16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1832 í B-deild Alþingistíðinda. (3029)

205. mál, beitumál

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson) :

Það er nú eins með þetta og önnur sjávarútvegsmál, að það þýðir ekkert að ræða það.

Mér þykir rétt að benda á rök, sem styðja mitt mál. Ég hygg, að stærstu rökin séu, að Fiskifélagið leggur til, að frv. verði fellt. Á fiskiþingi 1944 var það lagt til. Það færir þau rök í málinu, að nú sé búið að reisa svo mikið af frystihúsum, að viðhorfið sé breytt. Við Faxaflóa eru nú 22 frystihús, við Breiðafjörð 5, á Vestfjörðum 7, á Húnaflóa 6, við Skagafjörð 3, við Eyjafjörð 10, á Austurlandi 7 og í Vestmannaeyjum 5.

Það er engin þörf á þessu og hæpið, að á þessu verði nokkurn tíma annað en taprekstur. Ég legg til, að frv. verði fellt, en verði það samþ., mun ég bera fram brtt. um, að ekki megi leggja fram í þetta 700 þús. kr., því að það er orðið gegndarlaust, hvernig opinberu fé er sóað. — Ég skal svo ekki tefja umr.