17.04.1946
Efri deild: 110. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1893 í B-deild Alþingistíðinda. (3153)

107. mál, húsmæðrafræðsla

Jónas Jónsson:

Ég vil við þessa síðustu umr. um þetta mál fara fáeinum orðum um þá einkennilegu meðferð, sem höfð er á þessu máli og fleirum á þessu þingi. Sú aðferð er viðhöfð fyrst og fremst í skólamálunum. Það er samið um, að málin skuli ganga fram, þ. e. a. s., það er lifað eftir því, — það er lítið gagn, þó að hv. þm. Barð. neiti því, ef hann og flokksmenn hans beygja sig fyrir því eins og samningi, það er þá bara klókskapur að leyna því, að samningurinn hafi verið settur, og það er gangur fleiri mála, sem lýsir þessu. Ég vil benda á mál, sem hefur verið hér nýlega og ég sá enga ástæðu til að vera við, af því að mér var sama um það eins og það var, tryggingamálið, sem var komið inn í samninga stj. af flokki, sem var svo tvíráður um að vera í samningunum, að það virðist hafa oltið á einu eða tveimur atkv., hvort úr því yrði. Sá flokkur, sem bar fram þetta tugmilljónamál, gerði það til þess að losna við að vera í stjórnarsamningunum. Allir vita, að þetta var það, sem Alþfl. hefur mestan áhuga fyrir, en engir aðrir, en hann notaði þetta að verulegu leyti til þess að losna við að vera í stjórnarsamvinnunni, sem hann var ekki hrifinn af, en hinir gengu að þessu.

Ég vil benda á, að þessi aðferð, sem verkamannaflokkarnir, sérstaklega Alþfl., hafa innleitt hér á þingi, það er sem sé að semja fyrirfram um framgang órannsakaðra mála. En þótt stundum áður hafi verið samið ógætilega á þennan hátt, þá eru þó samningarnir um þessar almannatryggingar það glæfralegasta af öllu saman, og það má reyndar segja um launamálið líka. Og þess vegna furðar mig ekki, þó að frá Alþfl. komi eitthvað fleira ógætilegt og glæfralegt, eins og þessi uppeldismál, sem hér hafa legið fyrir.

Ég vil aðeins benda á, og það kom að nokkru leyti fram í hinni hógværu ræðu hv. 1. þm. N.-M., að það mál, sem hér liggur fyrir, er allt frá undirbúningi þess svo fjarstætt, að þeir, sem hafa við það fengizt, hafa enga hugmynd um, hve marga kennara þarf að hafa við húsmæðraskóla, og ef þetta verður staðfest, þá brotnar það niður á því, að á bak við málið er engin þekking eða vit. Þessi þáttur í skólum landsins, húsmæðraskólarnir, hefur reynzt vel, þeir eru bezt lukkuðu skólar landsins, og nú á að fara að umturna þeim af n. manna út í bláinn, þar sem enginn maður hefur unnið neitt að húsmæðraskóla eða starfað neitt í sambandi við þá, heldur er þetta gert aðeins af því, að um það var samið fyrirfram.

Ég vil leyfa mér við þessa síðustu umr. að láta í ljós fullkomna óbeit mína á því fyrirkomulagi, sem haft er við málsmeðferð hér á þingi. Þetta er ekki alveg nýtt, það var innleitt 1934 af Alþfl. í sambandi við þáverandi stjórnarmyndun. Þá var frá hálfu þessa flokks krafizt, að tryggingar, sem voru óundirbúnar, skyldu ganga fram, ef Framsfl. fengi fram óhjákvæmilegar hallærisvarnir viðvíkjandi landbúnaðinum. En þetta, sem gert var 1934 með mikilli ógætni, var gert á miklu hærra stigi í fyrra haust, og nú mun þjóðin súpa því meir seyðið af því, því fleiri og stærri sem málin eru, sem samið er um fyrirfram, að gangi fram óundirbúin.

