nú í vaxandi mæli að verða býsna stór liður í atvinnurekstri þessarar þjóðar. Frá því sjónarmiði séð virðist mér að hér sé um ráðstafanir að ræða, sem ekki sé hægt að tengja sérstaklega við hagsmuni eins aðila, hér er um að ræða alhliða hagsmuni þjóðfélagsins. — Þá er hér í brtt. hæstv. atvmrh., að hann leggur til, að hámark það, sem ábyrgð ríkissjóðs, þ. e. a. s. fyrir verðið á saltfiskinum, tekur til, sem er í frv. 5 þús. tonn, skuli hækkað upp í 7 þús. tonn. Um þetta liggja nú fyrir alls fjórar till. Ég varð líklega fyrstur til að flytja við þetta brtt., sem var miðuð við vetrarvertíðarveiði hér við Faxaflóa, að þetta skyldi taka til alls þess fisks, sem saltaður er til útflutnings til maímánaðarloka, en þá er talið nú orðið, að sé lokið vetrarvertíð hér við Faxaflóa. Nú hafa verið bornar fram brtt., fyrst af hv. 2. þm. S.-M., sem hann hefur að vísu tekið aftur og fellt beint inn í frv. Enn fremur hefur hv. 6. landsk. flutt hér brtt. við þetta sama atriði, sem er að því leyti samhljóða brtt. hv. 2. þm. S.-M., að þeir ætlast báðir til, að þessi sama ábyrgð nái til 1. okt. þessa árs. Mér finnst ég ekki hafa ástæðu til að taka aftur mína brtt., og getur hún þá komið fram sem varatill. hér við atkvgr. Fyrst verða náttúrlega bornar upp þær till., sem lengst ganga í þessu efni, og svo koll af kolli. Verði þær till. samþ., er mín náttúrlega þar með fallin, og þykir mér þess vegna ekki ástæða til að taka hana aftur að svo stöddu. Verði þær ráðstafanir ofan á, sem hér eru ráðgerðar, að því er snertir útflutning á fiski, legg ég á það áherzlu, að ég álít, að mjög mikils sé um vert, að undið sé að þessu nú þegar, og miða ég þá í því efni við þá þörf, sem fyrir hendi er um þetta í veiðistöðvum hér við Faxaflóa, og býst við, að einnig geti staðið líkt á bæði í Vestmannaeyjum og á Hornafirði og enn fremur máske líka á Vestfjörðum.