17.04.1946
Efri deild: 110. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1892 í B-deild Alþingistíðinda. (3151)

107. mál, húsmæðrafræðsla

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Brtt. sú, sem hv. þm. Dal. bar fram, er alveg í samræmi við þær brtt., sem bornar hafa verið fram við önnur hliðstæð frv. um orlof kennara, og mun ég að sjálfsögðu taka afstöðu til hennar í samræmi við afstöðu mína til þeirra annarra líkra brtt. En út af því, sem hv. 1. þm. N.-M. talaði um, að húsmæðraskólunum kynni að vera nokkuð erfitt fyrir um kennslukrafta, þá vil ég aðeins benda á það, að í 9. gr. er ekki aðeins sagt, að skólarnir geti haft kennara fyrir hverja 12–16 nemendur, heldur einnig, að ríkið greiði styrk til kennara fyrir þær kennslustundir, sem umfram eru. Ég held, að í n. hafi það verið skilið svo, að til þess sé ætlazt, að ríkið greiði kennslulaun. Ef kennari er fyrir t. d. hverja 12 nemendur og 6 nemendur eru umfram í skólanum, þá greiði ríkið helming kennaralauna til þess að halda uppi stundakennslu. Og ég get hugsað mér, að fyrir það sé hægt að taka 1–2 kennara, ef þeir gætu haft annað starf með. Ég sé ekki, að brtt. hv. 1. þm. N.-M. breyti þessu ákaflega mikið, þar sem talað er um 10 í staðinn fyrir 12. Það getur í raun og veru staðið svona á, að það geti skipt máli, en mér sýnist, að af ríkisins hálfu sé sæmilega búið að skólunum að þessu leyti, að þar, sem eru 30 nemendur, þá megi úrskurða þeim skóla 2 kennara og svo hálf kennslulaun fyrir aukakennslu.

Það er svo alveg út af fyrir sig, hvernig fer með þá skóla, sem hann talaði um. Treysti ég mér ekki til að svara í hverju tilfelli svona á augabragði. En mér hefur skilizt, að um þessa skóla fari eins og um nýstofnun væri að ræða eða samkv. 2. gr., þar sem vissir aðilar ákveða, hvar skólinn skuli standa, og ef við gerum ráð fyrir, að fleiri sýslur eða bæir standi að hverjum húsmæðraskóla, og ef ákveðið er, að skólinn skuli vera á Hallormsstað, þá verður hann þar. Og um þá stofnun hefur mér skilizt, að hún yrði afhent til þeirra nota, ég veit ekki með hvaða skilyrðum. En ég held, að á Hallormsstað hafi ríkið komið upp þessum byggingum og sé því eðlilegast, að skólinn hverfi inn í þetta skólakerfi bara þegjandi og hljóðalaust og rísi svo aftur eins og hann væri nýstofnaður. Ég set þetta ekki fram hér sem neitt endanlegt svar í þessu efni. En mér hafði skilizt af hv. þm. Dal., að honum þykir eðlilegast, að Staðarfellsskólinnhverfi inn í þetta kerfi, en af því að hann hefur þarna sérstöðu, þá komi sýslan í staðinn fyrir þá sjóðstjórn, sem skipað hefur aftur tvo af nm. Ég sé, að hæstv. kennslumrh. er hér. Hann mundi kannske geta gefið nánari skýringu á þessu, en mér finnst réttast fyrir héruðin að afhenda sína skóla inn í þetta skólakerfi, sem hér er um að ræða. Ef ákveðið væri, að húsmæðraskólar væru stofnaðir víðar, þá kemur spurningin, hver ætti þær byggingar, sem nú eru á Hallormsstað.