27.11.1945
Neðri deild: 40. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2139 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Hv. 2. þm. N.-M. beindi þeirri spurningu til mín í gær, hvort satt væri, að leyfður hefði verið útflutningur á fóðurbæti til Færeyja. Ég gat ekki svarað þessu þá, en hef nú grennslazt eftir því hjá viðskiptamálaráðuneytinu og fékk það svar, að enginn slíkur útflutningur hefði verið leyfður, en kaupmaður hefði hringt og spurt um, hvort nokkuð þýddi að sækja um leyfi til að flytja út 10 tonn af maísmjöli til Færeyja. En fulltrúi hafði gefið honum það svar, að það væri ekki ómaksins vert að skrifa slíka umsókn, því að slíkt væri alveg vonlaust. Ég hygg því, ef orðrómur gengur um þetta efni, sé hann með öllu tilhæfulaus.