27.04.1946
Neðri deild: 125. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2103 í B-deild Alþingistíðinda. (3403)

249. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Atvmrh. (Áki Jakobsson) :

Þegar skipuð var þessi byggingarn. til að annast byggingu verksmiðjanna á Siglufirði og á Skagaströnd, voru engin tök á því að framkvæma strax fullnaðaráætlanir um það, hvað þetta mundi kosta. Það varð að velja um það annaðhvort að gefast upp eða byrja strax á þessum framkvæmdum og sjá til, hvað þetta yrði mikið. Það sýnir sig, að 20 millj. er ekki nóg, og er því gert ráð fyrir að hækka lántökuheimild ríkisstj. upp í 27 millj. kr. Ég vil benda á, að það er miðað við, að báðar verksmiðjurnar hafi 17500 mála afköst á sólarhring. En þetta er þó miðað við lægstu afköst, og geta verksmiðjurnar því farið upp í miklu meiri afköst þegar góð eru skilyrði, — 10000 mála verksmiðjan getur t. d. farið upp í 13000 og 7500 mála verksmiðjan upp í 8000–9000 mála afköst.

Ég vil svo leyfa mér að fara fram á það við hæstv. forseta, að hann afgr. þetta mál nú þegar á nýjum fundum, svo það geti farið til Ed. í dag, því að það er nauðsynlegt að fá þetta mál afgr. strax.