Það leiðir af sjálfu sér, að parlamentarisminn breytist ekki lítið við vinnubrögð eins og þessi, því að hann ætlast til, að þm. geti og eigi að greiða atkv. eftir beztu samvizku. En tryggingafrv. ber þannig að, að Alþfl. heimtar það fram. Flokkurinn sjálfur veit ekki, hvernig það er undirbúið, og í flokknum eru fáir menn, sem hafa myndað sér um það einhverja skoðun. Flokkurinn tók það eftir ógætilegri útlendri fyrirmynd, sem átti ekki við hér, og sennilega hefur ekki einn einasti þm. Sjálfstfl. né einn einasti þm. Framsfl., sem var ekki í samvinnu við ríkisstj., vitað neitt um málið. Hér er knúið inn í þingið af Alþfl. mál, sem kostar tugi milljóna á ári. Þetta og fleiri slík dæmi sýna, hver skrípamynd það verður af þingstjórn og þinghaldi, þegar svona er farið að, þegar menn eru bundnir fyrirfram til þess að vera með málum, sem þeir vita ekkert um og eru jafnvel mótfallnir. Ég er viss um, að ef menn væru óþvingaðir í þessum skólamálum og tryggingamálum, þá hefðu þau alls ekki verið látin ganga fram. Ég vil þess vegna nota þessa umr. til að endurtaka mótmæli mín sem einstakur þm. gegn þeirri aðferð, sem hér er höfð, að nauðga fram málum með nauðungarsamningum milli flokka, sem eru órannsökuð og illa undirbúin eins og tryggingamálin, sem verða aldrei framkvæmd, vegna þess að það er algerlega um megn þjóðinni að rísa undir þeim kostnaði, sem þar er gert ráð fyrir.

Ég skal nú bregða upp einu gömlu dæmi um þessi vinnubrögð. Árið 1934, þegar Alþfl. knúði fram alþýðutryggingarnar, beitti Sjálfstfl. sér á móti þeim af mikilli hörku. En af því að Alþfl., sem var stjórnarfl., vissi hvað málið var óundirbúið, þá treysti hann sér ekki til að taka stjórnina í sínar hendur, heldur fleygði sjúkratryggingunum, sem voru vandasamastar, í hendurnar á andstæðingi flokksins og málsins, Sjálfstfl. Framsfl. þorði þó að taka ábyrgð á afurðasölumálunum og baráttunni um þau. Þetta var viðurkennt af landlækni sjálfum, sem vann mest að þessum sjúkratryggingum, að hann treysti sér ekki til að koma þeim í höfn nema fleygja þeim í hendurnar á mönnum, sem höfðu verið á móti þeim. Þetta er gott dæmi um ábyrgðarlausa pólitík af þessu tagi.

Nú er verið að knýja fram nýja löggjöf um hér um bil alla skóla landsins. Það er gert á þann hátt, að menn vita, að það verður ekki framkvæmt og enginn undirbúningur fylgir því. Ég vil taka það sem gleggsta dæmið, að eftir þessum l., sem nú er verið að reka áfram, má gera ráð fyrir, að a. m. k. helmingur af öllum skólabörnum landsins eigi rétt á og kannske vilji taka menntaskólanám. Það er búið að skamma mig síðan 1328, í 16 ár, fyrir að takmarka inngöngu í menntaskólann þannig, að nemendurnir kæmust þar fyrir. Ég gerði ráðstafanir til, að ekki væru teknir fleiri en þar kæmust inn í hús. Þetta þótti ógurleg harðstjórn. En svo skrýtilega hefur viljað til, að þeir flokkar og þeir menn, sem mest hömuðust yfir þessu, hafa ekkert gert þarna til breytingar, þegar þeir voru í valdaaðstöðu. Og af hverju? Af því að það var ekkert húspláss til og það er ekki hægt að hafa skóla, nema hann hafi einhvers staðar húsaskjól. En nú er verið að samþ. l. um það, að í staðinn fyrir þessa 25, sem teknir hafa verið inn í menntaskólann, verði fyrirskipað, að helmingi allra unglinga á landinu verði séð fyrir fjögurra ára menntaskólanámi. Þannig hafa menn gengið að þessu algerlega blindandi. Menn hafa ekki gert sér grein fyrir, hver ábyrgð fylgdi þessu, því að nú koma hundruð og kannske þúsundir manna, sem eiga rétt á menntaskólanámi. Hvernig halda menn, að standi á því, að Reykjavík, sem vill koma 100 unglingum í 1. bekk, skuli ekki gera það? Það er aðeins af peningaleysi. Þess vegna eru hlægilegheitin í þessu. Þess vegna er Bör-Börsons-pólitíkin tekin upp af þessari hæstv. stj. Þess vegna eru birt í blöðum og útvarpi víðáttumikil loforð út í bláinn, þar sem forustumennirnir vita ekkert, hvað þeir eru að gera eða hvernig þeir eigi að standa við það.

