05.02.1946
Sameinað þing: 24. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (3656)

67. mál, húsaleiga

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Það hefur mikið verið deilt um húsaleigulögin, sem eðlilegt er, því að þó að þau hafi verið sett af nauðsyn og framkvæmd þeirra samvizkusamlega af hendi leyst, hafa þau valdið ranglæti og oft mjög augljósu misræmi. Það hefur ekki verið gerlegt að afnema þessa löggjöf, enda þótt ýmislegt hafi farið fram í sambandi við húsnæðismálin, sem æskilegt hefði verið að koma í veg fyrir. Margir, sem aðstöðu hafa haft til að byggja, hafa leigt húsnæði með óhóflegum ágóða, meðan þeir, sem áður höfðu eignazt hús, verða að sitja með leigjendur í gamalli leigu, sem varla er fyrir viðhaldskostnaði og sköttum. Þetta hefur farið fram, ekki vegna húsaleigulaganna eingöngu, heldur þrátt fyrir þau. Ég hygg, að fljótvirkasta ráðið til úrbóta í þessu máli sé að efla húsbyggingar fyrir almenning hér í bæ, og varðandi það hefur verið flutt frv., sem nú liggur fyrir. Ed.

Ég held, að leggja beri áherzlu á það, að það byggingarefni, sem fæst, verði notað til að byggja íbúðir fyrir almenning, sem menn geti svo eignazt með góðu móti. Þetta held ég að sé auðveldasta leiðin til að koma í veg fyrir það óheilbrigða brask, sem nú á sér stað í húsnæðismálunum.

Mér væri mjög ljúft að láta fara fram rannsókn eins og um getur í brtt., en sú rannsókn hlýtur að taka nokkuð langan tíma, og auk þess þarf sú rannsókn að fara fram um allt land, þar sem hús eru leigð, svo að vart er hægt, að þeirri rannsókn yrði lokið meðan þetta þing situr. Auk þess tel ég það galla á till., að ekki er gert ráð fyrir heimild til þess að greiða kostnaðinn úr ríkissjóði. Það eru engir starfskraftar til þessara rannsókna í ráðuneytum stj., og verður því að skipa til þess menn utan ráðuneytanna. Og þó að ekki sé skipuð milliþinganefnd, þarf heimild til að greiða þann kostnað, sem óhjákvæmilega verður við þessa athugun.