16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1634 í B-deild Alþingistíðinda. (3558)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Guðmundur 1. Guðmundsson) :

Aths. sú, er ég gerði við brtt. hv. þm. Barð. virðist hafa farið mjög í taugarnar á honum, og það hefur gengið svo langt, að hann hefur gert mér upp orð, sem ég alls ekki hef viðhaft. Hann gat þess, að ég hefði ráðizt að sér með óhróðri. Það, sem ég gerði, var aðeins, að ég lýsti hans eigin till., og ef það er óhróður um hann, læt ég hann um það, en ófagurt er þá hans álit á sinni eigin till.

Hv. þm. ræddi um brtt. við 3. gr. frv. Ég vil ekki halda uppi neinum deilum við hv. þm., en mér virðist hann sjálfur færa rök að því, að brtt. nái ekki samþ. Hann sagði, að bankinn vildi heldur lána til einstaklinga en samtaka fiskimanna, og það er þetta, sem hann vill verja og viðhalda. Þetta er stefna, sem ég vil ekki fylgja.

Þá tel ég, að ekki beri að krefjast dráttarvaxta, nema um mikla vanrækslu sé að ræða, en um það vill hv. þm. Barð. hafa ströng ákvæði, þó að hann viti hins vegar, að ríkisvaldið beitir yfirleitt ekki þeirri heimild nema í sérstökum tilfellum. — Í 13. gr. er ákveðið um mat og reglur og ráðh. ætlað að hafa óbundnar hendur. Það vill þessi hv. þm. fyrirbyggja, en með því lýsir hann óbeint yfir, að hann vantreysti ráðh.

Þá minntist hv. þm. á 15. gr. og talaði þar um klæki af minni hálfu. Þetta er fjarstæða eins og fleira í ræðu þm. Hins vegar tel ég, að ekki komi til mála að segja upp lánum. Hv. þm. bað um skýringu á því, ef menn af féleysi yrðu að hætta. Það eru til lagaákvæði um slíkt, bæði um bætur og skyldur í því sambandi. Ef hins vegar ómögulegt er að framkvæma eitthvað, þá eru menn ekki bótaskyldir fyrir að gera það ekki, en slíkt er gert út um eftir lögum og reglum.

Ég sé svo ekki ástæðu til frekari umræðna að sinni.