Þetta atriði, sem ég hef hér bent á, þegar flokkar semja fyrirfram um framgang mála, sem eru þar að auki stórkostleg fjárhagslega, er svo fjarstætt, að það er óhugsandi annað en þingstjórn biði við það mikinn álitshnekki, enda er það ekki furða, þó að þeim flokki, sem vill láta þingstjórnina stranda og fjárhaginn í heild, þyki þetta gott.

Það má segja eitt til afsökunar þeim, sem að þessu standa, og það er það, að okkar þjóð virðist svo sérstaklega hugarhaldið að eyða á sem allra skemmstum tíma öllum þeim svokallaða gróða, sem nú hefur safnazt í landinu, og ég skal játa, að þá er það góður máti að samþ. þessi frv., sem eru nógu vitlaus. Það er kannske einn kostur við þessi frv., og frá honum vil ég segja strax. Þau flýta fyrir því að eyða þessum vesölu krónum, sem menn eru svo óánægðir með að eiga. Það getur vel verið, að við Íslendingar séum svo, að við getum ekki hugsað okkur annað en að vera fátækir og að það sé hér yfirleitt ekki hægt að tala við menn mælt mál, fyrr en fátæktin er komin aftur af fullum krafti. Það er nýbúið að samþ. í d. þetta merkilega frv. um tryggingar, sem er sú glæfralegasta fjármálaframkvæmd, sem gerð hefur verið af því tagi. Það er í ábyrgðarleysi sett fram af fákænum mönnum, sem eru engir menn til að standa undir þeirri ábyrgð, sem á þeim hvílir fyrir það. Og ofan á allan þennan vanskapnað, sem er eins og toppblómið á þessu, þá er svo gengið frá, að það má aldrei safnast neinn sjóður. Fólk hefur tilhneigingu til að safna sjóðum. Hér má það ekki. Eins og vita mátti, er nú búið að umturna öllu svo á þessu Börsons-tímabili, að það má ekki safnast neinn sjóður. Það er sjálfsagt engin tilviljun, það er til hróss fyrir þjóð okkar, að það er ein bók, sem hefur orðið vinsæl hjá þjóðinni gegnum útvarpið. Það er bók eftir Norðmann,, sem var skrifuð eftir fyrra stríðið, sem dregur dár að aumingjaskap, uppskafningshætti og ræfildómi þeirra ríku. Þegar hún var lesin í útvarpið, varð hún vinsælli en nokkurt annað lesið mál hefur verið. Af hverju? Af því að við höfðum þá gamansemi, að við fundum, að þetta var talað til okkar gegnum þetta spaugilega ritverk, sem var gert til að draga sundur í háði menningarleysi stríðsgróðans, fundum, að það átti erindi til okkar. Ég hef ekki hirt um að vera við þessar umr., eftir að búið var að ganga frá barnaskólafrv., þar sem ekki var einu sinni hægt að fá kaupstaðina gegnum sína fulltrúa til að vera með breyt., sem gekk í þá átt að hjálpa fátækum kaupstaðabörnum, sem velta á mölinni á sumrin og enginn hugsar um. Þegar ég sá það hugarfar, sem lá á bak við slíkt, þá hætti ég að hafa áhuga fyrir því. Og það er þetta, sem leiðir af samkomulagi og fyrirframsamningum flokka, hvaða flokkar sem það eru. Framsfl. gerði slíkan slæman business við Alþfl. áður fyrr, en þessi verzlun er stærri. Þegar ég sá, að menn voru blindaðir, ekki farið eftir málstað og bezt, að vanþekkingin væri sem mest, þá var mér sama, og því hef ég ekki kært mig um að vera við þessar umr. Ég veit, að þetta er stór háðung fyrir þá, sem hafa barizt fyrir því, en það er leiðinlegt fyrir þá, sem hafa neyðzt til að greiða atkv. með því. En ég spái því, að þetta muni ekki gera mestan skaða, heldur muni það vera skömmin af því, sem verður mest, og þetta á sér sitt eigið heiti. Þetta er Bör-Börsons-stefnan, og bæði tryggingamálið og skólafrv. eru Öldurstaður íslenzks þjóðlífs.