27.04.1946
Neðri deild: 128. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2112 í B-deild Alþingistíðinda. (3447)

248. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Ég vil út af þessu síðasta, sem hv. 8. þm. Reykv. sagði, ganga inn á það, að það er æskilegt, að þeir, sem eru heilsu sinnar vegna ekki færir um að sækja kjörfund á kjörstað, eigi almennt að fá tækifæri til þess að greiða atkv. í kosningum. Hins vegar vil ég ekki fallast á, að það eigi að vera gerður greinarmunur þannig, að maður, sem er veikur á sjúkrahúsi, fái að kjósa, en hinn, sem veikur er heima hjá sér, fái ekki að kjósa, því að það er tilviljun, hvort Pétur eða Páll hefur komizt á sjúkrahús. Báðir mennirnir sækja um sjúkrahúsvist. Það er kannske sami sjúkdómur að þeim báðum, og kannske sami læknir, sem mælir með, að þeir fái báðir sjúkrahúsvist, en getur hins vegar ekki greint á milli, hvor þeirra hafi fyrir það meiri þörf — og annar fær sjúkrahúsvist, en hinn ekki. Þá finnst mér ekki rétt, að sá, sem á sjúkrahúsið komst, fái að neyta kosningarréttar síns, en hinn ekki, sem verður að liggja heima hjá sér. Í þessu mundi liggja réttindamismunur. Hitt get ég verið sammála um, að veita báðum þessum mönnum sama rétt, og í því liggur það, að n. hefur sérstaklega viljað taka það fram, að um leið og hún viðurkennir, að sú hugsun, sem fram kemur í brtt. hv. 8. þm. Reykv., sé rétt, að sá, sem er veikur, en andlega heilbrigður, eigi að hafa rétt til að kjósa, þá eigi samt ekki sá, sem liggur á sjúkrahúsi, að hafa um þetta rétt fram yfir annan slíkan, sem liggur veikur heima hjá sér. Og hv. 8. þm. Reykv. veit vel, að l. frá 1923 um kosningar á heimilum voru misnotuð. Og þegar svona stutt er til þingloka eins og nú, verður að athuga að samþ. ekki breyt. á frv., sem geta orðið til þess, að það gangi ekki fram, ef slík 1. eru annars þörf, eins og er álit n. En eins og ég hef tekið fram, vil ég ekki, að neinn álíti, að allshn. vilji ganga á móti því réttlæti, sem felst í brtt. hv. 8. þm. Reykv. Hins vegar get ég ekki séð, að sá samanburður sé réttur, sem hv. 8. þm. Reykv. gerði, er hann sagði, að í brtt. sinni væri farið fram á það, sem hliðstætt væri því, að íslenzkir menn, sem dvelja erlendis, gætu neytt kosningarréttar síns á skrifstofum íslenzkra ræðismanna og útsendra fulltrúa, eins og nánar er tilgreint í frv., vegna þess að þeir menn, sem þar geta neytt atkvæðisréttar síns utan Íslands, hafa allir sama möguleika í þessu efni. Ef þeir eru heilbrigðir, hafa þeir allir sama möguleika í þessu efni, og það er þá aðeins vegna þeirra vangæzlu eða klaufaskapar að þessu leyti til, ef þeir neyta ekki kosningarréttar síns. En í þessu tilfelli, sem hér er um að ræða í sambandi við brtt. hv. 8. þm. Reykv., er um það að ræða, að nokkur hluti þeirra, sem veikir eru, þ. e. þeir, sem eru heima hjá sér, fái ekki að neyta kosningarréttar síns, heldur hinir, sem veikir eru og liggja á sjúkrahúsi. Þarna er því alls ekki tvennu líku saman að jafna, sem hv. 8. þm. Reykv. vill telja hliðstæður.

Svo er það að lokum, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði viðkomandi þeim, sem greiddu atkv. fyrir kjördag. Ég vil benda þessum hv. þm. á, að það liggur fyrir úrskurður um það bæði undirkjörstjórna í héruðum og yfirkjörstjórnar, að atkv. þeirra manna, sem greiða atkv. fyrir kjördag, en eru heima í kjördæminu á kjördegi, eru ekki gild, sem l. líka alveg nákvæmlega taka fram.