25.02.1946
Efri deild: 71. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1854 í B-deild Alþingistíðinda. (3065)

30. mál, gagnfræðanám

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Það er ekki ætlazt til, að svona ræðum sé svarað, þær eru einungis til að tefja umræður. — Viðvíkjandi réttmæti brtt., sem kom inn í frv. í Nd., þá hrakti hv. þm. ekki með einu orði þá röksemd mína, að slíkt fyrirkomulag, sem brtt. fer fram á, gæti ekki staðizt. Við spurningu hv. þm. um, hvað þetta muni kosta, get ég gefið bezta svarið með því að vísa til ræðu hv. frsm. í þessum málum hér í d. Hann las upp áætlun um kostnað við að framkvæma þetta, sem frv. gera ráð fyrir. Hins vegar liggur ekki fyrir nein áætlun um þennan hluta sérstaklega. (BBen: E'r hægt að gera heildaráætlun án þess að vita um einstaka liði?). Eins og ég sagði, liggur engin sérstök áætlun fyrir um þennan lið.

Þá spyr hv. þm., hvort hægt sé að byggja nægilega marga gagnfræðaskóla, þar sem skólaskylda verði svo mjög aukin. En það er ekki um að ræða nema aðeins eins árs aukningu á skólaskyldu. Nú eru börn skólaskyld frá 7–14 ára, en frv. gerir ráð fyrir, að börn verði skólaskyld frá 7–15 ára. Á svipuðum misskilningi er það byggt, þegar þm. segir, að það sé með þessu frv. verið að ræna alþýðuskólunum frá fólkinu. Þm. virðist alls ekki hafa lesið frv.

Þá talar þm. um, að það eigi að ræna börnunum frá heimilunum. Hvað segir frv. um þetta? Jú, það gerir ráð fyrir, að skólaskylda í sveit verði óbreytt frá því, sem nú er, að viðbættu einu ári, þ. e. frá 10 ára aldri, ef heimilin vilja eða geta annazt kennsluna til þess tíma, og frá 10 ára aldri er barnið svo skylt að vera í skóla ½ veturinn. Þetta er nákvæmlega það sama og nú er. Hins vegar vildi allur þorri skólakennara, að skólaskylda yrði lögboðin til 16 ára aldurs, en frv. aðeins til 15 ára.

Hv. þm. sagði, að þeir, sem sæti áttu í mbn., hefðu yfirleitt ekkert unnið að skólamálum nema Ingimar Jónsson. Hið sanna er aftur á móti, að allir þessir menn hafa lengi starfað að skólamálum, og flestir í 18–20 ár.

Allt tal hv. þm. hneig í þá átt, að þetta frv. væri fram komið gegn vilja þjóðarinnar, almennings í landinu, og sérstaklega gegn vilja skólamanna. En sannleikurinn er, að allir skólastjórar á landinu hafa fengið frv. til umsagnar og sent sína umsögn og allir lýst fylgi sínu við frv., en Bjarni á Laugarvatni var að vísu ekki samþykkur því eina atriði í þessu frv. að lengja skólaskyldualdurinn. Að öðru leyti lýsti hann fylgi sínu við frv. — Og hvað snertir ránið á héraðsskólunum, er aðeins um að ræða að gera þá að gagnfræðaskólum og færa þá inn í skólakerfi landsins. Ætli þeir, sem hlut eiga að máli, telji þetta rán? Nei, það er fjarri, að hér sé verið að gera breytingar, sem menn við héraðsskólana eru á móti. Ég hef setið fund, þar sem allir þessir menn hafa samþ. frv. (JJ: Getur ráðh. sannað það? Komi ráðh. með það skriflegt). Það er auðvelt, en tekur að vísu nokkurn tíma. Hvað segir hv. þm. um þær ályktanir og svör, sem um getur í grg. frv., og allar þær skólanefndir og skólastjóra, sem hafa sent umsagnir um frv., og ekki einungis alla þessa menn, heldur og þm. Nd., sem hafa samþ. frv.? Eru þetta þá allt tómir vitleysingar eða þjófar? — Það er í rauninni þarflaust að standa í umr. við menn, sem eru í slíku ásigkomulagi, að þeir eru ekki færir um að rökræða málið.

Hvað snertir undirbúning málsins, þá fengu þm. öll frv. á síðasta vorþingi, og hljóta þeir því að hafa haft nægan tíma til að athuga þau. Það snertir mig þess vegna einkennilega, þegar þm. eins og þessi hv. síðasti ræðumaður eru svona ókunnir frv.