05.02.1946
Sameinað þing: 24. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (3666)

67. mál, húsaleiga

Frsm. (Jóhann Jósefsson) :

Það er nú búið að ræða nokkuð þetta mál, og hefur hvorki till. né meðferð allshn. fengið góða dóma. Hins vegar er það, og það kemur enn betur í ljós, þegar menn fara að ræða þetta mál frá fleiri en einni hlið, að það eru ýmsir erfiðleikar á því að kippa, hér í lag, svo að dugi, á stuttum tíma. Það virðist því í sjálfu sér hafa verið fullkomlega réttmætt hjá hv. flm. að fara fyrst og fremst fram á rannsókn, og ég vil fyrir mitt leyti alls ekki taka undir það, sem hér hefur komið fram í ræðum sumra hv. þm., að bæði till. og meðferð n. á henni beri vott um það, að hér eigi ekkert að gera. Það er mjög ofmælt. En ef þessum hv. þm. hefði ekki þótt nóg að gert, þá hefði farið vel á því, að þeir hefðu komið með róttækari till. í þessu efni.

Að því er snertir það, hvað n. hefur hugsað sér um kostnaðinn við þessa rannsókn, þá skal ég játa, að ég hafði ekki í huga, að þetta þyrfti að kosta verulegt fé. Hins vegar vil ég benda á, að í okkar till. er farið fram á, að þessi rannsókn fari tafarlaust fram. Nál. er undirskrifað 5. des., og er þar gert ráð fyrir, að þessu starfi verði lokið fyrir næsta reglulegt Alþingi. (PZ: Og næsta þing á að koma saman 15. febr. samkvæmt l.). Já, það var svo, þegar frá þessu var gengið. Það er því ekki hægt að álíta, að n. hafi sýnt málinu tómlæti og ætlist til, að ekkert sé gert. Hitt er annað mál, að þegar hæstv. dóms- og félmrh. bar sig upp undan því í heyranda hljóði, að hann gæti ekki látið starfsmenn stjórnarráðsins gera þetta og hann mundi þurfa að kaupa sér aðstoð, þá fannst mér hlýða til að undirstrika vilja n. á að rannsókn gæti farið fram, að bera fram þá brtt., sem ég gerði, að heimila að verja nokkru fé til þessara hluta. Annars má á það minna, og ég held, að ég fari rétt með það, að form. húsaleigun. er í stjórnarráðinu, starfsmaður í einu rn. þar, gott ef það er ekki í rn. hæstv. dómsmrh., og ég held, að form. húsaleigun. í Reykjavík sé líka starfsmaður í stjórnarráðinu, og kann þetta að réttlæta það, að allshn. taldi, að hæstv. ríkisstj. hefði innan sinna vébanda menn, sem væru öllum hnútum kunnugir. Annars geri ég ekki ráð fyrir, að n. geri það að neinu kappsmáli, hvernig till. er afgr. Það er bitamunur, en ekki byrðar á till. hv. flm. og brtt. allshn.

Hv. þm. Borgf. var að stangast eitthvað á við þetta og var að tala um, að ég hefði viljað ota nýbyggingarráði óþarflega mikið fram. Hann undraðist, að ég skyldi ekki hafa boðið, að nýbyggingarráð tæki þetta að sér. Ég tel þetta varla svara vert, enda skorti algerlega í ræðu hans, að hann færði fram rök fyrir, að nýbyggingarráð eða ég fyrir þess hönd hefði viljað ota því fram hér á þingi fram yfir það, sem lög standa til. Það kæmi auðvitað ekki til mála að vísa svona máli til nýbyggingarráðs.

Ég skal svo ekki orðlengja meira um þetta, þar sem málið þarf líka að fá afgreiðslu nú á þessum fundi.