26.03.1946
Neðri deild: 95. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (3016)

205. mál, beitumál

Frsm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af sjútvn. samkv. ósk atvmrh. Eins og segir í grg. frv., er það samið af mþn. í sjávarútvegsmálum og hafði á sínum tíma verið sent þáv. atvmrh., Vilhjálmi Þór, sem tók þá við frv. og gerði á því talsverðar breyt. frá því sem mþn. hafði gengið frá því. Sá ráðh. lagði síðan málið fram í Ed., en þar náði það ekki fullnaðarafgreiðslu. En nú hefur hæstv. atvmrh. óskað eftir því, að sjútvn. Nd. flytti þetta frv. Frv. fylgir ýtarleg grg. frá mþn., en aðalefni þessa frv. er um það, að skipuð verði þriggja manna beitunefnd til tveggja ára í senn, og er hlutverk þessarar n. að fylgjast með því, eftir því sem hægt er, að alltaf sé til nægileg og góð beita fyrir bátaútveg landsmanna í sambandi við fiskveiðar. Þessari beitunefnd er síðan gefið vald, samkv. þessu frv., til þess að gera ýmsar nauðsynlegar ráðstafanir á þann hátt að tryggja það að nægileg beita sé alltaf til. Þannig er ætlazt til þess, að þessi beitunefnd geti tekið á leigu og annazt rekstur á beitufrystihúsum, ef með þarf, og jafnvel komið upp beitufrystihúsum, og er nokkur fjárveitingarheimild í frv. í þessu skyni. — Hins vegar er aðalstarf beitunefndar hugsað á þá leið, að hún haldi saman skýrslum á hverjum tíma um það, hversu beitumálum líður, hversu ástatt er með beituforða hjá bátaútveginum, og reyna að hafa áhrif á það, að ekki þurfi til vandræða að draga vegna beituskorts. — Þá er gert ráð fyrir því í frv., að allri beitu fylgi matsvottorð frá sérstökum beitumatsmanni, en eins og kunnugt er, hafa. útvegsmenn kvartað undan því, að sala á beitu hafi verið í mesta vandræðaástandi, þ. e. að þeir, sem verzlað hafa með beitu til sjávarútvegsins, hafa selt stórskemmda og óhæfa vöru til notkunar og fyrir allt of hátt verð. Það sýnist því ekki nema sanngjarnt mál að leggja til, og farið verði að hafa eftirlit með sölu á þessari vöru og það sé tryggt, að sú vara, sem seld er, sé nægilega góð.

Samkv. því, sem frv. leggur til, er ætlazt til, að hægt verði að koma þessum beitumálum fyrir á einfaldan hátt, svo að ekki þurfi að verða af því neinn teljandi kostnaður. Þá er einnig gert, ráð fyrir því í frv., að beitunefnd fái vald til þess að geta ákveðið hámarksverð á beitu og eins á ýmsum öðrum liðum í sambandi við beitukostnað útgerðarinnar, en það er kunnugt mál, að það hefur þótt mjög við brenna, að verð á beitu hafi verið alveg úr hófi hátt. Þeir, sem aðstöðu hafa til að frysta beituna, hafa fengið aðstöðu til þess að græða óhóflega á útveginum með því að verðleggja þessa nauðsynjavöru allt of hátt, og sýnist vera full sanngirni að leggja til, að sett verði verðlagseftirlit á beitusölu, engu síður en nú er eðlilegt að setja það — um flestar aðrar vörur, sem ganga kaupum og sölum í landinu.

Ég býst við, að sjútvn. muni athuga þetta mál nokkru nánar milli 2. og 3. umr., þó að n. flytji frv. — Ég sé svo ekki ástæðu til þess við þessa umr. að hafa um þetta mál fleiri orð.